Toblerone ísterta – Uppskrift

Vinkona mín hún Lína er mikill sælkeri (eins og ég) og algjör snillingur í eldhúsinu. Þegar ég frétti að hún ætlaði að búa til ístertu í eftirrétt á aðfangadag varð ég hreinlega að herma eftir henni og grátbað hana um uppskriftina. Hún var svo góð að leyfa mér að deila henni með ykkur hinum en uppskriftin er upphaflega á bloggsíðunni hennar Línu, Tilraunareldhúsinu. 

Toblerone-ísterta

Botn
170 gr hafrakex
2 msk púðursykur
2 msk bökunarkakó
80 gr brætt smjör

Ís
4 eggjarauður
4 msk sykur
225 gr Toblerone
3-4 msk rjómi
4 dl rjómi
4 eggjahvítur

Skraut
100 gr Toblerone
1/2 poki Maltesers

Myljið hafrakexið fínt og blandið við kakóið og púðursykurinn. Bætið smjörinu út á og blandið vel. Takið 26 cm smelluform, klippið til smjörpappír og leggið í botninn á því. Leggið blönduna á smjörpappírinn og þjappið vel og jafnið.

Þeytið saman eggjarauðurnar og sykurinn meðan þið bræðið Toblerone-ið og 3-4 msk af rjóma saman. Þegar súkkulaðið er bráðið er því bætt ofan í með eggjarauðunum og sykrinum og þeytt saman. Leggið til hliðar. Léttþeytið rjómann og blandið svo súkkulaðisoffunni vandlega saman við með sleif. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið varlega saman við rjóma-súkkulaðiblönduna, þar til þær hafa samlagast vel. Hellið blöndunni yfir botninn, sléttið úr og frystið.

Þegar tertan er frosin er hún skreytt með grófbrytjuðu Toblerone og Malteserskúlum sem hafa verið skornar í tvennt.

Takið úr frysti stuttri stund áður en hún er borin fram.

Hún er alveg mergjuð þessi.

Verði ykkur að góðu!

SHARE