Topp 10 pottþéttar leiðir til að ná í karlmann

Photo by stockimages

Þessi pistill er skrifaður af Þórhalli Þórhallssyni grínista sem var í viðtali hjá okkur fyrir skemstu en hann segist vera sérfræðingur í samskiptum kynjanna. thorhallur1

Þessi listi var valinn í efsta sætið á topp 10 listann yfir topp 10 lista allra tíma. Þannig að stúlkur ekki missa af einum staf í þessum pistli.

1. Snyrtu nefhárin!

Enginn karlmaður vill sjást með konu sem er með svo löng nefhár að hún lítur út fyrir að vera kvenkyns Hitler. Eða með nasirnar svo fullar af hárum að hún er orðin nefmælt

“Viddu kobba medd me á deit?”

Ekki séns systir!

2. Skreyttu naflann

Ég þekki ekki einn karlmann sem hefur farið heim með kvenmanni sem ekki var með eitthvað nafla bling. Hafið þið séð hvað naflinn er asnalegur. Hann er eins og borugat á bumbunni.

Fylltu naflann af glimmeri og allir karlmenn munu falla fyrir þér.

 

3. Ekki borða

Ég hef aldrei hitt mann sem vill konu sem er sífellt troðandi í sig nauðsynlegri næringu og er kjammsandi allt deitið. Hver vill kyssa maísfylltar tennur? Ekki ég. Ef hann býður þér út að borða pantaðu þá bara vatn og salat. Þá veit hann að þú ert ódýr í rekstri og ert ekki á leiðinni að éta hann út á gaddinn

4. Engin búkhljóð

Það vill enginn heyra garnagaul, prump, rop eða undirbrjóstasvitasmjatt. Það eyðileggur allann stemmara. Ef þú þarft að líkamnast eitthvað þá segist þú bara þurfa að fara á klósettið að púðra á þér nefið og lætur öll óhljóðin gossast út þar.

5. Ekki tala

Ef þú ert búin að læra eitthvað áhugavert eða upplifa eitthvað merkilegt eða þú hefur einhverja frumlega hugsun og áhugaverðar pælingar þá vilja karlmenn ekkert vita um það. Hlustaðu á það sem hann vill tala um. Þess vegna bjó guð til tvö eyru en bara einn munn. Hlustaðu tvöfalt meira en þú talar.

6. Mundu að hlæja að öllum bröndurum hans

Ef þú hlærð ekki að því sem hann segir þá kemst upp um þig að þú sért húmorslaus. Það er ekki gott. Ef þú ert bara sæt en með engann húmor þá er engin framtíð í þessu. Bara kynlíf í svona 3-4 skipti.

7. Farðu heim með honum

Það nennir enginn að eltast við þig. Ef þú ferð ekki með honum heim á fyrsta deiti þá bara finnur hann sér einhverja aðra. Sjálfsvirðing þín veltur á því hvort þú eigir karlmann eða ekki. Þannig að ekki klúðra þessu með því að láta hann halda að þú sért einhver tepra.

8. Leyfðu honum að halda framhjá

Karlmenn eru veiðidýr. Þeir þurfa að endalaust að vera að veiða nýja og nýja bráð. Ekki vera sjálfselsk. Leyfðu honum að veiða og veiddu jafnvel bráð fyrir hann. Ef hann fær að sofa hjá bestu vinkonu þinni þá er það örugg leið til að fá hring á fingurinn.

9. Gleymdu því sem þig dreymir um og þráir

Þetta snýst allt um hann og að hann sé hamingjusamur. Vertu súper grönn en með stórann rass og stór brjóst. Ekki segja neitt gáfulegt. Ekki nöldra í honum og leyfðu honum að vera karlmaður í friði. En þú mátt helst ekki vera kona á meðan (nöldur)

10. Ekki taka mark á þessu bulli

Allt sem stendur hér fyrir ofan er bull og argasta karlrembukjaftæði. Ekki taka nokkurt mark á því. Ekki lesa topp 10 lista yfir að ná í karlmann, verða betri í rúminu og að ef þú gerir þetta og ef þú gerir hitt þá muntu verða hamingjusamari. Vertu bara þú sjálf og gerðu það sem er best fyrir þig. Ekki velja einhver asna hvort sem það er önnur kona eða karlmaður eða tvíkynja garðyrkjufræðingur, skiptir engu máli nema að manneskjan sé góð við þig og láti þér líða vel og beri virðingu fyrir þér.

Ef karlmaður vill að þú breytir þér fyrir sig þá segi ég bara eitt við þig sister from another mister: Láttu fýrinn fjúka!

SHARE