Þunglyndi, kynlíf og ást

Hvaða áhrif getur þunglyndi haft á samband?

 

  • Þunglyndi leiðir til mikillar vanlíðanar hjá einstaklingnum. Þessi veikindi hafa einnig áhrif á fólk í umhverfi sjúklingsins. Sá þunglyndi hefur takmarkaða getu til þess að sinna öðru fólki, dregur sig gjarnan í hlé og félagsleg samskipti verða í lágmarki. Kærasti eða maki getur einnig liðið fyrir þetta. Hinn þunglyndi á afar erfitt með að sýna frumkvæði og það á að sjálfsögðu einnig við í ástarlífinu. Þá getur maka fundist hann vera fyrir, nærveru hans sé ekki óskað eða að hann sé ekki elskaður. Viðbrögð makans geta orðið þau að hann fjarlægist hinn veika og ástandið fer í baklás.

 

  • Sektarkennd hjá makanum. Oft fer maki eða kærasti að velta því fyrir sér hvort hann eigi ef til vill sök á þunglyndinu. Ef til vill finnst honum að það séu hjónabandserfiðleikar sem hafi komið þunglyndinu af stað. En þetta er snúið, því eins getur þunglyndi verið orsök hjónabandserfiðleika. Ef þunglyndið þróast hægt, eins og oft gerist, getur verið mjög erfitt að skera úr um hvað er orsök og hvað afleiðing. Því er mjög mikilvægt að fresta allri skilnaðarumræðu þar til þunglyndið er liðið hjá. Ekki er óalgengt að hjónaband eða ástarsamband leysist upp þegar þunglyndi er til staðar. Þegar hinn veiki einstaklingur losnar síðan undan geðlægðinni er oft ljóst að ákvörðunin um skilnað var tekin á röngum forsendum, en þá er oft of seint að snúa við. Eitt leiðir af öðru.

 

  • Þunglyndi getur valdið skilnaði. Ég hef hitt manneskjur sem hafa krafist skilnaðar frá maka sínum vegna þess að þær héldu að ástandið væri varanlegt og að þær gætu ekki búið með svo veikri manneskju. En hinn veiki getur líka brugðist við á álíka máta. Þunglynd kona hafði til dæmis ekki lengur neinar tilfinningar til manns síns. Þetta er vel þekkt þunglyndiseinkenni. Og hún hélt að þetta þýddi að sambúð þeirra byggðist á óheilindum og væri innihaldslaus, og fór þess vegna fram á skilnað. Makinn samþykkti það og eignaðist stuttu síðar nýja kærustu. Þegar veiku konunni batnaði iðraðist hún þess sárlega að hafa sótt um skilnað, sem hafði hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir hana sjálfa, manninn og börnin.

 

Sjá einnig: Svona er þunglyndi í raun og veru

  • Hvaða áhrif hefur þunglyndi á kynlífið? Truflanir á kynlífinu er mjög alvarlegur vandi, sem sjaldnast er ræddur. Það kann að vera að læknirinn eða meðferðaraðilinn fari hjá sér við að hefja máls á þessu eða maður sjálfur vilji ekki tala um þetta, og rannsóknir sýna að slíkt er ótrúlega mikill vandi í raun. Auk þess sýna rannsóknirnar að flestir ætlast til þess að meðferðaraðilinn tjái sig opinskátt um þessi vandamál. Nokkrum pörum finnst reyndar kynlífsvandinn vera það versta við þunglyndið. Það skiptir miklu máli fyrir sjálfsmynd margra og sambönd þeirra að þeir geti lifað góðu kynlífi. En eins og með matarlystina, sem hverfur oft hjá þunglyndu fólki, hverfur kynlöngunin oft einnig. Hugsanlega tengist þetta truflun í serótónínboðkerfinu í heilanum, því við vitum að serótónín hefur áhrif á kynlífslöngun okkar. Afar mikilvægt er að maki þunglyndissjúklings geri sér ljóst að skortur á löngun er afleiðing þunglyndisins, en ekki að sambandið sé slæmt, og að hann reyni áfram að veita öryggi og hlýju þó ekki sé hægt að stunda eiginlegar samfarir.

 

  • Kynlíf og þunglyndislyf. Það er aukaverkun margra þunglyndislyfja að þau hafa veruleg áhrif á kynlífið. Er þetta vandi með þau þunglyndislyf sem hindra sértækt seretónín endurupptöku í taugum (SSRI), en það eru mest notuðu lyfin. Eins og nefnt er hér á undan hefur þunglyndið sjálft oft í för með sér kynlífsvanda, sérstaklega minni kynlífslöngun. Þegar til dæmis þunglyndi er meðhöndlað með SSRI-lyfi, og sjúklingur er á batavegi, verða vonbrigði sjúklingsins og maka hans mikil þegar í ljós kemur að kynlífsvandi er enn til staðar, nú vegna lyfjanna. Fyrst og fremst eru það þunglyndislyf, sem virka á serótónínboðefnið, er valda þessum aukaverkunum. Kynlífsvandinn felst að hluta til í því að alla löngun til kynlífs vantar. Hvað karlana varðar eiga þeir oft í erfiðleikum með stinningu. Tilsvarandi finna konur oft fyrir þurrki í leggöngum. Bæði kynin geta átt erfitt með að fá fullnægingu. Nokkrir sjúklingar lýsa því að það sé eins og þá skorti tilfinningalegt næmi í kynfærin. Vandamálin geta þannig komið fram í alls kyns tilbrigðum og samsetningum.

 

Sjá einnig: Þunglyndi er ekki alltaf augljóst

  • Hvað er hægt að gera gagnvart kynlífsvandamálum?Ef aukaverkanirnar eru alvarlegar má velta því fyrir sér, í samráði við heimilislækni eða geðlækni viðkomandi, hvort rétt sé að skipta yfir í aðra gerð þunglyndislyfja. Ef maður skiptir til dæmis frá serótónvirku lyfi yfir í lyf sem eykur styrk noradrenalíns hverfa oft aukaverkanirnar á kynlífið eða minnka. Hins vegar þarf að meta þetta af kostgæfni því að svo gæti farið að nýja lyfið virkaði ekki nógu vel á þunglyndið sjálft.Auk ofangreindra lyfjabreytinga eru til rannsóknir sem benda til þess að Viagra, sem venjulega er notað við stinningarvanda, lagi einhverjar þessara kynlífstengdu aukaverkana hj& aacute; báðum kynjum. Óvíst er þó um árangur af lyfinu, og við notkun þess er þörf á nákvæmum leiðbeiningum frá heimilislækni eða geðlækni. Til er fólk með ákveðna líkamlega sjúkdóma sem ekki þolir meðferð með Viagra, og einnig má ekki taka það með ákveðnum lyfjum. Því er mjög mikilvægt að fá leiðsögn hjá heimilislækni eða geðlækni.

 

  • Góð ráð varðandi þunglyndi og kynlífAð lokum eru nokkur ráð sem eru ekki læknisfræðileg en mætti reyna fyrst:
    • Í fyrsta lagi er bráðnauðsynlegt að fræða báða aðila til þess að koma í veg fyrir að ástandið fari í baklás, eins og lýst er hér að framan.
    • Í öðru lagi skal hafa í huga að sumir dagar geta verið betri en aðrir og mikilvægast er að fjölmargir sálrænir þættir hafa að sjálfsögðu áhrif á kynlífslöngunina. Hvernig gengur að öðru leyti í sambandinu? Ef viðkomandi hefur áhyggjur af að hann komist alls ekki yfir húsverkin, eða að hann beri einn allt of mikla ábyrgð, örvar það vissulega ekki löngunina.
    • Einnig er mikilvægt að gera sér ljóst að þótt viðkomandi sé ekki fær um að hafa fullnægjandi samfarir vegna aukaverkana hefur hann þó þörf fyrir blíðuhót og faðmlög. Mikilvægt er að viðkomandi láti maka vita að hann vilji gælur þótt hann treysti sér ekki til samfara.

    Báðir aðilar hafa þannig þörf fyrir ítarlega leiðsögn og stuðning frá heimilislækni eða öðrum meðferðaraðila, þar sem unnið er með allar hliðar sambandsins. Ekki er hægt að skoða kynlífsvandamálin ein og sér. Á þennan hátt má oft ná tökum á vandamálinu svo að hægt sé að ljúka þunglyndislyfjameðferðinni, og ef til vill ná meiri innileika í sambandið að auki.

    Byggt á grein eftir Poul Videbech, geðlækni

 

SHARE