Útferð og/eða sveppasýking

Konur geta haft óverulega, glæra og lyktarlausa útferð án þess að hún sé vísbending um sjúkdóm.

Margar konur fá ávallt útferð þegar egglos verður. Hjá sumum konum er útferðin talsverð og getur það verið fullkomlega eðlilegt. Aukinnar útferðar verður líka stundum vart hjá stúlkum skömmu áður en þær fá sínar fyrstu blæðingar. Útferð er algengust hjá ungum konum, en hennar verður þó vart hjá konum á öllum aldri. Útferð telst óeðlileg ef hún eykst mikið og skyndilega, ef hún er illa lyktandi og ef henni fylgir kláði og þroti eða hitakennd. Ef kláðinn er ákafur og honum fylgir lyktarlaus, kekkjótt og ljós útferð er sveppasýking líkleg orsök. Í öðrum tilvikum getur verið um röskun á hormónajafnvægi að ræða eða einhver önnur orsök.

SPURNINGAR OG SVÖR 

Hvenær á ég að leita til læknis? Leitaðu ráða hjá lækni ef þú ert ekki viss um að útferðin sé af eðlilegum orsökum eða hún er mjög frábrugðin því sem hún hefur verið. Það er sérstaklega mikilvægt að leita læknis ef þú ert með verki í kviðarholi eða ef þú hefur grun um að þú gætir hafa smitast af kynsjúkdómi.

Hvað get ég gert? Notaðu aldrei tíðatappa gegn útferð. Það gæti örvað vöxt ákveðinna baktería og sveppa í leggöngunum og valdið sýkingu og sótthita. Klæðstu ekki þröngum gallabuxum eða þröngum fatnaði úr gerviefnum. Þvoðu þér að neðan nokkrum sinnum á sólarhring með volgu vatni. Ef þú notar sápu veldu þá sápu með lágu sýrustigi (lágu pH-gildi).

Get ég fengið lyf án lyfseðils? Ef þú finnur mikið fyrir ertingu í leggöngunum getur þú prófað Vivag, mjólkursýrugerla í skeiðarhylkjum (til að setja í leggöng). Notkun þeirra getur komið sýrustigi legganganna í eðlilegt horf. Útferð getur stafað af því að eðlilegt sýrustig (pH) legganganna hefur raskast og þá eykst hætta á sýkingu af völdum baktería og sveppa. Fylgdu notkunarleiðbeiningum nákvæmlega.

Ef þú hefur grun um að þú sért smituð af kynsjúkdómi skaltu ekki nota þetta. Leitaðu læknis ef óþægindin hverfa ekki á nokkrum dögum.

Ef þú hefur einhvern tíma fengið meðferð við sveppasýkingu hjá lækni og þekkir þess vegna einkennin getur þú sjálf ráðið bót á vandanum með hjálp Canesten, Pevaryl eða Pevaryl Depot sem fást sem krem eða stílar í lausasölu. Auk þess er hægt að fá Pevaryl í samsettri pakkningu sem inniheldur bæði krem og stíla.

Ráðfærðu þig við lækni ef þú hefur meðhöndlað sýkinguna sjálf og einkennin hafa ekki horfið á nokkrum dögum. Leitaðu líka læknis ef þú færð oft sveppasýkingu, t.d. oftar en tvisvar sinnum á hálfu ári. Fáðu faglega ráðgjöf hjá lyfjafræðingi um val á lyfjum og notkun þeirra.

Heimild: lyfja.is

SHARE