Þyngdaraukning, þreyta og fleira getur stafað af vanvirkni í skjaldkirtli

Vanvirkni (vanstarfsemi) í skjaldkirtli kallast einnig myxedema (spiklopi) eða hypothyroidism, og stafar af því að skjaldkirtillinn framleiðir ekki nægilega mikið af skjaldkirtilshormónunum týrósíni og þríjoðtýróníni.

Matarlyst minnkar en þrátt fyrir það verður þyngdaraukning, viðkomandi verður kulvís, þreyttur og finnur fyrir ýmsum öðrum einkennum.

Vanvirkni í skjaldkirtli er algengari hjá eldra fólki, sérstaklega konum. Um það bil tvær af hverjum 100 konum, sem komnar eru yfir sextugt, eru með vanstarfsemi í skjaldkirtli. Sjúkdómurinn getur einnig komið fram hjá yngra fólki og er í einstaka tilvikum meðfæddur (í einni af hverjum 4000 fæðingum).

Hver er orsökin?

Algengustu orsakir vanvirkni í skjaldkirtli eru:

  • Langvinn bólga í skjaldkirtli, kallast einnig Hashimoto’s sjúkdómur.
  • Fylgikvilli skurðaðgerðar á skjaldkirtli eða meðferðar með geislavirku joði við skjaldkirtilsofstarfsemi.
  • Meðfæddur vanþroski skjaldkirtils.
  • Sjaldgæfar aukaverkanir nokkurra lyfja (Neo-Mercazole, Lítíum, Cordarone).
  • Mikil neysla á joði (náttúrulækningalyf, fæðubótarefni og sum röntgenskuggaefni)
  • Við tímabundna skjaldkirtilsbólgu.
  • Í kjölfar meðgöngu (postpartum thyroiditis), er oft tímabundin vanstarfsemi.

Hver eru einkennin?

Vanvirkni í skjaldkirtli hefur áhrif á mörg líffæri líkamans þannig að einkennin geta komið frá mörgum líffærakerfum samtímis (heila, hjarta, þörmum, vöðvum o.s.frv.). Algengustu einkennin eru:

  • Kulvísi.
  • Minnkuð matarlyst.
  • Þyngdaraukning.
  • Harðlífi.
  • Þurr og hrjúf húð.
  • Hás og djúp rödd.
  • Hárið þynnist.
  • Einstaklingar með vanstarfsemi í skjaldkirtli fá gjarnan minnisleysi og hjá eldra fólki getur þetta verið eina einkennið.

Einkennin færast gjarnan í aukana, smám saman, á löngum tíma og því er auðvelt, sérstaklega hjá eldra fólki, að villast á þessum einkennum og telja þau afleiðingu eðlilegrar öldrunar.

Hvað er til ráða?

Einstaklingar sem áður hafa verið meðhöndlaðir með skjaldkirtilshemjandi lyfjum, skurðaðgerð eða geislavirku joði eiga á hættu vanstarfsemi í skjaldkirtli. Mælt er með því að þetta fólk láti athuga starfsemi skjaldkirtils árlega. Það er gert með blóðsýnatöku þar sem magn skjaldkirtilshormóna er mælt og þess hormóns sem örvar skjaldkirtil (thyroid stimulating hormone=TSH) en það er framleitt í heiladinglinum. Ef magn hormónsins í blóðinu eykst og verður hærra en eðlilegt gildi er líklegt að um vanstarfsemi í skjaldkirtlinum sé að ræða. Forðast skal stóra skammta af náttúrulækningalyfjum og fæðubótarefnum sem innihalda mikið joð.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

  • Magn skjaldkirtilshormónanna og þess hormóns sem örvar skjaldkirtilinn er mælt í blóðinu. Ef um vanstarfsemi í skjaldkirtli er að ræða er líklegt að magn skjaldkirtilshormónsins týroxíns sé lækkað en magn þess hormóns sem örvar skjaldkirtilinn sé hækkað.
  • Læknirinn lætur stundum athuga hvort mótefni sem bindast skjaldkirtli finnist í blóðinu, en talið er að slík mótefni hafi áhrif á starfsemi skjaldkirtilsins.
  • Í sumum tilfellum, sérstaklega ef um er að ræða stækkun á skjaldkirtli, mun læknirinn láta rannsaka skjaldkirtilinn með myndgreiningu eða ómskoðun.

Hver er meðferðin?

  • Vanstarfsemi í skjaldkirtli er meðhöndluð með ævilangri skjaldkirtilshormónameðferð (þetta á ekki við ef um skammvinna vanstarfsemi er að ræða).

Byrjað er á litlum skammti, sem er aukinn jafnt og þétt, þar til réttum viðhaldsskammti er náð.

  • Þegar réttum skammti er náð er yfirleitt nóg að láta athuga starfsemi skjaldkirtils árlega og eru þá skjaldkirtilhormónin mæld í blóðinu.

Meðferðinni fylgja litlar sem engar aukaverkanir. Tekið skal þó fram að of stór skammtur getur leitt til sömu einkenna og við skjaldkirtilsofstarfsemi.

Batahorfur

Einstaklingar með vanstarfsemi í skjaldkirtli geta lifað eðlilegu lífi ef meðferð og eftirliti er fylgt eftir sem skyldi.

 

Grein birt með góðfúslegu leyfi 

 Tengdar greinar: 

„Ég hef verið mjög þreytt í mörg ár“ – Kristjana Marín segir okkur sína sögu

Hjartsláttarköst, andþyngsli og sviti

SHARE