Þú ert SURVIVOR! Ekki fórnarlamb! – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

 

Eftir að hafa lesið greinina ,,Þetta verður litla leyndarmálið okkar” þá fylltist ég hugrekki til að segja öllum frá þessu.

Það vita þetta samt alveg margir þar sem ég er ófeimin við að tala um þennan hlut við fólk sem ég treysti og ég er mjög fljót að treysta nýjum vinum. En ég hef ekki rætt þetta við neinn sálfræðing eða fengið neina ráðgjöf. Mér finnst þetta vera of lítið til þess að vera að eyða tímanum hjá fólkinu í Aflinu eða eitthvað álíka á meðan stelpur sem lenda í einhverju margfalt verra en ég þurfa mun meira á svona hjálp að halda. Ekki það að ég sé eitthvað að gera lítið úr þessu hjá mér því þetta er alveg stórt mál, ég bara hugsaði alltaf með mér og sannfærði sjálfan mig um það að ég þyrfti ekki þessa hjálp. Ég væri alveg nógu sterk sjálf. Hins vegar, eftir því sem tíminn líður finn ég það betur og betur að ég er ekki nógu sterk sjálf. Ég gat ekki einu sinni horft í spegil og fundist ég á einhvern hátt falleg áður en þetta gerðist, hvað þá að geta tekist á við svonalagað. Sjálfstraustið mitt lækkar og lækkar sífelt meira með hverjum deginum sem líður. Það var slæmt fyrir þennan atburð en hefur versnað svo um munar. Og það er allt einum aðila að kenna, aðila sem ég elskaði einu sinni. Hann var einu sinni kærastinn minn og eftir því sem ég best veit, þá þótti honum líka vænt um mig.

Áður en ég byrja á sögunni er tvennt sem ég vil koma til skila:

1. Ég er aðallega að skrifa þetta hérna því ég held það muni hjálpa mér, (ég fór einu sinni til sálfræðings og hann sagði mér að skrifa allt niður bara, allt sem að var að valda mér sársauka, ekki endilega bara þennan atburð heldur líka bara um alla strákana sem hafa farið illa með mig og allt, skrifa bara allt niður) og þetta er það sem er hvað mest að angra mig svo…

2. STELPUR! Þið eruð margar hverjar að koma fram núna með svona svipaðar sögur. Flestar ykkar tala um að þið séuð fórnarlömb, og það er einnig talað um það þannig í fréttunum. Þið eruð engin fórnarlömb. Stelpur sem þora að tjá sig um svona fyrir alþjóð eru ekki fórnarlömb. Það er til orð yfir það sem þið eruð, þið eruð SURVIVOR! Fórnarlömb eru þau sem töpuðu í stríði. Þið hinsvegar unnuð stríðið við þann sem gerði ykkur eitthvað og við sársaukann sem atburðinum fylgir!

Fyrir nokkrum árum átti ég kærasta. Við vorum saman í skóla og allt var bara gott og blessað. Hann kom heim til mín og hitti fjölskylduna mína 2x að mig minnir og allt gekk vel. Svo hættum við saman bara eins og gengur og gerist á framhaldsskólaaldrinum. Við sættumst eftir sambandsslitin og vorum alveg vinir, gátum alveg talað saman og verið í sama herbergi og svona, allt var í besta lagi.

Nema hvað, nokkrum mánuðum síðar eru þessi fyrrverandi kærastinn minn og félagar hans að leigja sumarbústað með viðeigandi partýum og drykkju. Ég hafði verið að drekka líka um kvöldið og vantaði gistingu, á þessum tíma máttu foreldrar mínir ekki vita að ég neytti áfengis. Ég hringdi í vin minn sem var þarna í bústaðnum og hann sagði það ekkert mál að leyfa mér að gista þarna, ég svæfi bara í sófanum eða eitthvað. Ég kem svo þangað og ég er varla búin að vera þarna í 5 mínútur þegar fyrrverandi kærastinn minn (blindfullur) tekur utanum mig að aftan og strýkur upp með lærunum mínum. Ég, sem á nóg af vinum, er vön því að strákar rasskelli mig eða eitthvað í þá áttina og tók þessu bara sem gríni, æpti smá og sneri mér brosandi við og knúsaði hann hæ. Þetta knús reyndar entist svolítið lengur en ég bjóst við þar sem hann óð með hendurnar ákaft á rassinn á mér. Mér fannst þetta farið að verða heldur gróft þar sem hann var alltof ágjarn að mínu mati.

Allir í húsinu voru eiginlega sofnaðir eða dauðir þegar ég kom, enda farið að líða undir morgun. Einn vinur minn var þó þarna enn eftir að ég fór inn á bað að tala við fyrrverandi kærastann minn fór vinur minn heim til sín og við vorum tvö eftir vakandi eftir því sem ég best vissi. Ég man ekki sjálf hvort ég hafi beðið hann um að koma inn á bað að tala við mig eða hann hafi beðið mig um að koma en ég allavega sagði við hann þarna inná baði að ég væri kominn yfir hann og hefði ekki þannig áhuga á honum lengur, að ég vildi bara að við værum vinir. Hann hafði reynt að kyssa mig áður en við fórum inn á bað en ég auðvitað ýtti honum í burtu. Eftir að við höfðum rætt smá saman inná baði hélt hann bara áfram. Þar sem ég hef ekki neina vöðva í höndunum var lítið mál fyrir hann að halda þeim í skefjum á meðan hann fór inná mig. Ég stóð á móti klósettinu, bakvið hurðina og þar stóð hann þétt upp við mig og hélt höndunum mínum. Hann fór inná mig og stakk tvisvar fingri inní mig, annars var hann bara að gera hrottalega tilraun til að örva mig á þessu svæði. Ég sagði honum oft að hætta, öskraði á hann að láta mig í friði en hann hlustaði ekki neitt. Hann kyssti mig og ég réði ekkert við hann, ekki neitt.
Fram að þessum tímapunkti hafði ég alltaf talið mig vera frekar hraust þannig að áfallið sem þessu fylgdi var líka að hluta til áfall vegna þess hversu lítið ég réði við hann, hvað það var lítið sem ég gat gert. Ég hélt þarna að allir væru dauðir nema hann og ég gat ekkert ráðið við hann og við vorum í sumarbústað, enginn heyrði í mér öskrin. Þegar við vorum inná baði kýldi ég hann tvisvar, hann bauð mér að kýla sig. Það var útaf einhverju sérstöku sem ég man ekki hvað var, en einhverra hluta vegna kýldi ég hann tvisvar, einu sinni bara svona venjulega en í seinna skipti kýldi ég eins fast og ég gat. Hann sagðist hafa meitt sig smá en bara smá. Ég kýldi hann af öllu mínu afli og hann meiddi sig bara smá. Þarna varð ég ennþá hræddari því þarna varð mér ljóst að ég ætti ekki sjéns í hann og síminn minn var frammi. Ég komst á endanum fram og þá byrjaði hann að öskra á mig á móti. Hann öskraði á mig: ,,ÞÚ GISTIR EKKERT HÉRNA NEMA ÞÚ SOFIR HJÁ MÉR!” Og hann öskraði þetta oft.
Þegar ég komst fram og á meðan á öskrunum stóð reyndi ég að komast inn í eldhús þar sem síminn minn var en hann stóð alltaf fyrir, tók í mig og káfaði á mér ef ég kom of nálægt. Á endanum samþykkti hann að hætta þessu ef ég gæfi honum einn koss, og ég gerði það. En auðvitað braut hann þann samning og hélt áfram. Ég komst svo loks að símanum og hringdi í vin minn sem hafði verið þarna þegar ég kom og hann kom og sótti mig undir eins, ég gisti svo hjá honum þá nótt. Það tók mig samt langan tíma að komast út. Hann ætlaði ekki að sleppa mér. Hann sagði: ,,Einn koss enn og þá skal ég sleppa þér.” Ég kyssti hann aftur en hann sleppti ekki. Ég náði samt á endanum að slíta mig lausa, og vil ég meina að það sé liðleika mínum að þakka, og hljóp útí bíl til vinar míns.
Daginn eftir komst ég hinsvegar að því að tveir aðrir vinir mínir hefðu verið vakandi uppí rúmi þegar ég kom. Þeir heyrðu í mér öskrin allan tímann. Ég var öskrandi í TVO KLUKKUTÍMA! Og hvorugur þeirra gat hringt í lögregluna. Ég skil það svo sem alveg að þeir hafi ekki þorað fram, þessi fyrrverandi kærastinn minn er ekkert lamb að leika sér við í svona ástandi en þeir hefðu getað hringt eitthvert, í einhvern. Ég samt vissi ekki einu sinni að þeir hefðu verið vakandi fyrr en daginn eftir að þetta gerðist. Hvað ef ég hefði ekki komist í símann minn? Hvað ef ég hefði ekki getað hringt í vin minn og beðið hann að sækja mig? Guð veit hversu langt fyrrverandi hefði gengið. Hefðuð þið bara legið uppi í rúminu ykkar ef þið hefðuð farið að heyra stunur og það kannski færi ekki á milli mála að hann væri að nauðga mér? Hefðuð þið legið kyrrir í rúminu og hunsað þetta og reynt bara að sofna?
Ég veit að þeir vinir mínir sem lesa þetta munu strax fatta hver ég er og ég vona að þið tveir sem voruð vakandi lesið þetta og áttið ykkur á því hvað þið hefðuð gert mikið fyrir mig bara við það eitt að hringja í einhvern. Hringa í vin minn sem hafði verið þarna þegar ég kom eða hvern sem er. Þið hefðuð getað stoppað þetta.

Eftir þetta fór drykkja að hætta að vera eitthvað gamanmál. Ég hætti að drekka til að skemmta mér og fór að drekka til að deyfa sársaukann sem óx bara með tímanum. Ég get ekki séð andlitið á þessum strák eftir þetta, hann er sem betur fer ekki í skólanum lengur en ég er oft hrædd um að hann komi allt í einu í heimsókn og að ég mæti honum á göngunum. Hann fór á árshátíðina í skólanum mínum, ég fór ekki á hana. Ég sleppti árshátíðinni í mínum eigin skóla einungis vegna þess að ég þori ekki að sjá hann. Ég hef einu sinni séð hann „face to face“ eftir þetta, það var einhverjum einum mánuði eftir þetta og þá var ég ennþá að meðtaka það sem gerðist. Núna veit ég hinsvegar nákvæmlega hvað gerðist, hann beitti mig kynferðislegu áreiti, ofbeldi og misnotaði mig. Hann var fyrrverandi kærastinn minn. Ég skil ekki hvernig hann fékk sig til þess að halda áfram eftir að ég hafði ítrekað sagt honum að hætta. Bara skil það ekki.

Ég er hrædd í lok hverrar annar um að hann sæki um skólavist á næstu önn því þá verð ég að hætta í skólanum, ég gat ekki afborið andlit hans í eitt kvöld, hvað þá hvern dag. Og það er enginn annar skóli sem ég myndi fara í, ég elska skólann minn og myndi bara hætta í honum og fara að vinna ef hann kæmi aftur.
Ég bara skil ekki hvernig hann gat gert mér þetta. Ég bara skil það ekki.

Ég vil taka það aftur fram sem ég sagði áðan, stelpur (og auðvitað strákar líka, það er bara meira um stelpur sem opna sig núna undanfarið), þið eruð SURVIVOR en ekki fórnarlamb. Ef þið hlustið meira að segja á lagið Survivor með Destiny’s child þá er hægt að lesa úr textanum á tvo vegu. Hafið það bara í huga. Þær sem fyrirfara sér eftir svonalagað eru fórnarlömb því þær komust ekki í gegnum þetta. Ég er alls ekki að gera lítið úr þeim sem hafa tekið sitt eigið líf, alls ekki. Og ég er heldur ekki að segja að það sé eitthvað verra að vera fórnarlamb. Þessi hugsanagangur hefur bara hjálpað mér alveg rosalega mikið. Ég væri örugglega afskaplega þunglynd núna ef ég tryði því ekki að ég sé Survivor og að ég muni komast yfir þetta. Og ég vona að þessi hugsanagangur hjálpi einhverjum þarna úti í burtu frá sjálfsvígshugsunum. Það hjálpar mér allavega helling. Á meðan þú ert ennþá standandi á þínum fótum og á meðan þú finnur eitthvað til að brosa yfir eftir atvik að þessu tagi þá ertu survivor. Trúðu á þig og trúðu því að þú komist í gegnum þetta. Ég veit að ég á langt í land með það, en það að birta þetta hérna er byrjunin og svo mun ég halda lengra upp á við og verða sterkari. Af því að ég trúi því að ég sé SURVIVOR

SHARE