Um ADHD í blómavasa – Tekur eftir fordómum í garð ADHD

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Ég er enginn fræðingur en mig langar að tjá mig aðeins um fordóma og lyf við ADHD. Er ekki að staðhæfa neitt heldur aðeins „brainstorma“ út frá eigin upplifunum og biðst afsökunar ef eitthvað af þessu kann að vera eintómt bull.

Að vera með ADHD er eins og að vera risastór og fallegur blómvöndur; hann tekur mikið pláss, er virkilega sjarmerandi og fer ekki framhjá neinum. Flestir blómvendir eru minni um sig en auðvitað fallegir á sinn hátt og eiga jafnvel oftar betur við, en það er samt nóg um þessa stóru líka.

Blómvöndurinn er ekki galli í sjálfu sér og heldur ekki stærð hans eða sjarmi, þvert á móti. Eini gallinn er að blómavasarnir eru hannaðir fyrir „venjulegu“ blómvendina og eru eiginlega of litlir og þröngir fyrir þessa stóru. Í þessu samhengi eru blómavasarnir auðvitað samfélagið og þær venjur og reglur sem byggja ramma utan um allt okkar líf. Blómavasarnir sjálfir eru heldur ekki endilega gallaðir, stóru vendirnir bara passa ekki alltaf í þá.

Auðvitað þarf ramma, blómvendirnir þurfa vasa. Þessi rammi þarf að vera svolítið þröngur upp á aðhald og að auki þarf hann að vera þannig sniðinn að meiri hlutinn komist fyrir í honum. Það er líklegast ómögulegt að búa til þannig samfélag að allir passi í sama blómavasann og af þeirri ástæðu þarf að miða við meirihlutann. Þessi rammi á við um allt; skólakerfið, foreldrahlutverkið, vinnutíma, siðagildi, reglur… o.s.frv.

Það væri kostur að laga blómavasana, en ég sé ekki almennilega fyrir mér hvernig það væri hægt en það er önnur leið, sem virkar ágætlega; binda þessa stóru vendi svolítið niður, klippa aðeins og skera til þ.e. móta þá í þessi fyrirfram ákveðnu form, láta þá passa í vasana sína. Því þrátt fyrir að ADHD sé ekki sjúkdómur, eða galli, þá getur reynst virkilega erfitt fyrir okkur að fúnkera í námi, vinnu, félagslífi, fjölskyldulífi, ástarlífi… og það skilar sér oft í þunglyndi, kvíða, félagsfælni, vonleysi, fíkniefnaneyslu… o.s.frv.

Það eru til margar leiðir til að móta einstaklinga með ADHD þannig að þeir passi betur í heiminn sem við lifum í, ef ég kippi mér aðeins út úr myndlíkingunum og inn í raunveruleikann, það er hægt að nýta sér atferlismeðferðir, lyfjagjafir, matarræði og fleira.

Ég, eins og svo margir aðrir, var greind með ADHD á fullorðinsárum, eftir skrautlega lífsgöngu þar sem ég leitaði stanslaust af rót allra minna vandamála. Fjöruga ímyndunaraflið mitt fór með mig á hinar og þessar slóðir og komst að misgóðum niðurstöðum um það hvað væri eiginlega að mér, afhverju ég passaði ekki svona auðveldlega ofan í blómavasann minn eins og svo margir aðrir. Að fá greininguna var mikill léttir, það hjálpaði mér að skilja sjálfa mig og sætta mig við sjálfa mig. Það að fá greininguna byggði þann grunn sem ég gat síðan byggt betra líf ofan á. Ég tek lyf daglega sem hjálpa mér að beisla niður blómin mín og lífið mitt hefur tekið beina stefnu upp á við.

En þrátt fyrir það hvað þetta gerir mér gott (og mörgum öðrum), tek ég eftir fordómum í garð ADHD en sérstaklega í garð lyfjanna. Til dæmis er mjög erfitt að fá þessi lyf skrifuð út, fordómarnir eru þannig að geðlæknar eru, liggur við, farnir að forðast óðu blómvendina til að komast hjá því að vera settir niður á blað yfir þá lækna sem gefa hvað mest út af rítalíni, eins og það sé einskonar glæpastarfsemi. Það eru langir biðlistar til að komast að í greiningar og það eru sko ekki allir sem taka við þér ef þú ert með ADHD. Umtalið í kringum lyfin er oftar en ekki á neikvæðum nótum og tengjast oft eiturlyfjanotkun, fíkn og glæpum. Þetta skil ég ekki.

Svona umræða á sér ekki eins oft stað í kringum sterk verkjalyf, þó þau séu líka misnotuð töluvert. Það er heldur ekki svona erfitt að fá þau, eitt símtal við hvaða lækni sem er og þú hleypur út í næsta apótek og kaupir þér Parkodín Forte (kódeinið hans Justin Biebers) fyrir klink. Enginn gagnrýnir manneskju sem þarf á verkjalyfjum að halda, hún á auðvitað ekki að liggja kvalin heima hjá sér þegar lyfin eru í boði.

Sama má segja um önnur geðlyf. Sjálf prófaði ég kvíða og þungyndislyf áður en ADHD greiningin kom, ég fór einu sinni til heimilislæknis í 20 mínútur og var komin á geðlyf 5 mínútum seinna, sem mér persónulega fannst vera töluvert meira „inngrip“ heldur en lyfin við ADHD; aukaverkunirnar voru töluverðar og svo ég tali nú ekki um fráhvarfseinkennin þegar ég reyndi að hætta á þeim.

Nú er ég enginn læknir en vonandi er ég ekki að fara með eintóma vitleysu. En öll lyf eru inngrip, en þau eru notuð ef kostirnir vega mikið meira en gallarnir sem fylgja lyfjunum. Sama með hagkerfið, auðvitað kosta þessi lyf peninga eins og öll önnur lyf og er það oft rætt í tengslum við lyfin eins og eiturlyfjanotkun. En ef kostirnir vega út gallana komum við út í plús. Ég hef ekki gert neina rannsókn svo ég er ekki að staðhæfa neitt, en miðað við mína upplifun og reynslu tel ég að við komum öll út í stórum plús með notkun þessara lyfja, þau hjálpa stórum hluta fólks að klára nám, fá sér vinnu, ala upp börnin sín og vera hamingjusamir virkir einstaklingar í okkar samfélagi sem annars hefðu kannski aldrei náð að klára skóla, upplifað vonleysi og uppgjöf, endast ekki í vinnu, eiga við þunglyndi, kvíða og fleiri geðræn vandamál að stríða.

SHARE