Þekkir þú einhvern sem haldinn er vöðvafíkn?

Útlitslegar ranghugmyndir hafa í gegnum tíðina verið tengdar kvenlíkamanum. Síðustu ár hefur komið í ljós að sú ríka áhersla sem lögð er á útlit í vestrænni menningu er í auknum mæli farin að beinast að karlmönnum. Konur sem þjást af lystarstoli og búlemíu eru sannfærðar um að þær séu allt of feitar þrátt fyrir að í augum annarra séu þær (allt of) grannar. Hvað karlmennina varðar er þessu hins vegar þveröfugt farið. Karlar vilja vera stærri og meiri um sig og þörfin fyrir að auka vöðvamassann vex.

Vöðvafíkn er því sjúkdómur sem talin er af sama meiði og lystarstol. Þessir sjúkdómar eiga það sameiginlegt að byrja með þráhyggju sem beinist að líkamsímynd sjúklingsins. Sjúkdómar þessir leiða til hegðunar sem getur verið skaðleg og jafnvel banvæn.


Þeir sem greinst hafa með vöðvafíkn
eru í langflestum tilfellum karlmenn undir tvítugu
 

 

Hver er orsök vöðvafíknar?

Ekki er að fullu vitað hvað orsakar vöðvafíkn. Margir samverkandi þættir hafa þar áhrif. Sjúkdómurinn virðist þó vera tengdur menningu og tíðaranda og er hann algengastur innan vestrænnar menningar. Algengi vöðvafíknar hefur farið stöðugt vaxandi síðustu árin samstiga vaxandi þrýstingi tískuheimsins á karlmenn um að halda sér í formi og vera grannir, vera V-laga í vextinum og vöðvastæltir.

Hvernig er að þjást af vöðvafíkn?

Flestir karlmenn sem sækja líkamsræktarstöðvar þjálfa reglulega án þess að eiga við vöðvafíkn að stríða. Mat þeirra á sjálfum sér er eðlilegt og markmiðið yfirleitt að vera í góðu formi, líta vel út og stunda heilbrigt líferni. Hins vegar er ákveðinn hópur karlmanna sem fer yfir eðlilegu mörkin og lóðalyftingar verða að þráhyggju. Sjúklingar sem þjást af vöðvafíkn upplifa sig granna og væskilslega sama hversu vöðvamassinn er orðinn mikill. Sálfræðingar hafa sett fram þá tilgátu að þetta sé ein leið fyrir einstaklinga með lágt sjálfsmat, þ.e. að einblína á ytra útlit til að draga að sér jákvæða athygli.

Sjá einnig: Hún hefur þyngst um 18 kg og lítur stórkostlega út

Hver eru einkenni vöðvafíknar?

Sjúklingar sem þjást af vöðvafíkn fórna öllu til að byggja upp vöðvamassa og nýta allan frítíma í að þjálfa sem mest. Í slæmum tilfellum getur þetta valdið því að sjúklingar einangrast. Þessir einstaklingar nota stera og ýmis fæðubótarefni til að auka vöðvamassann enn frekar.

Helstu einkenni sjúkdómsins eru:

 • sjúklingurinn hefur áhyggjur af því að hann sé ekki nógu stæltur og grannur
 • sjúklingurinn eyðir miklum tíma í lóðalyftingar og er óeðlilega upptekinn af matarræði sínu
 • þessi mikli tími sem eytt er í lóðalyftingar hefur áhrif á félagslíf sjúklingsins, hann einangrast og hættir að sinna vinnu vegna tímaleysis. Hann forðast að sækja staði þar sem athygli gæti beinst að líkamsvexti hans og er stöðugt upptekinn af því að hann sé lítill og væskilslegur
 • sjúklingur heldur áfram stífum æfingum, sérstöku matarræði, neyslu fæðubótarefna og lyfja, þrátt fyrir að hann viti að það geti haft skaðleg áhrif á heilsu hans.

Hvað er til ráða?

Mikilvægt er að vera upplýstur og vakandi fyrir einkennum vöðvafíknar.

Stærsti áhættuhópurinn eru ungir karlmenn sem sjá fræga kynbræður sína í fjölmiðlum „massaða og fitt“ 

Mikilvægt er að fá þá einstaklinga sem þjást af sjúkdómnum að hætta að bera sig saman við myndir í fjölmiðlum af þekktum einstaklingum (frægum stjörnum) og nota sem fyrirmynd. Sjúklingurinn þarf að líta á sitt eigið umhverfi, á venjulegt fólk og átta sig á því að með þeirri tækni sem til staðar er í dag er ekki allt sem sýnist.

Ef þú ert foreldri, ættingi eða ástvinur leitaðu eftir einkennum sjúkdómsins:

 • líkamsþjálfun í meira en 2 klst. á dag, á kostnað áhugamála, heimavinnu og tíma með félögum og vinum.
 • mikil notkun á fæðubótarefnum og þá fyrst og fremst kreatíni og próteinum, og hugsanlega steranotkun
 • stærð háls- og herða úr hlutfalli við aðra líkamshluta
 • vöðvamassi líkamans verður að þráhyggju.

Hverjar eru batahorfur?

Þvi fyrr sem sjúklingur áttar sig á að um vandamál er að ræða og leitar aðstoðar fagfólks aukast líkurnar á að hann nái bata. Í mörgum tilfellum er um undirliggjandi þunglyndi eða kvíða að ræða og hefur atferlismeðferð hjálpað mörgum sem eiga við sjúkdóminn að stríða. Lyfjameðferð hefur einnig reynst gangleg og eru þá notuð þunglyndislyf.

Sjá einnig: „Anorexía rænir þig æskunni“ – Vildi vera ung alltaf og svelti sig frá 10 ára aldri

Alvarlegar afleiðingar?

Flestir þeir sem þjást af vöðvafíkn misnota stera og eru í mikilli hættu vegna andlegra og líkamlegra aukaverkana þessara lyfja.

Aukaverkanir steralyfja eru síðkomnar og fela m.a. í sér

 • hækkun á kólesteróli sem leiðir með tímanum til hjarta- og æðasjúkdóma
 • truflun verður á lifrarstarfsemi sem hefur margháttaðar afleiðingar á líkamann,
 • eistun rýrna og lifandi sæðisfrumum fækkar sem veldur ófrjósemi og stækkun getur komið fram á blöðruhálskirtli,
 • árásarhneigð og andfélagsleg hegðun getur brotist út.

Þessir einstaklingar eru svo uppteknir af því að stunda líkamsþjálfun til að auka vöðvamassann að þó þeir verði fyrir meiðslum láta þeir það ekki aftra sér við æfingar. Slíkt getur aftur leitt til frekari skemmda á vefjum og auknum vandamálum.

Hvernig er hægt að lækna vöðvafíkn?

Vöðvafíkn er sjúkdómur sem hefur bæði geðræn og líkamleg einkenni og þarf því meðferðin að beinast að báðum þessum þáttum. Því er mikilvægt að fagaðilar meðhöndli sjúkdóminn og myndi teymi sem stjórnar meðferðinni. Þetta teymi ætti að standa saman af lækni, sálfræðingi eða félagsráðgjafa og næringarfræðingi. Mikilvægt er að sjúklingur skilji einkenni sjúkdómsins og afleiðingar hans. Í flestum tilfellum er hægt að meðhöndla sjúklinginn án innlagnar á sjúkrahús. Í sumum tilfellum er nauðsynlegt ásamt viðtalsmeðferð að nota lyfjameðferð sérstaklega ef um þunglyndi eða þráhyggju- og áráttueinkenni er að ræða.

Hvaða lyf er hægt að nota?

Yfirleitt eru ekki notuð lyf til lækninga á vöðvafíkn. Ef þunglyndiseinkenni eða þráhyggju- og áráttueinkenni eru ríkjandi í sjúkdómsmyndinni eru notuð ákveðin þunglyndislyf.

 Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo
SHARE