Þjóðarsál: ,,Baráttan við að viðhalda eigin lífsgæðum hefur valdið kreppu í samkennd”

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

​​Ég er þeirrar skoðunar að Ísland sé ekki bara í fjárhagslegum sárum eftir hrun bankanna. Reiði er það sem aðallega einkennir samfélag okkar í dag, ásamt sterkri sjálfsbjargarhvöt. En baráttan við að eiga pening til þess að viðhalda eigin lífsgæðum hefur valdið kreppu í samkennd. Náungakærleikurinn hefur svo sem aldrei haft himinhátt krónugildi, eins og bankareikningurinn minn getur vitnað til um eftir áralanga vinnu við hin svokölluðu umönnunarstörf, enda hefur mér iðulega verið tjáð hvað ég er ,,góð” og ,,dugleg” að vinna þau störf.

Sumir virðast líta svo á að ég hafi höfðinglega afsalað mér veraldlegum gæðum til þess að vinna með fólk frekar en dauða hluti. Ég ætla að leiðrétta þann misskilning hér og nú. Á mínu heimili eru bæði húsgögn og raftæki, sum meira að segja nettengd. Bílinn minn gengur ekki fyrir ást eða einhyrningaryki, bara bensíni. Ég get bæði farið út að skemmta mér og stundað áhugamál af kappi. Og nei ég er ekki ,,vel gift”, heldur ómenntuð, einhleyp og þekki alveg hugtakið erfiður mánuður. Samt sem áður lifi ég afskaplega innihaldsríku lífi.

Og af hverju í ósköpunum er ég að telja þetta allt upp? Jú, af því ég veit af eigin reynslu að sama hversu vel eða illa gengur fjárhagslega, þá er ALLTAF hægt að styðja við næsta mann. Ég og fleiri höfum valið það að gerast stuðningsforeldrar. Ég er svo glöð að geta sagt að í því reiða og leiða samfélagi sem ég bý í, get ég sett gleði og væntumþykju í mitt daglega líf – með því einu að opna heimili mitt fyrir EINU barni.

Í gegnum eitt barn er ég mun fróðari um hluti sem ég hefði annars aldrei kynnst. Ég upplifi augnablik, gleði og hlátur sem ég gæti ekki fengið á annan hátt. Það sem ég veit og þekki svo vel er að ég er stuðningur við heila fjölskyldu, með mörgum einstaklingum. Bara í gegnum EITT barn. Af því að raunin er sú að á bakvið eitt barn, sem hefur þörf fyrir stuðning, er heil fjölskylda sem þarf stuðning. Sumar tímabundið, aðrar fyrir lífstíð. Það er hægt að gefa heilli fjölskyldu hluti sem engin fjárhæð getur keypt. Það er hægt að gefa foreldrum hvíld, tíma til að gleðjast eða syrgja. Það er hægt að gefa systkinum samverustundir með foreldrum sem ekki eru líkamlega og andlega fjarverandi. Það er mögulegt að gefa öðrum frítíma. Hlutir sem mörg okkar taka sem gefnum. Og oft þarf ekki meira en eina helgi í mánuði til að hjálpa heilli fjölskyldu.

Untitled

Það þarf engar gráður eða sérfræðiþekkingu til þess að vera stuðningsforeldri, þú þarft bara að hafa rými í þínu daglega lífi og hjarta fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra. Ef þú átt þetta til getur þú haft samband við félagsyfirvöld í þínu bæjarfélagi. Af því sama hvernig ástandið er í fjármálaheiminum hverju sinni, þá er alltaf þörf fyrir samkennd og náungakærleik í samfélaginu.

1979599_10152332382062863_3451376932089733079_n

Sigrún Gulludóttir

-stuðningsforeldri sem var einu sinni lítil stúlka og fékk tækifæri og tíma í gegnum stuðning frá öðrum.

 

SHARE