„Á 2 vikum hafa 4 af þeim börnum sem ég hef hitt látist úr vannæringu”

 „Ég hef verið hér í Suður Súdan í tvær vikur og verð í tvær vikur til viðbótar, en starf mitt hér er fjölþætt og áhugavert. Þetta er fátækt land og fólk er á flótta en ein alvarlegasta birtingarmynd vandans er vannæring barna. Landið er á barmi raunverulegrar hungursneyðar.”

 

Svo mælir Stefán Ingi Stefánsson, sem gegnir stöðu framkvæmdarstjóra UNICEF á Íslandi, en hann dvelur nú í Júba, höfuðborg Suður Súdan við hjálparstarf og hefur meðal annars það verkefni að dreifa hjálpargögnum til vannærðra barna. Stefán heldur úti bloggi meðan á ferðalagi hans stendur og mun á næstu vikum deila ferðasögu sinni með lesendum HÚN í formi pistla.

 

Fjögur ung börn látist úr vannæringu á tveimur vikum

 

„Mitt hlutverk er fyrst og fremst að veita styrktaraðilum og fjölmiðlum upplýsingar um starfið en síðan hleyp ég líka í ýmis verk eftir því sem þarf. Á þeim stutta tíma sem ég hef dvalið hér í Suður Súdan hafa fjögur börn sem ég hef hitt og heimsótt á sjúkradeildum dáið úr vannæringu og það er afar átakafullt. Hér erum við að ræða um eins, tveggja og þriggja ára gömul börn sem hreinlega hafa ekki burði til að berjast við vannæringuna og láta lífið á sjúkrabeði. Þetta eru óendanlega sorglegt og átakafullt en hvetja okkur um leið til að halda starfinu gangandi og gera enn betur.”

 

WP_20140714_18_28_28_Pro

Stefán við hjálparstörf í Suður Súdan 

 

Það kostar ekki mikla peninga að bjarga mannslífi

Stefán segir hverja krónu og framlag skipta máli í hjálparstarfinu; að ódýrt en áhrifaríkt sé að veita grunnaðstoð til þeirra barna sem glíma við vannæringu, sem leiðir til oftast dauða sé ekkert að gert. „Ef við náum að halda einfaldri meðferð gangandi er hægt að koma mun fleiri börnum sem glíma við vannæringu til hjálpar. Það kostar ekki mikinn pening að koma þessum börnum til aðstoðar, en í dag standa tugir þúsunda barna í Suður Súdan frammi fyrir alvarlegri hungursneyð.”

 

Fræðsla og upplýsingagjöf skiptir sköpum við hjálparstörf 

Sjálf skilgreiningin á hungursneyð grundvallast á tölfræðilegum upplýsingum um vannæringu og dauðsföll barna í tengslum við vágestinn. Staðan í Suður Súdan er mjög alvarleg og sérstök að sögn Stefáns, sem segir hlutverk UNICEF að berjast gegn þeirri vá sem vofir yfir æsku landsins í formi upplýsingagjafar, útdeilingu hjálpargagna auk beinnar meðferðar gegn vannæringu.

 

Mitt hlutverk er að safna peningum fyrir neyðina; ég flyt frásagnir af því sem hér er að gerast og verkefni síðustu daga hafa þannig snúist um að finna ódýrt flug fyrir hjálpargögn sem eru á leiðinni frá Frakklandi og hingað. Blaðamenn frá Sky News hafa áhuga á að koma og blaðamaður Guardian var hér í síðustu viku, en belgískir fjölmiðlar fluttu einnig fréttir af hjálparstarfinu fyrir tveimur vikum. Við gerum allt sem við getum til að vekja athygli á stöðunni, því upplýsingagjöf er lykilatriði þegar neyðin er hvað mest. Það sem heldur aftur af hjálparstarfi er skortur á peningum, en því meira fjármagn sem okkur berst því meira getum við hjálpað.”

 

Börnin deyja meðan ólík þjóðarbrot berjast á banaspjótum

Suður Súdan er yngsta ríki heims og hlotnaðist þannig sjálfstæði fyrir einungis þremur árum eftir langa sjálfstæðisbaráttu, en undanfarið hálft ár hafa gríðarleg átök á geysað í austurhluta landsins. „Þetta gekk vel til að byrja með,” segir Stefán þegar talið berst að stöðu ríkisins. „Sjálfstæði var komið á án teljandi átaka og hafist var handa við uppbyggingu landsins, en svo kom til grimmilegra átaka milli forseta og varaforseta landsins, sem lauk með brottrekstri varaforseta. Þann 15 desember 2013 hófst svo stríðið sjálft og allt frá þeim degi hafa tvö ólík þjóðarbrot borist á banaspjótum. Í augnablikinu er minna barist og friðarviðræður hafa verið virkar að undanförnu, en hér hafa ríkt blóðugar og hatrammar deilur og börnin eru þau sem fara hvað verst út úr þeim átökum. Suður Súdan er fátækt land og börnin voru berskjölduð fyrir átökin. Þetta er grafalvarlegt ástand og við gerum allt sem við getum til að verja hagsmuni barnanna hér. Við getum ekki snúið baki við því að börnin líða banvænan skort þrátt fyrir átökin. Á hverjum degi látast börn úr vannæringu í Suður Súdan og hlutverk UNICEF á Íslandi er að berjast gegn þeim dauðsföllum. Við leitum eftir stuðninig allra í þeirri mikilvægu baráttu.”

Blogg Stefáns má nálgast HÉR en hann mun á næstu vikum meðal annars fræða lesendur HÚN um stöðuna í Súdan og hjálparstarf UNICEF á ólíkum landsvæðum Afríku.

SHARE