Unglingar og partýhald

Í myndinni Sódóma Reykjavík er klassískt atriði þegar aðalpersónan býður óvart í partý heim til sín í Dúfnahóla 10. Ástandið í Dúfnahólum í partýinu og eftir það er svakalegt og ólíklegt að nokkur vilji sjá heimilið sitt undir slíkri innrás. Samt sem áður virðast partý í heimahúsum unglinga þar sem enginn ábyrgur fullorðinn er til staðar vera glettilega algeng.

Bæði virðast unglingar fá leyfi til að halda partý þegar þeir eru einir heima og fá að fara í slík partý án þess að foreldrar eða forráðamenn kanni hvort einhver ábyrgur sé til staðar.
Ábyrgð foreldra á börnum er til 18 ára aldurs og á henni er ekkert hlé, ekki sumar- eða helgarfrí né heldur þegar þau fá að gista hjá vinum sínum.

Sjálfsagt er að leyfa unglingum að bjóða heim vinum og kunningjum. Þá gefst gott tækifæri til að kynnast vinahópnum. En það er gott að hafa eftirfarandi atriði í huga:

  1. Vertu heima og sýnileg/ur þannig að gestir viti af þér og að þeir geti leitað til þín ef eitthvað kemur upp á.
  2. Skipuleggðu partýið með unglingnum þannig að það sé ljóst til hvers sé ætlast og hvaða reglur gilda, s.s. að boðflennum verði ekki hleypt inn, ef einhverjir verða til vandræða fara þeir heim og að ekki megi vera með áfengi eða önnur vímuefni. Gott er að gera boðslista og ákveða klukkan hvað partýinu ljúki þannig að foreldrar gestanna viti hvenær megi búast við þeim heim.
  3. Oft er tækifærið gripið til að halda partý þegar foreldrar eru ekki heima. Nauðsynlegt er að tryggja að einhver fullorðinn sem unglingurinn geti leitað til hafi umsjón með honum. Gott er að láta líka nágranna vita hver staðan er.
  4. Láttu foreldra gestanna vita hvernig hægt sé að ná í þig.
  5. Það er bannað með lögum að útvega yngri en 20 ára áfengi.

Allir hinir mega fara


Þegar partý stendur fyrir dyrum er oft mikill þrýstingur á foreldra að leyfa unglingnum að fara því „allir hinir fara“. Oftast er sjálfsagt að leyfa þeim að fara enda fátt skemmtilegra en að hitta vinina og spjalla. En það er einnig mikilvægt að hafa nokkur atriði í huga í þessu sambandi:

  1. Vertu viss um hvert unglingurinn er að fara. Fáðu heimilisfang og símanúmer hjá gestgjafanum. Biddu unglinginn um að láta þig vita ef breytingar verða.
  2. Hafðu samband við foreldra gestgjafans og gakktu úr skugga um að einhver ábyrgur verði til staðar og að þú hafir réttar upplýsingar um hvenær partýið byrjar og endar.
  3. Vertu klár á því hvernig unglingurinn kemst til og frá partýinu. Láttu unglinginn hafa símanúmer sem hann getur hringt í ef hann vill verða sóttur. Brýndu fyrir honum að þiggja ekki far hjá einhverjum sem hefur verið að drekka.
  4. Ef unglingurinn vill gista eftir partý hafðu þá samband við foreldra gestgjafans til að vera viss um að boðið sé upp á gistingu og að þeir verði heima.

Þó unglingar þrýsti á að fá að halda partý einir heima þá er það oft misskilinn greiði að leyfa þeim það. Það er erfitt að bera ábyrgð á heimilinu og gestunum og ef eitthvað kemur upp á þá eiga þeir erfitt með að taka á hlutunum því þau eru jú bara unglingar.

 

 

Fleiri flottar heilsutengdar greinar á doktor.is logo

 

 

Tengdar greinar:

13 unglingar sem verður að STOPPA strax!

Unglingar og Kynlíf

Nýr stjúppabbi með ungling 

SHARE