Ung móðir lenti í slæmum leigusala! – Frásögn

Er þetta eðlilegt?
Er þetta algengt?
Er þetta það sem er að gerast í “kreppunni” í dag?

Ég geng inní gullfallega íbúð og á móti mér tekur eldri maður, hann býður mér inn, biður mig um að vera nú ekkert að fara úr skónum þar sem það eigi jú eftir að skúra og svona. Ég skoða íbúðina með þeim augum hversu dásamleg hún yrði þegar búið væri að þrífa hana og mála.

Ég er búin að vera að líta í kringum mig í leit að góðu leiguhúsnæði og svoleiðis kolféll fyrir þessu gamla sjarmerandi timburhúsi, og ekki var nálægðin við dagmömmuna, leikskólann og hvað þá Háskólann að skemma fyrir því.

Ég ákveð að slá til, þarna skyldi ég búa með börnin mín.

Ég fæ lyklana afhenta daginn eftir þrátt fyrir að gamli maðurinn væri bara rétt að flytja úr húsinu sjálfur og ekki var búið að tæma það. Ég var svo ákveðin í að grípa þessa íbúð að ég samdi um að ég skyldi mála íbúðina (121 fm.) og gefa eigandanum vinnuna en málninguna sjálfa fengi ég greidda.
Ég vissi að ég þyrfti að leita hjálpar til fjölskyldu og vina með að mála þar sem ég á tvo unga grísi og er í fullu háskólanámi svo frítími er ekki eitthvað sem ég get montað mig af.

Ég gerði mér grein fyrir að þessi samningur var nú ekkert gríðarlega sanngjarn en ég ákvað að þetta væri bara fórnarkostnaður þar sem ég þyrfti íbúð og þetta væri rétta íbúðin fyrir mig og mína.

Ég greiði 120.000 kr. við undirritun leigusamnings og aðrar 120.000 kr. sem tryggingu, sem ætti þá að nýtast mér sem leiga fyrir síðasta mánuðinn þegar ég skila af mér íbúðinni.

Ég mæti dóttur eigandans og manninum hennar þegar ég fer næst í íbúðina, þau eru að pakka niður fyrir gamla manninn og tæma íbúðina. Ég segji þeim að þau þurfi í rauninni ekkert að stressa sig mín vegna því ég færi ekki að mála fyrr en helgina eftir. Þau gera nú lítið úr því og segja að þetta sé nú alveg að verða búið, allt verði flutt út fyrir kvöldið og þá eigi bara eftir að þrífa. Hún hefur sjálf orð á því að það þurfi að djúphreinsa teppin á efri hæðinni og mála alla eignina.

Ég fer og kaupi málningu, sparsl o.s.frv. og kostaði það mig u.þ.b. 40.000 kr. (fyrsta búðarferðin)

Þegar ég svo mæti til að fara að mála með hjálpsama vini og fjölskyldumeðlimi meðferðis sé ég að allt er ennþá grútskítugt, rifjaði þá upp og afsakaði fyrir viðstadda ástandið því dóttirin hafði sagt mér frá fyrri leigjendum; umgengnin eftir þá hafi verið svo skelfileg að ekki var hægt að stíga til gólfs án þess að klístrast fastur við það!

Allt í íbúðinni studdi þá sögu fullkomlega; Veggir, loft, hillur, karmar o.s.frv. var allt skelfilegt en skúrað hafði verið lauslega yfir gólfið svo hægt var að labba um á sokkum án þess að “festast”, en engu að síður vildi maður skipta sokkunum út þegar heim var komið.

Þarna gerði ég mér grein fyrir að búðið var að tæma íbúðina að mestu leiti, þó ekki öllu, og ég var dugleg að leiðrétta það við “málaragengið mitt” að það ætti samt eftir að þrífa og þau myndu örugglega falla fyrir íbúðinni á sama hátt og ég gerði þegar það væri búið.

Við tókum ákvörðun að gera einsog við gætum fyrst við vorum nú mætt til að mála svo farið var í að þrífa stærsta herbergið og stofuna bara svo hægt væri að byrja að mála. Þetta var langur og mjög erfiður dagur og annan eins óþrifnað hafði ekki nokkur okkar upplifað áður.

Allt var nagla og skrúfuhreinsað og spaslað og kíttað þar sem við náðum að þrífa og við byrjuðum að mála. Það þurfti ansi margar umferðir af málningu og augljóst var að við vorum að skrúbba veggi og gólf sem höfðu verið vanþrifin til ansi langs tíma.

Þegar ég og mínir vorum búin að eyða sólahringum saman í þessi örfáu rými og nánast var búið að mála þar þá hef ég samband við fasteignasala sem hefur umboð með leigunni fyrir gamla manninn og spyr hann hvenær hann haldi að komið verði að þrífa íbúðina, ég fletti leigusamningnum og sé þar svart á hvítu að ég skuli taka á móti hreinni íbúð og skuli einnig skila henni hreinni af mér þegar ég myndi hætta að leigja.

Hann hefur samband við mig einhverju síðar og segjir mér að fjölskylda gamla mannsins hafi ekki tíma til að þrífa íbúðina, ég segji honum að það hafi ég svo sannarlega ekki heldur enda á þessum tímapunkti búin að þrífa miklu meira en ég átti að þurfa, skítugari veggi, hurðar, lista og loft en ég hafi nokkurntíman upplifað.

Ég geri skriflega grein fyrir því sam þarf að gera til að koma íbúðinni í “málanlegt” form og íbúðarhæft og skila því inn til fasteignasalans með umboðið.
Hann svarar mér því hvort ég geti ekki bara tekið þetta að mér og komið verði til móts við mig með það í leigulækkun.

Þar sem ég var búin að koma því mjög skýrt frá mér við manninn að ég hefði ekki tíma til að sinna slíkum sólahringum í þrifum í ofanálag við að mála þá hef ég samband við byggingafulltrúa og fæ hann til að taka út íbúðina, hans orð féllu; þetta er versta íbúð sem hann hefur skoðað og íbúðin með öllu óíbúðarhæf sökum vanþrifnaðar til gífurlega langs tíma.
Jafnframt segjir hann mér það að skv. lögum þá eigi ég ekki að greiða leigu fyrir janúarmánuð þar sem ég hef ekki með nokkru móti getað búið þar eða notað eignina til þess sem hún var leigð sökum vanefnda af hendi eiganda.
Fyrir þessa úttekt greiði ég rúmar 24.000 kr. sem ég fékk að vita að ættu að skiptast jafnt á milli mín og eiganda og koma því út sem leigulækkun.

Þá eru komin mánaðarmót, ég hlýði því að greiða ekki leigu og gamli maðurinn verður arfavitlaus og vill rifta leigusamningnum, hann hefur þó ekki forsendur fyrir því svo hann ákveður frekar að segja mér upp samningnum og senda leiguna í innheimtu.

Skv. leigusamning þá er 6 mánaða uppsagnafrestur, en ég hef ekki neitt við þessa íbúð að gera í heila 6 mánuði, skítuga, og því væri allur sá peningur sem ég hef lagt út fyrir íbúðinni og viðhaldi á henni það eina sem situr í “mínus” og skulda ég svk. lögum ekki krónu í þar til íbúðin er komin í íbúðarhæft ástand. Þann dag sem það myndi gerast myndi leigan mín byrja að “tikka” inn og ég vera að nota íbúðina fyrir þennan 120.000 kr. sem ég greiddi fyrst við undirritun leigusamnings.

En ég er nú fyrir löngu búin að gefa upp von um að íbúðin verði þrifin, og þó hún yrði það þá er ég ekki að fara að flytja með börnin mín og búslóð inn í íbúð til að flytja okkur út aftur hálfu ári síðar, slíkt rót myndi ekki gera neinu okkar gott.

Nú tekur líklega við málaferli, langt og ljótt, þar sem ég vonast til að fá greitt til baka allt það sem ég hef borgað í íbúðina sem ég aldrei fékk að nota en fékk bara að eyða sólahringum saman ásamt góðu fólki í að skrúbba, spasla og mála, og átti ég engan hag á því.

Þetta er búið að kosta mig endalausar “pössunarstundir” fyrir börnin mín, endalausan tíma frá skólanum mínum og það er allt fyrir utan þær upphæðir sem ég hef lagt út fyrir íbúð sem ég var bara að “fínisera” örlítið fyrir næsta leigjanda sem mun jafnvel láta það yfir sig ganga að þrífa þennan margra ára skít út fyrir gamla manninn, frítt.

Heildarkostnaður sem ég hef lagt út núna í íbúðina (Virkilega gróflega reiknað og frekar skafið af heldur en lagt á):
Leiga fyrir fyrsta mánuð (sem ég hef ekki enn fengið): 120.000 kr.
Tryggingarupphæð sem notuð verður í leigu fyrir síðasta mánuð (sem ég mun ekki fá): 120.000 kr.
Málning, sparsl o.s.frv.: 40.000 kr.
Vinna við að mála, sparsla o.s.frv: 80.000 kr.
Þrifa og ræstivörur (óendanlega margir svampar, tuskur og efni búin að klárast upp til agna við þrifin mín): 10.000 kr.
Vinna við þrif (allir sólahringarnir sem ég hef lagt til og skrúbbað, bónað og lagað): 50.000 kr. (já ég veit ég er ódýr en mun láta reikna þessa upphæð betur fyrir mig þegar tekið verður út þau rými sem ég hef klárað)
Úttekt byggingafulltrúa: 24.000 kr.

Gera þetta 444.000 kr. (gróflega reiknað) sem ég hef úr mínum eigin vasa greitt í þessa leiguíbúð síðasta 1,5 mánuðinn og fái eigandinn að ráða þá skulda ég honum fullt af peningum í viðbót og þetta hafi bara allt verið til einskis fyrir mig!

Ég skrifa þessar aðstæður niður, kanski aðalega því ég þarf að koma óréttlætinu einhvernvegin frá mér en ég vil líka bara brýna það fyrir fólki að vera með það 100% á hreinu að sé það að taka við leiguhúsnæði að hafa það allt upp á borðum í hvernig ásigkomulagi eignin verður afhent, ég sjálf (einsog flestir) get vel litið framhjá smá ryki og ágangi en ekki margra ára safni af drullu, og margra sólahringa vinnu, frítt.

Þó hlutirnir standi svartir á hvítu í leigusamningi þá er samt alltaf góð regla að ræða þá upphátt við þá sem eiga hlut því það er greinilega bara litið á þessa samninga sem “staðlað” form sem ekki þarf að fylgja eftir.

Passið uppá ykkur sjálf, það gerir það enginn fyrir ykkur!
Gleðilegan valentínusardag allir saman.

p.s. hér má sjá örfáar myndir af stöðunni, allt heilt (jah gamalt en virkar) en svo grútskítugt að það nær engri átt!ég tók eftir því að mér fannst þetta líta nokkuð betur út á myndum en það er í raun, og því er ég ekki að ljúga!

285366_10151288924845143_436175243_n

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here