ÞETTA ER SEXÍ: Fimm eiginleikar sem kveikja í konum

Hvað kveikir í konum? Í raun og veru? Eru það olíubornir karlar, rauðar rósir – feit seðlaveski – mjúkmælgi og táraflóð eða grjótharðir folar?

Getur verið að gamla máltækið; að karlmenn vilji sjá en að konur vilji vera séðar – hafi eitthvað til síns máls? Hvað gerist þegar hveitibrauðsdagarnir eru á enda og hversdagurinn tekur yfirhöndina? Hvað þykir konum sexí í daglegu lífi? Hvað er kynþokki í raun og veru? Er þrúgandi ábyrgðarkennd til að mynda sexí? Er töff að borga eigin reikninga? Getur verið að jarðbundinn karlmaður sem segir sannleikann kveiki meir í konu en ljúflyndur lygari sem hverfur við sólarupprás?

Snyrtimennska

Þrifinn karlmaður er skipulagður karlmaður. Skipulagður karlmaður er sjálfstæður karlmaður. Og sjálfstæður karlmaður sem tekur upp óhreina sokka og gengur sjálfur frá handklæðinu er sexí karlmaður. Það er ótrúlega seiðandi og sjarmerandi að sjá fullorðinn karlmann leggja frá sér kaffibollann í vaskinn, fara óumbeðinn með ruslið út í tunnu og létta þannig mesta álaginu af konunni, sem annars stendur alein vörð um borðtuskurnar á heimilinu … tóm uppþvottavél, hreint eldhúsborð og brosmildur karlmaður er alveg svaðalega sexí.

Einlægni

Allir gráta af og til – karlmenn líka. Sjálf er ég á þeirri skoðun að sannur töffari sé sá karlmaður sem þorir að sýna tilfinningar sínar. Að því sögðu langar mig að bæta því við að miklu skiptir hvernig við túlkum eigin tilfinningar gagnvart maka okkar. Þannig er hæfileg einlægni til að mynda mjög sexí – en grátandi syndaflóð klukkan níu á þriðjudagsmorgni getur orðið leiðigjarnt. Þróttmikil og þroskuð ákveðni karlmanns er tælandi – frekjukast á kassanum í Bónus og þreytandi þagnarskeið er hins vegar harðbannað með öllu. Það er einfaldlega sexí að valda eigin tilfinningum og geta unnið úr þeim á þroskaðan máta.

Samkennd

Karlmaður sem getur sett sig í spor annarra, hlær ekki að óförum þeirra sem minna mega sín og er trúr eigin hugsjónum er svaðalega sexí. Karlmaður sem er fylginn sér og þorir að viðurkenna eigin mistök og breyskleika er gífurlega sexí. Og karlmaður sem býr yfir þeim fágæta eiginleika að geta hlegið að sjálfum sér … hann hreppir bikarinn.

Tryggð

Varla þarf einu sinni að minnast á þá staðreynd að ekkert er meira sexí en karlmaður sem er tryggur í ástum. Varla þykir nokkurri konu það eitt sexí að sjá elskhugann í sleik við aðra? En tryggð ristir dýpra en svo að strandi á þeirri staðreynd að maðurinn hefur ekki verið við aðra konu kenndur frá því ástir tókust með turtildúfunum. Heldur er sú tryggð sem ristir dýpra – vináttan og nándin – alveg hrikalega sexí. Að eiga traustan vin í eiginmanni sínum er ómetanlegt og ekkert er meira æsandi en karlmaður sem kann með leyndarmál ástkonu sinnar að fara.

Mjúkmælgi

Já. Þetta er alveg satt. Það er fátt meira sexí en falleg orð sem fela í sér sannleikskorn. Bros getur dimmu í dagsljós breytt og karlmaður sem kann að tala fallega við eiginkonu sína án þess að bæta í og skreyta er alveg ógurlega aðlaðandi. Það eru litlu hlutirnir í lífinu sem skipta mestu máli og orðin þrjú – ÉG ELSKA ÞIG – hafa fengið ófáa konuna til að fækka klæðum. Að ekki sé minnst á þegar full alvara liggur að baki orðunum þremur.

Það – gott fólk – er alveg hrikalega sexí.

SHARE