Var haldið niðri og nauðgað af nokkrum strákum í Eyjum

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Núna síðustu vikur hef ég verið að lesa greinar þar sem ungt fólk, sem lent hefur í kynferðislegu ofbeldi, er að koma fram og segja sína sögu. Ég hef dáðst af þessu unga fólki og hugsað: „Ég vona innilega að ég muni einhvern tímann hafa það hugrekki að koma svona fram og segja mína sögu.“

Í dag ætla ég að láta verða af því.

1996 þegar ég var 18 ára fór ég á mína fyrstu og síðustu Þjóðhátíð í Eyjum. Jii, þetta átti að vera svo gaman. Það var svo skemmtilegt á föstudagskvöldinu að þetta átti sko að vera árlegt. Ég hitti fullt af vinum, kynntist fullt af fólki og dansaði út í eitt. En laugardagskvöldið var ekki eins skemmtilegt. Ég var á danssvæðinu með öllum vinunum. Hitti fólk frá kvöldinu áður og fór að spjalla við þau. Þá týndi ég vinum mínum og ákvað því að fara upp í brekku til að athuga hvort ég sæi þau. Þar settist ég niður og í smá stund horfði ég á gesti þjóðhátíðarinnar skemmta sér.

Eftir nokkurn tíma komu 5 strákar til mín og settust hjá mér. Ég þekkti þá ekki neitt. Þeir byrjuðu að spjalla við mig og virtust vera ágætisstrákar. Einn þeirra fór aðeins að reyna við mig en ég gaf það skýrt í ljós að það væri nú ekki eitthvað sem ég vildi. Hann gaf hinum merki um að láta sig hverfa, þeir stóðu upp og röltu rólega í burtu. Sá sem varð eftir reyndi að kyssa mig en ég ýtti honum í burtu. Hann kallaði síðan á hina og rauninni bað þá um hjálp, sem og þeir gerðu. Þrír þeirra misnotuðu mig en hinir tveir hjálpuðu við að halda mér niðri og halda mér hljóðlátri. Eftir einhvern tíma og mikla baráttu dó líkaminn minn. Hann slökkti bara einfaldlega á sér. Ég dofnaði og lá bara kyrr þar til öllu væri lokið. Það var eins og ég hefði bara yfirgefið líkamann minn á meðan. Eftir að þessu var lokið og þeir voru farnir lá ég í brekkunni í dágóða stund.

Ég vil taka það fram að á þessum tíma hafði ég verið búin að drekka 2 bjóra svo að ég var ekki drukkin og ég var klædd í þykkum hermannaheilgalla svo að það var ekkert ögrandi við mig.

Eftir að ég kom heim hefði allt breyst. Ég var ekki sama stelpan og ég var þegar ég lagði af stað til Eyja. Ég hafði misst alla virðingu fyrir sjálfri mér og þar af leiðandi nánast öllum í kringum mig. Ef þú elskar ekki sjálfan þig er erfitt að elska einhvern annan.

Samband mitt við foreldra mína fór úr góðu yfir í mjög slæmt. Þau skildu ekkert í því hvað hefði komið fyrir og af hverju ég hefði breyst svona. Þau fóru til vinar míns og spurðu hann hvort ég væri byrjuð í eiturlyfjum. Það var ekkert annað sem þau gátu hugsað sér sem gæti snarbreytt manneskju á svona stuttum tíma.
Ég ákvað að segja engum frá þessum atburði. Ég hugsaði um að ef ég myndi ekki tala um hvað hefði gerst, þá myndi ég gleyma þessu smátt og smátt. En það er langt í frá að vera satt. Minningin er alveg jafn sterk í dag eins og var daginn eftir. En smám saman lærir maður að lifa með því áfalli sem maður verður fyrir.
Fyrir mér er Veslunamannahelgin ekki góður tími ársins. Á hverju ári kvíði ég fyrir fréttunum eftir helgina. Og í hvert skipti hugsa ég..: „Úfff hvað ég vona að þessi persóna sé með sterka sál.“

Fyrsta manneskjan sem ég talaði við um þetta er maðurinn minn. Ég kynntist honum tveimum árum eftir atburðinn. Hann náði loksins að sannfæra mig um að það væri komin tími til að segja foreldrum mínum frá. Þá voru liðin sex ár. Ég fékk mömmu til mín og við fórum í bíltúr. Ég sagði henni hvað hefði gerst og loksins fengu þau svar. Svar við því hvað hefði komið fyrir mig, af hverju ég hefði breyst svona. Þau áttu svo skilið að fá svar eftir allan þennan tíma. Ég er enn þann dag í dag að læra að lifa með þessu.

Ég tel að hópnauðganir séu algengari en við höldum. Umræðan þarf að vera opin eins og hún hefur verið undafarið. Þetta má alls ekki vera feimnismál eins og þetta var hjá mér í mörg ár. Það er langt því frá að vera gott fyrir þolandann. Umræðan er ekki auðveld en hún er nauðsynleg.

Knús til ykkar allra,
Kittý Guðmundsdóttir.

SHARE