Þórunn íhugaði sjálfsvíg til þess að vera ekki byrði á sínum nánustu

Þórunn er gift tveggja barna móðir í Hafnarfirðinum lítur ósköp eðlilega út og kemur fyrir sem glaðvær manneskja sem er fyndin og síhlæjandi.

Það myndi engan, sem ekki vita, gruna að hún hafi oftar en einu sinni íhugað að fremja sjálfsvíg, af því að hausinn á henni sagði henni að það væri best fyrir alla sem hún elskar ef hún myndi deyja. Þessi tími er þokukenndur í minningunni en samkvæmd fagfólki var hún komin með plan um hvernig hún ætlaði að taka eigið líf.

Getur verið helvíti að fara í matvöruverslun

Hún ákvað að skrifa bók um reynslu sína af geðveikinni til þess að opna umræðuna um hina týpísku húsmóður sem lítur út fyrir að hafa allt á tæru er alltaf hress, en innan í sér er hún eitt risastórt sár sem búið er að nudda salti í og finnst hún vera fyrir og ekki gera neitt vel. Það er jafnvel helvíti á jörðu að skreppa bara í Bónus og kaupa mjólk vegna vanlíðunar.

Þórunn fagnar því að umræðan um andleg veikindi hafi opnast en finnst vanta að tala um þá aðila sem eru í vinnu, reka heimili og svo framvegis en innra með sér eru þeir í tætlum andlega og engan grunar það af því þeirra gríma er svo góð gagnvart öðrum.

„Hvað með þessa „basic“ húsmóður úr Hafnarfirðinum sem á börn og karl og vinnur og allt það, hvað með hana?“

„En þú ert alltaf svo glöð!“

Þórunn var lögð inn á geðdeild í desember 2017. Á þeim tíma sá hún ekki fyrir sér að lífið hefði tilgang og það væri best fyrir alla ef hún myndi bara enda þessa jarðvist. Eftir dvöl á geðdeild mætir hún svo til vinnu og er spurð af samstarfskonu hvort hún hafi legið í flensunni. Þórunn svara konunni heiðarlega og segist hafa lent inn á geðdeild. Samstarfskona hennar er eins og málverkið „ópið“ í framan af undrun og segir svo:

„ Ha þú? En þú ert alltaf svo glöð!“

Þórunn jánkar því en segir henni að hún sé nú samt „snarklikkuð“ þrátt fyrir gleðigrímuna. Áfram mætti hún þessu viðmóti frá fleirum og þá kviknaði hugmyndin um að skrifa bók því það væru í raun til „snarklikkaðar“ húsmæður sem engin vissi að voru að þjást. Gera fólki ljóst að samstarfsfélagi þinn sem er alltaf kammó og hress gæti verið manískur, þunglyndur eða eitthvað og bara sú athöfn, að fara út í búð, gæti verið helvíti á jörðu en í vinnunni er hann alltaf hress. Því það sést ekki utan á okkur öllum að við séum að takast á við andleg veikindi.

Var stoppuð af í vinnu

Stuttu áður en ég hitti Þórunni hafði læknir sett hana í stopp því það var ekki pláss inn á geðdeild fyrir hana. Hún var að keyra sig í kaf og það varð að minnka álagið á henni, maðurinn hennar er fótbrotinn og tvö börn á heimilinu þannig að það var byrjað á að taka vinnuna út til að létta á henni.

Svo fer hún að heyra í vinkvennahópnum og kemst að því að hún er ekki ein, þær eru fleiri að berjast við þunglyndi og kvíða og allskonar. Þær eru gjarnan afgreiddar hjá læknum með ráðleggingum um að þær eigi að borða hollt og hreyfa sig sem eru alveg góð ráð, en virka kannski ekki alveg á andlega vanlíðan sem sést ekki utan á þér. Suma daga getur maður ekki farið inn fyrir dyrnar á Ikea, heldur dettur bara í ofsakvíða og þá er allt erfitt.

Í bókinni segi ég bara frá mér og mínu lífi enda ekki mitt að segja frá öðrum, en ef þessi skrif mín verða til þess að ég næ að hjálpa einni manneskju er tilganginum náð.

Getur ekki notað hnífapör móður sinnar

Þórunn er greind með þunglyndi og kvíða, áfallastreituröskun og fleira. Hún segir mér frá því hvernig hún geti alls ekki borðað með hnífapörunum hennar mömmu sinnar, af því þau séu svo þunn og það veldur líkamlegum verkjum að reyna að nota þau. Hún veltir því fyrir sér hvernig einhverjum datt í hug að hanna hnífapör sem eru svo þunn að þau eru eins og blað úr Biblíunni.

Maturinn verður líka ógeðslega vondur ef honum er raðað vitlaust á diskinn og ef hún gerir minnstu mistök þá verður að byrja alveg upp á nýtt það nægir ekki að lagfæra. Stundum verður pylsan hennar óæt af því einhver setur remúlaðið undir pylsuna og þá er ekkert að gera nema henda pylsunni, hún er ónýt. Hún tékkar á öllum hurðum áður en hún fer að sofa og hlær þegar hún rifjar upp tíma sem hún bjó í stóru húsi með mörgum hurðum.

Allt hrundi fljótlega eftir fæðingu

Þórunn er afskaplega hröð og dugleg og eftir leguna á geðdeild 2017 fór hún út í lífið á fullum dampi og gerir miklar kröfur til sjálfs sín. Hún verður ófrísk af seinna barni sínu en á meðgöngunni þurfti hún að hætta á lyfjunum sínum. Strax eftir fæðingu er hún tröppuð upp á lyfjunum aftur, en mánuði eftir fæðingu kemur skellurinn og Þórunn var meira og minna ein með stelpurnar eftir að maðurinn hennar kláraði fæðingarorlof og fór að vinna. Hans vinna er þannig að hann vinnur langan vinnudag fjarri heimilinu svo það er ekki hægt bara að hringja og segja „komdu heim“.

Þórunn lendir aftur inn á bráðamóttöku geðdeildar þar sem læknir vildi leggja hana inn en það var ekki mögulegt fyrir hana að þiggja það þar sem það var engin sem gat tekið börnin hennar fyrir hana. Hún tekur það fram að það sé ekki vegna þess að hún eigi engan að heldur vegna þess að staðan var bara þannig hjá fólki.

Fer inn á klósett og grætur

Hún var ein með stelpurnar í allt sumar og vinnur auk þess á leikskóla þannig að hún fékk ekkert frí. Hún talar um að samstarfsfólk hennar sé meiriháttar og hún gæti ekki unnið á betri stað því þar mætir hún algjörum skilningi. Stundum þarf hún bara að fara inn á klósett í vinnunni og grenja og grenja.

Það kom tímabil þar sem hún gat ekkert sofið og þá fór allt á verri veg og hugsanirnar um að hún myndi gera fólki greiða með að vera ekki til lengur. Það væri best fyrir manninn hennar, börn, vini, fjölskyldu og alla sem hún þekkir ef hún myndi bara deyja og á þann hátt fengu hinir frelsi frá hennar vanda.

Viku fyrir viðtalið herjuðu á hana sjálfsvígshugsanir

Þetta var bara viku áður en við hittumst sem þessar sjálfsvígshugsanir herjuðu á hana. Næturnar voru þannig að hún rökræddi við sjálfa sig um þá lausn að taka eigið líf og það að hausinn á henni væri að rugla í henni. Þórunn kann sem betur fer að leita sér hjálpar og gerði það og var að endingu sett í veikindaleyfi. Hennar verkefni er að ná að koma svefninum í lag, að hvílast, svo hún fái þá orku sem þarf til að sinna sjálfri sér og öðrum.

Hugmyndin af því að skrifa bók kviknaði og hún byrjaði að skrifa niður og skipta sinni upplifun af andlegum veikindi í kafla og það tekur á að skrifa erfiðustu kaflana um sjálfsvígsþrá og annað slíkt. Bókina hefur hún í eigin anda þar sem horft er á andlegu veikindin út frá húmor og alvarleika. Það er bara hin venjulega manneskja til sem er að díla við andleg veikindi og náunginn veit ekkert af því.

Að lokum vill hún koma því til þeirra sem þjást og sitja einir að þjáningunni. Það er allt í lagi að vera „klikkaða húsmóðirinn í Hafnarfirði“.

Það er ok að vera fellow crazy

Þórunn er með Instagram og býður fólki að fylgjast með þar ef það vill http://instagram.com/tbjons

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here