Tvíhöfði snýr aftur

Félagarnir úr sjónvarpsþáttunum Fóstbræður, Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson, ætla að sameina kraftana á ný í splúnkunýjum útvarpsþáttum af Tvíhöfða.

Þættirnir nutu mikilla vinsælda á útvarpsstöðinni X-inu í fjölmörg ár en í þeim hringja leikararnir tveir ýmist í fólk úti í bæ eða í hvorn annan og sprella eins og þeim einum er tamið.

Þættirnir fara í loftið á morgun 5. nóvember og má nálgast þá í hlaðvarpi vefmiðilsins Kjarnans. Kjarninn lét eftirfarandi orðsendingu fljóta með hljóðbroti úr því sem koma skal.

Kjarninn hefur að undanförnu fundið áþreifanlega fyrir mikilli eftirvæntingu sem ríkir meðal aðdáenda tvíeyksins fyrir fyrsta þættinum, og hefur því ákveðið að birta stutt hljóðbrot úr Tvíhöfða til að gefa smá forsmekk að því sem koma skal.

Sigurjón og Jón komu í heimsókn á Kjarnann í síðustu viku og hófu upptökur. Ritstjórn Kjarnans hefur hlustað á efnið, fékk gæsahúð og hláturskast, og fullyrðir að fólk geti farið að undirbúa sig fyrir að verða mjög ánægt.

Það verður spennandi að fylgjast með hvort fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur hafi nokkru glatað af kímnigáfu sinni eftir setuna í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Hægt er að hlusta á hljóðbrotið hér

http://vimeo.com/110786865

SHARE