Ég fæ kvíðahnút í magann þegar ég heyri fólk rífast. Sérstaklega karlmanns öskur, hurðaskelli, lamið í borð, hótanir. Kom fyrir síðast um helgina. Fékk mig til að kafa og kryfja. Hnúturinn myndast því ógnin er raunveruleg fyrir mér. Ég var þarna sjálfur fyrir 29 árum og stundum enn að stjórna líðan minni. Ég bjó við ofbeldi. Hef aldrei talað um það opinberlega en góðir vinir vita. Núna geri ég það því það hjálpar mér segja sérfræðingarnir.

Ég var vakinn reglulega seint um kvöld, stundum daglega. Það var slegið í sófann sem ég svaf í og mér tjáð að ég myndi deyja í nótt. Ég var þrettán ára. Gat ekki boðið skólafélögum heim, hélt ekki upp á afmæli, myndaði ekki tengsl. Stundum flúði ég niður í geymslu í blokkinni. Beið eftir að hann væri sofnaður, systir mín kæmi heim, mamma kláraði kvöldvakt. Eitthvað sem myndi raska völdum hans, minnka ógnina, taka athyglinni af mér. Tvisvar var reynt að kyrkja mig inn í eldhúsi. Gamli búrhnífurinn að austan var með veðrað viðarskaft. Hann fór ósjaldan á loft, otað að mér, blaðið við hálsinn. Hann talaði aldrei við mig nema þegar hann réðst á mig eða hótaði mér. Ekki eitt orð í mörg ár í 80 fermetra íbúð sem hann yfirgaf kannski einu sinni, tvisvar á ári. 4C var bjöllu númerið. Þegar pabbi hans dó þurfti ég að hjálpa honum, styðja hann að og frá gröfinni. Ég vorkenndi honum, sagði honum það. Hann grét, sagði ekkert.

Þetta var ekki mér að kenna. Þetta var ekki systir minni að kenna og þetta var ekki móður minni að kenna. Þetta var bara honum að kenna. Hann var veikur og ég faldi þetta. Tók þátt án þess að að skilja. Vildi ekki raska því sem þó var í lagi. Vildi ekki láta velja á milli. Það breytir samt ekki því að þetta mótaði mig. Þetta hamlaði mér þá og síðar. Mér líður ekki vel í margmenni. Mér finnst erfitt að mynda tengsl við fólk. Ég vil vera til hlés en á sama tíma vil ég athygli. Að vera virkur alkóhólisti lagaði ekki stöðuna. Ég er samt ekki alkóhólisti út af þessu. Þetta einfaldlega flýtti ferlinu. Ég fann frelsið í áfengi, síðar í vímuefnum. 15 ára að vinna á skemmtistöðum varð mín leið út líka. Þarna byrjaði lygin að stjórna. Ég hafði lifað í feluleik og blekkingum. Þá gerði ég það til að vernda aðra. Ég var að fullnema lygafræðin. Eftir þá útskrift varð það einfaldara að ljúga þegar eitthvað bjátaði á. Það leiddi auðvitað ekki til neins nema valda öðrum vonbrigðum, svik og óeiðarleiki.

Síðustu rúmlega 14 ár hef ég reynt að bæta mig, laga, þróa og læra. Það gengur misjafnlega en batinn er áþreifanlegur. Ef mér finnst mér ógnað þá gef ég í, spyr ekki heldur skýt. Nú er komið að næsta skrefi í batanum. Brestirnir eru enn til en að þekkja þá auðveldar nútíðina og þar af leiðandi framtíðina. Ég þarf að læra að hlusta, taka tillit. Það eru þrjár hliðar á öllum málum, þín, mín og sannleikurinn.

Að skrifa þetta gefur mér frelsi. Ég vil losna við þetta, halda áfram. Ég veit að ég er gallaður. Ef þú veist þetta þá verður ferð okkar í gegnum lífið kannski betri. Þú kannski segir mér þegar ég fer af sporinu, þegar vörnin og lygin gera vart við sig. Ég skammast mín ekki. Ég er ekki fórnalamb. Ég ásaka engan lengur. Ég vil einfaldlega þroskst og verða betri maður fyrir Ernu og börnin mín þrjú og vonandi hafa góð áhrif á samferðamenn og konur. Engin maður er eyland….

Svona ritar þessi þjóðþekkti Íslendingur á Fésbókarsíðu sína í gær sunnudag

Holl lesning fyrir alla

SHARE