Þjóðarsálin: Í Guðs bænum hjálpaðu þeim sem eru þunglyndir

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS 

————————

Þannig er staðan að ég hef ekki sagt neinum mitt versta leyndarmál. Það sem situr alla daga og allar nætur inni í mér og segir mér að segja öllum frá en á sama tíma er ég hrædd vegna þess hversu illa fólk (sem er ekki í þessu ástandi eða hefur verið í þessu ástandi) skilur þennan andlega sjúkdóm.

Já, ég er að tala um þunglyndi, þetta orð sem kemur upp endrum og eins, oftast í fjölmiðlum þegar einhver frægur einstaklingur hefur ákveðið að eina leiðin til þess að vera ánægð/ur og að líða vel sé í gegnum sjálfsvíg.

En málið er að þetta byrjar ekki svona. Manneskja vaknar ekki bara einn daginn og ákveður að best sé að enda líf sitt. Nei, þetta þróast yfirleitt yfir langt tímaskeið þar sem einstaklingi hefur liðið illa og hefur ef til vill dottið í hug að klípa sig eða klórað sig, vitandi það að það sendir boðefni sem róar mann niður og lætur manni líða vel, en bara í nokkrar sekúndur.

Síðan tekur sá einstaklingur eftir því að þessi aðferð er hætt að senda þessi efni þegar sá hinn sami klípur sig eða klórar þannig að hann/hún  fer að fara yfir í eitthvað aðeins meira „extreme“. Þá fer þessi einstaklingur ef til vill að lemja sig það fast að það skilur eftir mar eða einnig getur verið að hann fari bara beint yfir í það að skera sig.

Hann eða hún hugsar kannski „þetta mun bara gerast í þetta eina skipti, ég mun aldrei gera þetta aftur, bara þetta eina skipti“ og þá fer þessi einstaklingur að framkvæma þessa athöfn. Síðan gerist ef til vill eitthvað slæmt aftur og þá snýr hann sér aftur að þessarri athöfn og í þetta skiptið hugsar hann kannski: „Ég mun bara halda mig á þessum hluta húðarinnar (ef hann hefur valið sjálfskaða) og ég mun ekki gera neitt meira, það mun enginn taka eftir þessu og þetta mun gróa strax“.

En svo er raunin ekki, það byrjar kannski þannig en síðan fattar sá hinn sami að honum langar að gera þetta dýpra og dýpra þannig að hann finni eitthvað fyrir þessu, vegna þess að hann er hættur að finna fyrir þessum grunnu sárum sem hann var að gera.

Síðan fer hann alltaf að færa sig yfir í verri og verri form af sjálfskaða og þarf að velja á milli þess að borga fyrir einhverja hluti til að skaða sig með eða einhverja hluti til að laga sárin með, þannig að sá hinn sami hugsar „Það lítur örugglega betur út ef ég borga fyrir það sem lagar mig í staðinn fyrir það sem eyðileggur mig“ og þá velur sá hinn sami að stela því sem hann notar til að skaða sjálfan sig en borgar fyrir allt hitt.

Þarrna er sá hinn sami kominn mjög djúpt inn í þunglyndið og ef ekki er gripið inn í með aðgerðum tafarlaust er mjög líklegt að sá hinn sami muni enda líf sitt, ekki endilega viljandi, heldur vegna slyss, vegna þess að sá hinn sami gat ekki haft hemil á blóðinu sem kom út úr sárunum á honum.

Það eru mjög margir sem ná bata en því miður ná ekki allir bata og þá fer það oft á sem verstan veg. Því miður eru mjög margir sem ekki ná bata og fremja sjálfsvíg en á undan því eru mjög mörg merki um það að aðilinn sé þunglyndur og sé að hugsa um að fremja sjálfsmorð, og hér eru nokkur þeirra:

– Alltaf að tala um dauðann, skera sig, brenna sig, lemja sig, storkar örlögunum með því að taka áhættur sem gætu leitt til dauða, svo sem að keyra mjög hratt eða að hlaupa yfir götur á rauðu ljósi.

 

– Missir áhuga á einhverju sem aðilanum þótti vænt um áður, segir alltaf að aðilinn eigi sér enga von eða sé hjálparlaus, segir hluti eins og: „Það væri betra eg ég væri ekki hér“ eða „ Ég vil komast út“.

 

– Skiptir allt í einu um skap frá því að vera mjög leiður yfir í það að vera rólegur eða lítur út fyrir að vera glaður, talar um sjálfsmorð eða að drepa sig mjög oft og síðan er það að aðilinn fer að heimsækja fólk eða hringir í það til að segja bæ í síðasta sinn.

 

Hér með mun ég láta fylgja með mikinn fróðleik um þunglyndi og einnig hvað aðstandandi geti gert til þess að hjálpa:

 

Til eru 3 tegundir þunglyndis, þær eru Djúp geðlæg (Major depression-depressive episode), Geðhvörf (Bipolar disorder eða manic depressive illness) og Óyndi (Dysthymia).

 

Djúp geðlægð:

Einkennin eru þau að aðilinn er búinn að finna fyrir þunglyndi á einu eða fleiri tímabilum sem hafa varað í a.m.k 2 vikur. Lundin verður þung og allur áhugi hverfur eða verður mjög lítill og getan til að gleðjast ýmist minnkar eða bara hreinlega hverfur. Þreyta og framtaksleysi tekur yfir. Sjálfsálit lækkar, svartsýni eða vonleysi tekur gjarna yfir hugsanir. Matarlyst og svefn breytast gjarnan (minnka eða aukast), sektarkennd verður oft mjög áberandi og einbeiting ófullnægjandi. Þessu ástandi fylgja iðulega einhver líkamleg óþægindi. Margir fyllast vanmætti og óska þess að þeir vakni ekki upp að morgni eða finna hvernig sjálfsvígshugsanir vakna og geta orðið mjög áleitnar og tælandi. Í alvarlegu þunglyndi getur vonleysi og sektarkennd valdið því að einstaklingurinn verður sannfærður um að aðrir séu betur komnir án hans. Slík vanlíðan skerðir verulega getu einstaklingsins til að vinna, læra, hvílast, borða og taka þátt í athöfnum sem áður voru gefandi eða áhugaverðar.

Óyndi:

Hefur verið með mjög þunga lund stanslaust í a.m.k. 2 ár. Þeir sem eru með óyndi geta lýst því þannig að þeir sjá ekkert á góðan hátt og hugsa alltaf alla hluti á neikvæðan hátt. Einkenni þunglyndis eru þó færri en í djúpri geðlægð og það skerðir ekki eins mikið á þann þátt að geta tekið þátt í lífinu á venjulegan hátt. En hættan á því að fá djúpa geðlægð hjá þessum hópi er samt mjög mikill eða um 10% sem lenda í því.

Geðhvörf:

Einnig þekkt sem geðhvarfasýki og tvískauta lyndisröskun, er ekki eins algeng lyndisröskun og þunglyndi. Geðhvörf eru á hinn bóginn þrálátari sjúkdómur sem alla jafna á sér líffræðilegri rætur. Geðhvörf einkennast af sveiflukenndu hugarástandi sem felur í sér bæði uppsveiflur og niðursveiflur. Einnig eru iðulega einhver tímaskeið þar sem þunglyndis- og örlyndiseinkenni geta verið til staðar samtímis (mætti nefna slíkt tvílyndi). Í örlyndi (oflæti/manía) getur einstaklingurinn verið ör, skrafhreifinn og fullur orku. Örlyndi hefur áhrif á hugsunarhátt, dómgreind og félagslega hegðun og veldur oft alvarlegum vandamálum og árekstrum við umhverfið.

Orsakir geta verið:

Áfall: Þunglyndi getur komið ef manneskjan hefur lent í einhverju áfalli, þ.e. hefur misst foreldri, verið gagngrýnd í uppvextinum, neikvæðs sjálfsálits.

Erfðir: Það er að einhver í ætt þinni hafi verið með þunglyndi og það getur erfst til þín. Það er ekki sjúkdómurinn sjálfur sem erfist, heldur er það fremur tilhneigingin til að veikjast undir álagi. Erfðaþátturinn er sterkari hjá þeim sem greinast með geðhvörf heldur en þeim sem greinast með þunglyndi en fá aldrei oflæti.

Greining:

Greining fer oftast fram hjá sérfræðingi, þ.e. sálfræðingi eða geðlækni. Algengt er að próf eins og Mælikvarði Becks á geðlægð (BDI) eða önnur sambærileg próf séu notuð. Slík próf eru ekki síður mikilvæg til að sjá árangur meðferðar. Hér á landi eru einkennin stuðst við ICD-10 flokkunarkerfið á sjúkrastofnunum, en það er flokkunarkerfi sem gefið er út af alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Einnig er nokkuð algengt að sérfræðingar hér á landi noti viðmið greiningarkerfis bandaríska geðlæknafélagsins (DSM-IV)

Meðferðir:

Meðferðirnar eru nokkrar, svo sem viðtalsmeðferð, hugræn athyglismeðferð, atferlismeðferð, samskiptameðferð og fjöldskyldumeðferð.

Viðtalsmeðferð: Það getur verið mjög gagnlegt fyrir þunglynda einstaklinga að komast í viðtalsmeðferð. Í vægari tilfellum er þetta oft eina meðferðarformið sem þarf til þess að hjálpa viðkomandi að létta sína lund.

Hugræn atferlismeðferð: Í hugrænni atferlismeðferð við þunglyndi er unnið sérstaklega með hugsanir sjúklingsins enda einkennast hugsanir þunglyndis sjúklings af mikilli sjálfsgagnrýni, svartsýni og tilhneigingu til þess að mikla fyrir sér erfiðleika sem við er að etja. Meðferðin gengur út á að kenna einstaklingnum að vera gagnrýninn á þessar bjöguðu hugsanir í stað þess að samþykkja þær gagnrýnislaust og auk þess að gera tilraunir í daglegu lífi til að kanna hvernig hægt sé að ná sem mestum árangri í meðferðinni. Þannig má draga úr svartsýni og hjálparleysi sem einkennir hugsanagang í þunglyndi. Heimaverkefni miða að því að yfirfæra það sem lærist í meðferðartímum á raunverulegar aðstæður sjúklingsins og breyta þeim vítahring sem sjúklingar eru gjarnan komnir í með hegðun sína og hugsanir.

Atferlismeðferð: Í þessu meðferðarformi er fyrst og fremst unnið með atferli sjúklingsins. Það er almennt erfiðara að hafa áhrif á líðan folks en atferli. Á hinn bóginn fylgir oft betri líðan breyttu atferli, t.d. í samskiptum á vinnustað eða í hjónabandi. Þannig er hægt að hefja ferli sem leiðir smám saman til betri lundar og betri samskipta. Þunglyndir einstaklingar eru oft ákaflega óvirkir og athafnasnauðir sem leiðir til þess að þeir velta sér upp úr eigin vanlíðan. Með því að leggja upp með breytt hegðunarmynstur er gjarnan hægt að hefja vaxtarhring sem leiðir til betri heilsu.

Samskiptameðferð: Þetta er skammtímameðferð sem tekur oftast 12-18 heimsóknir sjúklinga með vikulegu millibili. Þessi tegund meðferðarforms var þróuð sérstaklega til þess að takast á við þunglyndi og lögð er megináhersla á að leiðrétta eða breyta núverandi félagsstöðu sjúklings. Dagurinn í dag er í brennidepli í meðferðinni og þau samskipti sem verða á milli meðferðaraðila og sjúklings. Þau eru síðan yfirfærð á raunverulegar aðstæður.

Fjölskyldumeðferð: Fjölskyldumeðferð er stundum nauðsynlegt til að ná árangri í þunglyndismeðferð, einkum ef eitthvað í samskiptamunstri fjölskyldunnar veldur þunglyndi. Þunglyndi maka hefur ávallt mikil áhrif á hinn aðilann í sambandinu. Það ætti að vera regla í allri meðferð að bjóða maka hins veika að koma með í 1 eða fleiri viðtöl eftir aðstæðum.

Hjálp frá aðstandanda: Aðstandendur gegna oft mikilvægu hlutverki í bata þunglynds aðila. Aðstoð þeirra sem standa næst okkur hindrar þó alls ekki alltaf þróun alvarlegs þunglyndis og sjálfsvíg eiga sér stað í sumum tilvikum þrátt fyrir mikla og góða aðstoð nánustu vina og aðstandenda. Eftir að meðferð er hafin geta aðstandendur flýtt fyrir batanum með stuðningi sem getur verið í formi hvatningar, eftirlits með lyfjagjöf og samverustundum. Einkum er hjálplegt að reyna að virkja hinn veika eftir mætti. Meðferðaraðilar geta oft leiðbeint fjölskyldunni í þessu ferli. Með sama hætti getur skortur á nánum tengslum og stuðningi aukið líkurnar á því að þunglyndi verði langvinnt. Í sumum tilvikum er þó um mjög alvarlegt þunglyndi að ræða sem krefst margvíslegra úrræða og er mikilvægt að aðstandendur gefist ekki upp þótt móti blási heldur leiti allra mögulegra leiða til úrbóta fyrir hinn veika. Stundum getur þá þurft að koma til innlagnar á geðdeild um tíma.

Þannig að þegar einhver segir að hann sé þunglynd/ur eða líði illa, ekki hunsa það, ekki segja „þetta mun hverfa, þú munt jafna þig“ þó að það sé góður möguleiki að það muni gerast, en einnig er góður möguleiki að sá hinn sami muni enda í sjálfskaða og einnig sjálfsvígi ef ekki verður gripið inn í.

Í  guðanna bænum, grípið inn í ef þið vitið um einhvern sem á við vandamál að stríða þegar það kemur að þunglyndi eða vanlíðan. Það gæti verið systir, bróðir, vinur eða vinkona, frænka, frændi eða jafnvel mamma eða pabbi. Þunglyndi getur komið fyrir hvern sem er, þannig að hjálpaðu við að bjarga lífum og hjálpaðu manneskju sem er döpur eða þunglynd.

SHARE