Til þín sem ætlaðir að nauðga mér

Sigrún Lilja Guðjónsdóttir sem er stofnandi Gyðja Collection lenti í óskemmtilegri reynslu um helgina og skrifaði um það á Facebook.

 

Nokkur orð til þín sem ætlaðir að nauðga mér á föstudagskvöldið!

Þú hefur væntanlega skipulagt þig vel fyrir kvöldið, passað uppá að vera með nægilega mikið af nauðgunarlyfi meðferðis þegar þú fórst niðrí bæ, tilbúin að finna þér fórnarlömb kvöldsins til að eitra fyrir. Væntanlega búin að undirbúa staðinn sem nauðgunin færi fram og passað vel uppá að þar væri engin nálægt sem gæti aðstoðað fórnarlamb kvöldsins eftir hún myndi lamast eftir að þú byrlaðir henni lyfi í glasið sitt, svo er alveg spurning hvort þú hafir verið að skipuleggja hópnauðgun á álitlegum vinkonuhóp. Þú hefur væntanlega séð okkur þrjár vinkonurnar að dansa og ákveðið að við yrðum þín fórnarlömb þetta kvöld eða amk ein okkar, en passað vel uppá að byrla okkur öllum til þess að það gæti nú engin okkar komið þeirri okkar sem þú ætlaðir að nauðga til aðstoðar þegar við myndum lamast, blindast, hætt að geta talað og byrja að froðufella.

Þú hefur ekki fengið mörg tækifæri því við fengum okkur sitthvorn drykkinn og héldum á glösunum okkar allan tíman (nema eitt augnablik þegar við lögðum það frá okkur) þá hefur þú látið til skarar skríða og þér tókst áætlunarverkið, eða amk helming verksins að byrla okkur nauðgunarlyfi. Svo hefur þú horft á okkur og fylgst með og beðið eftir að við myndum byrja að lamast og lognast útaf ein af annari. Vitandi að það myndu allir halda að þetta væru vinkonur sem hefðu drukkið aðeins of mikið þetta kvöldið og gætum í þessu ástandi ekki varið okkur, aðstoðað hvor aðra, vitað hvar við værum, myndum ekki muna neytt og því myndi engin vinkona þvælast fyrir þér þegar þú kæmir sem “life saver” og myndir aðstoða stúlkuna “heim” sem var sú útvalda þetta kvöld.

Þú varst hinsvegar óheppinn því þú eyddir lyfinu þínu til einskis, eða mikið vona ég það amk. Ekki nema að þú hafir byrlað fleirum en okkur og einhver önnur hafi ekki getað varið sig fyrir þér þegar þú sást hana lamast og þú hafir náð henni út og hún hafi þurft að upplifa sína verstu martröð að vera nauðgað af þér.

Þú ert eins og gefur að skilja mjög veikur maður, þú hefur án efa upplifað hræðilega hluti sjálfur, því ég trúi því og veit að það fæðist engin svona úrkynjaður, þú ert afleiðing einhvers og hefur orðið utangátta. Þú verðu að athuga það að þú ert mikið veikur, væntanlega á geði og þínar langanir eru mjög brenglaðar. Ef þig langar að nauðga konu og hvað þá í þessu ástandi, þar sem hún liggur gjörsamlega lömuð og hreyfingarlaus, getur sig ekki hreyft né varið, getur ekki talað, froðufellir, perlar af henni svitinn þar sem hún liggur í sinni eigin ælu og getur ekki einu sinni lyft höfðinu til að kasta upp ef þetta vekur upp hjá þér langanir þá ertu alvarlega skaddaður.

Við vorum heppnar þetta kvöld og það er ekki þér að þakka, við vinkonurnar fórum í sitthvora áttina áður en við duttum út og lömuðumst ein af annarri og það er örugglega það besta sem gat komið fyrir okkur, því við vorum allar með öðru fólki á því augnabliki sem gátu komið okkur til aðstoðar þegar lyfið fór að verka.

Ég var með samstarfskonu minni og ég get þakkað guði fyrir að ekki fór verr því við erum tiltölulega nýbúnar að kynnast og hún hefði auðveldlega getað afskrifað mig sem dauðadrukkna. En hún sá mig hinsvegar í góðu lagi þar sem ég dansaði við hana og hló og skemmti mér, svo allt í einu þá lamaðist ég og datt niður þar sem ég lág á grúfu á dansgólfinu. Hún hélt fyrst að ég hefði meitt mig en sá svo þegar hún lyfti höfðinu mínu að ég var gjörsamlega lömuð, froðufellandi, sá ekki né gat talað.

Hún og maðurinn hennar báru mig út af staðnum og lögðu mig niður fyrir utan þar sem ég gat ekki hreyft legg né lið og lág þar á hliðinni það eina sem kom uppúr mér var æla og froða. Þeim tókst að finna leigubíl og þegar í hann var komið þá tók það dágóðan tíma að finna út hvar ég ætti heima, því ég var meðvitundarlaus og gat því ekki talað. Eftir að hafa strögglað í því þá tókst þeim að finna útúr því og farið var með mig heim.

Maðurinn minn var vakinn og fékk hann taugaáfall þegar hann sá mig því hann hefur þekkt mig í 15 ár og aldrei séð mig í ástandi í líkingu við þetta. Ég er ein af þeim sem kann mín mörk og veit ekki hvað “black out” er.

Þau ákváðu að hringja á sjúkrabíl þar sem ég lág í anddyrinu heima, hreyfingarlaus, átti erfitt með andardrátt, kastaði stöðugt upp og frá mér komu hljóð sem þau hafa ekki heyrt áður.

Sjúkraflutningar mennirnir tóku hjartarit til að kanna hjartsláttinn þar sem mikil hætta getur verið á að hann hægist svo mikið og að andardráttur verði svo erfiður að manneskjan sem er byrlað svona mikið hreinlega hætti að anda. Eftir að hafa mónitorað mig í dágóðan tíma og borið mig inní rúm, fylgst með blóðþrýsting, öndun og sjón fékk maðurinn minn það hlutverk að vaka yfir mér. Hann reyndi að hringja í vinkonur mínar til að átta sig á hvað hefði komið fyrir en þær svöruðu ekki símanum, því þær voru í sama ástandi og ég í sama augnlabiki, en sem betur fer, heima hjá sér.

Þú varst því óheppinn þetta kvöld en við afar heppnar, að hafa ekki þurft að upplifa þessa hræðilegu lífsreynslu með eins miklu ofbeldi og raun ber vitni sem hefði svo getað endað með nauðgun, eins og þú hefðir viljað! En hver veit nema að þú hafir farið aftur út á laugardagskvöldið, til að bæta upp föstudagskvöldið og sú eða þær sem hafa lent í þér þá hafa ekki verið eins heppnar og við?

Hver veit nema að þú sért raðnauðgari sem stundir þetta hverja helgi. Það þarf amk töluvert mikinn ásetning og mikið skipulag til eitra svona fyrir þremur vinkonum svo þær lamist með þessum hætti og geti ekki séð né talað.

Það er verið að skoða eftirlitsmyndavélar og lögreglan er að fara í málið og ég vona að þeir finni þig, en það versta við það er að dómskerfið okkar er svo veikt þegar kemur að lögum um slík mál að þrátt fyrir að þú hafir örugglega nauðgað mörgum, fengið margar kærur þá gengurðu laus í mörg ár á eftir og heldur áfram að eyðileggja líf fólks í þinni eigin eymd og volæði um hverja einustu helgi.

Núna eru komnir þrír dagar síðan þetta gerðist og við vinkonurnar erum að koma til, við erum ennþá með mikla krampa, mikinn svima, kaldan svita, við erum aumar í öllum líkamanum, kokinu, brjóstkassanum, við erum marðar og bláar en við munum jafna okkur, en það er ekki þér að þakka, því það munaði svo litlu að við hefðum fengið ör af þinni hendi sem hefði ekki verið hægt að taka til baka.

Hvers vegna líður þér svona illa að þú viljir beita slíku hræðilegu ofbeldi og eyðileggja líf fólks?

Mig langar að biðja þig að leita þér hjálpar og fá aðstoð. Þrátt fyrir að þú sért andlega veikur og eigir slæma reynslu að baki þá gefur það þér engan rétt á að þú gangir um með þessu hætti, beitir slíku ofbeldi og eyðileggir líka líf annarra sem eru í sakleysi sínu að lyfta sér upp um helgi í góðra vina hópi eftir strembna vinnuviku.

Þú þarft að gera þér grein fyrir því að þetta er ofbeldi af sinni verstu gerð!

Ég vona að þessum pósti mínum verði deilt svo að þú sjáir þetta á endanum og lesir..

Þú ert væntanlega það veikur að þetta mun ekki stoppa þig til að fara aftur út um næstu helgi og byrla næsta vinkonuhóp nauðgunarlyfi en þetta gæti hinsvegar mögulega vakið athygli hjá þessum vinkonuhópi hversu mikilvægt það er að passa sig, leggja drykkina aldrei frá sér og á að það geta allir lent í þessu og þrátt fyrir að þær séu nokkrar saman í hóp þýðir það ekki að þær sleppi, því núna hefurðu tekið uppá því að byrla ekki bara einu útvöldu fórnarlambi nauðgunarlyfi heldur öllum vinahópnum sem sjaldan eða aldrei hefur heyrst af að hafi verið gert áður.!

Það er engum treystandi , sérstaklega ekki þér og engin veit hver verður fyrir valinu sem þitt næsta fórnarlamb, þú veist það varla sjálfur, enda er þér væntanlega alveg sama, svo lengi sem það sé meðvitundarlaus stúlka sem geti sig hvorki varið né hreyft, því svo sjúkur ert þú og þínar kynferðislanganir brenglaðar, þú ert einhverra hluta vegna úrkynjaður og mjög sjúkur einstaklingur sem allir þurfa að vara sig á..!

Mig langar að biðja alla sem þetta lesa að fara ávallt varlega þegar farið er út á lífið og passa glösin sín öllum stundum, því það er aldrei hægt að vita nema næsta fórnarlambið þitt verði þú og þinn vinkonuhópur.

Meðfylgjandi eru myndir af mér fyrr um kvöldið áður en mér var byrlað lyfið og svo þegar ég komst í fyrsta skipti framúr sem var á sunnudagskvöldið, blá og marin eftir að hafa bókstaflega misst meðvitund á einu auga bragði og hrunið í dansgólfið.

Ykkar,
Sigrún Lilja

Farið endilega inn á færslu Sigrúnar og deilið henni áfram. 

 

SHARE