Trúfrelsi eða trúhelsi

Við konan mín fórum nú fyrir skömmu að hitta prestinn sem við viljum að gefi okkur saman. Þó að ég sé trúlaus þá er konan mín trúuð, að minnsta kosti svona að nafninu til, og vill mjög gjarnan að athöfnin fari fram í kirkju. Við höfðum samt rætt og orðið sammála um að reyna halda öllu þessu trúarlega svolítið til hliðar eða í lágmarki.

Presturinn, hvers nafn skiptir ekki máli, tók á móti okkur með bros á vör og bauð okkur til sætis á skrifstofunni sinni. Við byrjuðum á því að spjalla svona um daginn og veginn en síðan barst talið að athöfninni.

„Okkur þætti vænt um ef það væri hægt að halda öllu tali um Guð og Jesú í lágmarki,“ sagði ég. Presturinn rak upp stór augu. „Ég er trúlaus,“ bætti ég við svona til útskýringar.

„Já, en þetta er kirkja,“ svaraði presturinn og ekki var laust við að nokkurrar undrunar gætti hjá henni. „Hús Drottins. Þær athafnir sem hér fara fram eru trúarlegar í eðli sínu.“ Síðan sneri hún sér að konunni minni. „Ert þú líka trúlaus?“

„Nei, ég er nú skráð í Þjóðkirkjuna,“ svaraði hún.

„Og kennirðu börnunum þínum bænir?“ spurði presturinn.

„Nei, ég get nú ekki sagt það,“ svaraði konan mín og færði sig til í sætinu.

„Ég skil. Eru þau skírð?“

„Nei,“ svaraði ég, „við viljum að þau hafi val þegar þau verða eldri. Ekki að við sem foreldrar þeirra ákveðum fyrir þau jafn persónulega hluti og trú.“

„Hvenær leitar þú til Guðs?“ spurði presturinn enn og leit á konuna mína, sem roðnaði.

„Ég veit það ekki, hugsa svo sem ekki mikið út í það,“ svaraði hún.

Presturinn var hugsi um stund.

„Jesú sagði: Ég þekki verkin þín, að þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir kaldur eða heitur. Þú ert volg, þú ert hvorki köld né heit. Gifting í kirkju er trúarleg athöfn. Í henni biðjum við Guð um að blessa hjónaband ykkar og er söfnuðurinn til vitnis um það. Ef þið kjósið ekki þá blessun, af því þið ýmist trúið ekki eða Guð er ekki hluti af lífi ykkar, þá ættuð þið að fá einhvern annan til að gefa ykkur saman.“

Við konan litum hvort á annað.

„Kirkjan er hús Drottins, ekki gleyma því.“

„Ég hélt,“ sagði ég eftir stundarþögn, „að kirkjan væri orðin aðeins meira líberal. Þú ert nú varla að fá þessa ósk í fyrsta sinn?“

„Nei, ég viðurkenni það fúslega,“ svaraði presturinn og brosti innilega. „En kirkjan er reist á bjargi. Við fylgjum Orði Guðs og höfum gert alla tíð.“

Við ræddum þetta ekkert frekar og kvöddum prestinn skömmu síðar. Þegar við vorum komin út í bíl litum við konan hvort á annað.

„Hvað fannst þér um þetta?“ spurði ég.

„Ég veit það eiginlega ekki,“ svaraði konan mín og bakkaði úr stæðinu. „Stundum langar mig til að vera trúuð, en svo flækjast hversdagsverkin fyrir mér, þvottur og svoleiðis.“

„Ég skil samt ekki hvers vegna hún á svona erfitt með að gúddera það að breyta giftingunni ekki í einhverja hallelúja samkundu,“ sagði ég. „Ég meina, það er trúfrelsi.“

„Já, en hún er prestur og gallinn við trúfrelsi og annað frelsi ef því er að skipta, er að langflestir líða frelsi annarra svo lengi sem það hefur ekki áhrif eða samræmist frelsi þeirra.“

„Hvað áttu við?“

„Jú, skoðum þetta moskumál, sem allir eru að missa sig yfir núna. Fólk skreytir sig þeim fjöðrum að það sé fylgjandi trúfrelsi og því megi ekki afturkalla þessa lóðaúthlutun. Gallinn við þetta er bara sá, að sama fólk missti sig af vandlætingu þegar prestar rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar sögðu að samkynhneigð væri synd.“

„Er eitthvað að því?“

„Já, skilurðu þetta ekki, Friðrik?“ spurði konan mín og leit pínu pirruð á mig.

„Nei, ekki beint.“

„Sko, þeir sem eru einmitt talsmenn trúfrelsis gleyma því að með því að berjast fyrir þessu trúfrelsi þurfa þeir að sætta sig við sumt sem fylgir trúarbrögðum er ekki endilega alltaf þeim þóknanlegt, en gallinn er sá að oft eru þessir riddarar réttlætisins á netinu ekki tilbúnir til þess. Hversu margir þeirra ætli séu til í að leyfa umskurð ungra drengja, sharía-lög, ramadan eða búrkur?“

„Já, en það er ekki það sama. Þú getur sagt að það komi trúfrelsi við að skera forhúðina af ungabörnum eða umskera unglingsstelpur? Það gilda ákveðin lög í landinu,“ sagði ég og fannst þessi nálgun tilvonandi konu minnar kjánaleg.

„Auðvitað er þetta hluti af trúfrelsi. Ef það er hluti af trú minni að láta skera forhúðina af syni mínum, af því það er lögmál Guðs, Allah eða Þórs, þá geri ég það. Af hverju? Jú, af því að lög Guðs eru æðri lögum manna. Það er Guð sem dæmir þig í lokin, ekki menn. Þetta eiga bæði kristni og íslam sameiginlegt.“

„Þannig þú ert að segja að þú sért á móti því að moskan sé byggð af því að í íslam eru hlutir sem þú kannt ekki við?“

„Nei, ég er að segja að við búum við tvöfalt siðgæði. Mér er alveg sama þó að byggðar séu moskur, kirkjur og hof út um allar koppagrundir. Það sem fer í taugarnar á mér er að þeir sömu og berjast fyrir trúfrelsi eru oft þeir sömu og ætlast til að allir trúarhópar falli að siðgæðisvitund þeirra, sem er í eðli sínu ekki trúfrelsi. Það á í raun lítið skylt við frelsi og er að mínu mati meira í ætt við fasisma. Bara í dulbúningi.“

„Ok, ég skil, en hvernig ætlarðu að ná því fram? Hvernig getum við haft búið hér við mörg lög ef lög guða eru æðri lögum manna?“

„Í því felst vandinn og þess vegna held ég að margir eigi eftir að kjósa Framsókn næstu helgi. Fólk óttast og skilur ekki hvernig hægt er að vera með samfélag sem eru svo skitzófrenískt, ef svo mætti að orði komast. Sjáðu Votta Jehóva, það er nú samfélag sem lifir eftir sínum eigin reglum mitt meðal okkar. Stundum heyrir maður af því að einhverjum hefur verið úthýst út fjölskyldu vegna þess að viðkomandi fylgdi ekki lögmálinu og manni kemur það spánskt fyrir sjónir. Hvernig ætli okkur yrði við ef við heyrðum af því að maðurinn í næstu íbúð hefði gefið 13 ára dóttur sína í hjónaband? Þetta er flókið mál. Myndum við segja eitthvað? Gera eitthvað?“

„Maður giftir ekki 13 ára gömul börn!“

„Nei, nákvæmlega, en það er sumstaðar til siðs og hver gerði þig svo heilagan að þú getur sagt til um hvað sé rétt og rangt. Þó að eitt viðgangist ekki hérlendis af því við teljum það rangt, er ekki víst að allur heimurinn sé sömu skoðunar. Það frelsi sem við höfum til skoðana, trúar og svo framvegis er ekki endilega rétta svarið fyrir alla alltaf.“

„Hvað áttu við?“

„Í stuttu máli sagt?“

„Já, í guðanna bænum.“

„Jú, ef við segjum að allir eigi að búa við frelsi svo lengi sem þeir haga sér eins og ég eða hegðun þeirra er mér þóknanleg, þá er það ekki frelsi, heldur tálsýn um frelsi, tálsýn sem aðeins þeir sem eru okkur sammála sjá ekki gegnum.“

Ég horfði á konuna mína. Ég hef áður sagt að hún sé klár og spáir í hlutum á allt öðru leveli en ég. Hún getur skoðað málefni frá svo mörgum sjónarhornum, nokkuð sem ég hreinlega nenni oft á tíðum ekki.

„Þannig að við ættum ekkert að vera spá í þessu moskumáli?“

„Nei, ég held ekki. Að minnsta kosti ættum við tvö að hafa meiri áhyggjur af okkur sjálfum. Ef við erum tilbúin að þola skoðanir hvors annars, berum virðingu fyrir trú, menningu og upplifunum hvors annars og kennum börnunum okkar það sama, þá erum við á réttri leið. Við eigum ekki að troða lífsspeki okkar eða sjálfhverfni upp á aðra. Lifum í friði við aðra menn og breytum samfélaginu með því að breyta okkur sjálfum.“

SHARE