„Þeir geta skotið líkama minn, en draumana geta þeir ekki skotið”

Malala Yousafzai var sæmd friðarverðlaunum Nóbels í dag, þann 10 október 2014, en hún er aðeins sautján ára að aldri og því einn yngsti einstaklingur sögunnar sem tekur hefur á móti Friðarverðlaunum Nóbels.

Einungis fimmtán konur hafa hlotið Friðarverðlaun Nôbels, en auk Malala sem hefur barist ötullega fyrir rétti stúlkna til menntunar, hlaut Kailash Satyarthi, sem er indverskur mannréttindafrömuður og er sextugur að aldri, einnig Friðarverðlaun Nôbels í ár.

Friðarverðlaunin hljóta þau Malala og Kailash fyrir þrotlausa mannúðarbaráttu beggja fyrir aukinni virðingu fyrir mannréttindum barna og sjálfsögðum rétti þeirra til menntunar, en Kailash hefur unnið þrotlaust mannréttindastarf í þágu indverskra barna og barist mót kúgun, mansali og þrælkunarvinnu um árabil.

Malala var í skólanum þegar henni bárust fréttirnar, að sögn talskonu hennar en hún er búsett ásamt fjölskyldu sinni í Birmingham, Englandi þar sem hún gengur í einkaskóla og var við lærdóm þegar nefndin gerði úrskurð sinn ljósan fyrr í dag.

Í yfirlýsingu sem norska valnefndin sendi frá sér til fjölmiðla segir meðal annars:

Börn eiga að hafa óskipt aðgengi að menntun og þau má aldrei kúga i fjárhagslegu gróðaskyni. Meðalaldur einstaklinga í vanþróuðum ríkjum er ansi lágur, en um 60% íbúa í þróunarríkjum er undir 25 ára aldri.  Forsendur fyrir friðsamlegri framþróun á hnattræna vísu er sú nauðsyn að réttindi barna og unglinga séu virt.

Malala hlaut nær banvænt skotsár á höfði af völdum Talíbana árið 2012 fyrir það eitt að hafa ekki einungis sótt sér menntun sjálf heldur fyrir að hafa hvatt aðrar stúlkur til að gera slíkt hið sama. Íslamska öfgahreyfingin gerði þá einnig alvarlegar athugasemdir við bloggfærslur sem Malala birti árið 2009 þar sem hún hvatti til aukins aðgengi að menntun og undirstrikaði nauðsyn þess að börn hefðu aðgengi að skólagöngu.

Á vefsíðu Malala segir m.a.:

Ég hugsa oft um árásina og ég sé hana enn ljóslifandi fyrir augunum á mér. En jafnvel þó þeir komi til að drepa mig, mun ég segja þeim að gjörðir þeirra séu rangar, að aðgengi okkar að menntun séu grundvallarréttindi okkar.”

Malala var flutt í hasti á breskan spítala, þar sem gert var að sárum hennar, en þegar sár hennar tóku að gróa tók Malala ákvörðun; hún skyldi beita sér fyrir menntun í víðum skilningi og hefur oftlega látið þau orð falla að skotárásin hafi veitt henni aukinn styrk ef eitthvað er.

„Þeir geta skotið líkama minn, en þeir geta ekki skotið draumana mína. Þeir skutu mig því þeir vildu koma því áleiðis að baráttu mína fyrir aukinni menntun yrði að stöðva. Með öllum ráðum. En með árásinni gerðu þeir afdrifarík mistök; þeir særðu mig og gegnum árásina sjálfa lærðist mér því að jafnvel dauðinn styður baráttu mína fyrir auknu aðgengi að menntun. Jafnvel dauðinn sjálfur vill ekki taka mig í sinn faðm.”

SHARE