Uppbyggilegar umræður

Um þessar mundir er ég að draga rafmagn í nýbyggingu í efri byggðum Kópavogs. Það hefur ekkert verið rosalega mikið að gera eftir hrun en ég hef sem betur fer náð að halda þessum þremur starfsmönnum sem voru á mínum snærum í góðærinu, þó það hafi vissulega reynt pínu á stundum.

Fyrir tveimur dögum mættum við í morgunkaffi og spjölluðum saman, eins og vaninn er að gera upp úr kl. 10. Starfsfélagar mínir, sem við skulum kalla Baldur, Þór og Sif, eru eins ólíkir og hugsast getur. Baldur er elstur, aðeins eldri en ég og kallar ekki allt ömmu sína. Hann var lengi til sjós en dreif sig í land og í nám þegar hann var kominn á fertugsaldur. Þór og Sif eru á þrítugsaldri. Þór er mjög til vinstri og póstar títt um hina heimsku hægri menn á Facebook, hann er einnig mjög hallur undir það sem Sif kallar pólitíska rétthugsun og lætur sig um hin ýmsu mál varða. Ég átta mig ekki alltaf á Sif en ég held að hún leiki sér að því að vera ósammála Þór um sem flest.

„Djöfull ætti Hanna Birna að segja af sér,“ sagði Þór skömmu eftir að við vorum sest niður. Ég var að fletta í gegnum Fréttablaðið og á einni síðunni var frétt um hana og flóttamann í hungurverkfalli. „Hún er svo spillt að það er ógeðslegt, svo fyrirlítur hún útlendinga, það er bara staðreynd. Og þetta lið þarna í kringum hana. Það á ekki að hleypa þessu sjallapakki nokkurn tíma aftur í stjórn. Það er eitthvað að fólkinu sem kaus Sjálfgræðgisflokkinn síðast.“ Ég leit á Þór og sá að hann var í ham. Stundum er eins og hann hafi óstjórnlega þörf fyrir að tjá sig um þessi málefni en sem betur fer virðist hann oftast nær fá útrás á netinu og hlífir okkur í vinnunni.

Það hnussaði í Sif.

„Þú segir þetta bara af því hún er kona,“ svaraði hún og fékk sér sopa af Pepsí-inu sínu. Þór tók andköf. Nei, það er kannski ekki rétt lýsing. Ef Sif hefði mætt með síðasta geirfuglinn, fláð hann lifandi og steikt fyrir framan Þór þá hefði hann tekið andköf. Hann saup svo svakalegar hveljur að Kristján-heiti-ég-Ólafsson hefði líklega ættleitt hann á staðnum og stoppað síðan upp hefði hann heyrt í Þór. Ég gat ekki annað en glott í laumi og sá ekki betur en Baldur gerði það sama.

Nú upphófst mikil einræða Þórs um mikilvægi jafnréttis og hve núverandi ríkisstjórn væri með allt niður um sig í þeim efnum, að ekki væri ástunduð kynjuð fjárlagagerð eins og Steingrímur, sem í huga Þórs leikur eflaust sama hlutverk og Stephen Gerrard í huga sonar míns, stóð fyrir og víða væri pottur brotinn, til að mynda væri ekki jafnt kynhlutfall í stjórninni sjálfri sem væri í raun lítið annað en varðhundar sérhagsmunahópa og kvótakerfisins og aðeins vanvitar hefðu kosið til valda. Þegar hann hafði lokið sér af leit Sif á mig og sagði:

„Varstu ekki að segja um daginn að Framsókn væri að hugsa um að taka Vigdísi Hauks inn sem umhverfisráðherra til að jafna betur út kynskiptinguna núna í vor?“

Þá var Þór öllum lokið. Þeir eru líklega fáir þingmennirnir sem fara jafn mikið í taugarnar á honum og blessuð Vigdís. Hófst nú hávær upptalning á öllum þeim skiptum sem hún hefur mismælt sig eða farið rangt með orðtök og málshætti, sem væri augljóst dæmi um hve vitlaus hún væri og hve lítið erindi hún ætti í ríkisstjórn. Að því loknu bar hana Vigdísi saman við Katrínu Jakobsdóttur, sem var að hans mati svo langtum betri kandítdat en Vigdís að aðeins þeir sem væru bara með annað heilahvelið virkt, og varla það, sæju ekki muninn. Sem væri reyndar, taldi hann, ansi sönn lýsing á ríkisstjórninni og þorra hægri sinnaðra manna.

„Já, Þór, þú hefur margt til þíns máls,“ sagði Sif, „við ættum ekki að vera fjölga kerlingum í ríkisstjórn, það er bara ávísun á eitthvað rugl og vitleysu. Sérstaklega ekki konur sem kunna ekki að tala!“

„Sif, ertu þroskaheft eða á túr eða eitthvað?“ urraði hinn jafnréttissinnaði Þór, „hvenær sagði ég það? Ég skal sko segja þér það …“

Hér steig ég inn í umræðurnar og bað þau vinsamlegast um að hafa sig hæg, þau gætu klárað þessar samræður í matarhléinu og þá helst einhvers staðar þar sem ég heyrði ekki til. Að kaffipásunni liðinni snerum við hvert um sig aftur til okkar verka. Ekki leið á löngu þar til Baldur kom að finna mig. Hann hallaði sér upp að hálfsamansettri eldhúsinnréttingu og dæsti.

„Veistu, Friðrik, ég átta mig stundum ekki á unga fólkinu okkar,“ sagði hann mæðulega.

„Nú?“

„Þau eru svo reið mörg hver,“ svaraði hann. „Ég kíki stundum inn á fésið og það litla sem ég verð var við eru endalaus hnútuköst. Allir að reyna verða að meiri eða stærri á kostnað náungans. Ég veit það ekki, en stundum verð ég hreinlega dapur við að lesa hvernig dagfarsprútt fólki getur látið á netinu. Það er eins og þau átti sig ekki alltaf á hvernig þau láta, hve illa þau tala hvert um annað.“

Ég leit á Baldur.

„Já, ég skil hvað þú átt við,“ svaraði ég og sló létt í öxl hans. „Ég er reyndar löngu hættur á Facebook. Nenni ekki að eyða tíma í þá vitleysu. Verð þar af leiðandi lítið var við þetta, svona þannig séð.“

„Æ, hann pabbi gamli var vanur að segja við mig, að hefði ég ekkert jákvætt að segja þá væri betra að þegja,“ sagði Baldur. „Kannski mætti setja það sem reglu þarna á fésinu?“

„Þá er ég ansi hræddur um að sumir yrðu bæði óalandi og óferjandi í vinnunni,“ sagði ég og hló við. Við létum þar við sitja og héldum áfram að vinna.

Á leiðinni heim kom ég við hjá mömmu því hún sagðist vera í vandræðum með myndlykilinn sinn, sem mér var bæði ljúft og skylt enda lætur hún mig alfarið um raftækin sín þar sem hún nennir ekki að setja sig inn í hvernig þau virka eða þarf að tengja þau. Á meðan ég stakk scart-tenginu aftur í samband við sjónvarpið hennar, en það hafði einfaldlega dottið úr, sagði ég henni svona upp og ofan af því sem farið hafði okkur vinnufélögunum á milli.

„Já, Friðrik, þessi Baldur hefur nú ýmislegt til síns máls,“ sagði hún. „Þið unga fólkið eruð svo uppfull af vandlætingu að þið gleymið hve gott þið hafið það. Þið þurftuð ekki að fara með skömmtunarmiða í Raftækjaverslun ríkisins eða þvíumlíkt. Þetta sem þið kallið kreppu er lítið annað hjóm miðað við það sem afi þinn og amma þurftu að upplifa. Hjóm segi ég.“

„Láttu nú ekki svona,“ svaraði ég, „þó að við höfum ekki upplifað kreppuna miklu þá varð hér samt efnahagshrun.“

„Á meðan þú getur sett mat á borðið hvert kvöld og hvern morgun, þá er þetta ekki kreppa, Friðrik,“ svaraði hún ákveðin. „Vitleysan í unga fólkinu ríður ekki við einteyming, skal ég segja þér, heldur lepur þetta fólk hvert upp eftir öðru kjánaskapinn og virðist öðru fremur stjórnast af lækum eða hvað það nú heitir. Þið eruð alltof góðu vön. Og fordómarnir, biddu fyrir þér! Heiftin og fordómarnir í garð hvers annars eru svo yfirgengileg að maður á stundum ekki til eitt aukatekið orð.“

Ég ákvað að stoppa mömmu þarna, því annars myndi ég líklega ekki komast heim fyrir kvöldmat ef ég þekki hana rétt. Það var náttúrulega allt betra í gamla daga að hennar mati, meira að segja kreppurnar voru betri, ef svo mætti að orði komast.

„Jæja, mamma,“ sagði ég, „nú er þetta komið í lag.“ Ég kveikti á sjónvarpinu og fletti í gegnum nokkrar stöðvar.

„Æ, þakka þér fyrir, vinur,“ svaraði hún þakklát og tók við fjarstýringunni. „Veistu, nú horfi ég alltaf á Skjáinn.“

„Ha? Ert þú orðin áskrifandi að Skjá einum?“ spurði ég.

„Æ, það hringdi hingað svo yndisleg stúlka og seldi mér þetta. Kostar lítið sem ekkert og svo eru þetta alveg ágætir þættir fyrir svona gamla konu eins og mig.“

„Já, ok,“ svaraði ég og furðaði mig reyndar svolítið á þessu, því hún vill helst ekki skipta af Rás 1 þegar hún er að passa fyrir okkur. Jafnvel þó að börnin grátbiðji um aðra tónlist.

„Já, alveg hreint ágætir þættir,“ bætti hún en leit á mig. „En það er alveg deginum ljósara af hverju Skjárinn er svona ódýr.“

„Nú?“

„Jú, það eru aðallega sýndir þættir um blökkumenn sem eru auðvitað miklu ódýrara vinnuafl!“

Ég stóð og starði á mömmu um stund sem sat með fjarstýringuna sína og horfði á sjónvarpið yfir gleraugun. Mér fannst það ekki tímans virði að reyna rökræða við hana þannig ég kyssti hana á kinnina, kvaddi og dreif mig heim. Ég var hvort eð er búinn að fá minn skammt af kjánalegum rifrildum í dag.

 

 

 

SHARE