Varastu að borða þetta fyrir svefninn

Það eru ansi margir sem eiga við ýmis konar svefnvandamál að stríða. Að eiga erfitt með að sofna á kvöldin er líklega eitt það algengasta. Margar ástæður geta verið fyrir því að við liggjum andvaka, jafnvel tímunum saman, og náum engan veginn að festa svefn. Áhyggjur og stress hafa sín áhrif en það sem við borðum á kvöldin getur líka haft sitt að segja. Hér eru nokkur matvæli sem þú ættir ekki að leggja þér til munns að minnsta kosti þremur tímum fyrir svefn ef þú vilt draga úr líkum á því að vera andvaka.

Dökkt súkkulaði
Það getur verið mjög freistandi að fá sér nokkra bita af dökku súkkulaði til að slá á mestu sætindaþörfina á kvöldin, en súkkulaðið inniheldur koffín og hefur sömu áhrif á svefninn og kaffibolli. Því dekkra sem súkkulaðið er því meira koffín inniheldur það.

Steik
Feitur og próteinríkur matur er ekki sniðugur skömmu fyrir svefninn. Hann er tormeltur og það er ekki gott að fara í rúmið saddur og uppþemdur. Það er ávísun á andvöku og byltur.

Áfengi
Margir fá sér einn drykk fyrir svefninn til að ná sér niður eftir daginn og slaka á fyrir svefninn. Áfengi getur vissulega hjálpað þér að sofna hraðar en á sama tíma getur það haft neikvæð áhrif á svefnmynstrið og dregið úr djúpsvefni, sem líkaminn þarf til að ná almennilegri hvíld.

Kryddaður matur
Að leggjast niður eftir að hafa borðað kryddaðan mat getur framkallað brjóstsviða og svefnlausar nætur. Rannsóknir hafa sýnt fram á að það að borða kryddaðan mat fyrir svefninn dregur ekki bara úr fjölda svefnstunda heldur hækkar það líka líkamshitinn sem gerir það verkum að gæði svefnsins verða minni.

Koffínlaust kaffi
Margir halda að það sé óhætt að fá sér einn koffínlausan kaffibolla á kvöldin án þess að það hafi áhrif á nætursvefninn. En raunin er sú að kaffi sem sagt er koffínlaust inniheldur yfirleitt eitthvert koffín, sem er oft nóg til að trufla svefninn. Sérstaklega hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir koffíni.

Brokkolí og blómkál
Það er fátt hollara en þetta tvennt og um að gera að borða nóg af því. En ekki á kvöldin samt. Grænmeti sem inniheldur tormeltanlegar trefjar, líkt og brokkolí og blómkál, heldur nefnilega meltingarstarfseminni gangandi í ansi langan tíma eftir að það er innbyrt. En það viltu ekki þegar þú ert að reyna að sofna.

SHARE