Vendu þig af slæmum morgunsiðum

Morgunrútínan þín getur haft mikil áhrif á restina af deginum. Margir hafa eflaust vanið sig á fasta siði á morgnana, jafnvel án þess að gera sér grein fyrir því. Sumir þessara siða eru verri en aðrir og geta haft slæm áhrif á daginn þinn. Hér eru dæmi um nokkra slæma siði sem ekki er gott að viðhafa ef þú vilt eiga góðan dag.

 

 

Ekki „snooze-a“
Margir kannast líklega við það að ýta á „snooze“ takkann á vekjaraklukkunni til að þagga niður í henni þegar hún byrjar að hringja frekjulega alltof snemma á morgnana. Það er svo freistandi að sofa fimm mínútur lengur. Og jafnvel aðrar fimm. Og áður en þú veist af er „snoozið“ orðið að hálftíma. En þó þú hafir sofið næstum hálftíma lengur en þú ætlaðir þér þá ertu líklega þreyttari en þú hefðir verið ef þú hefðir farið strax á fætur. „Snooze-ið“ raskar nefnilega svefnmynstrinu þínu. Ef þú freistast til að ýta á „snooze“ takkann getur það verið vísbending um að þú fáir almennt ekki nægan svefn, eða að þú vakir of lengi um helgar sem verður til þess að þú þarft meiri svefn á virkum dögum.

Langbest er að vakna við dagljósalampa, sem byrjar hægt og rólega að lýsa upp herbergið þitt hálftíma áður en þú ferð á fætur. En ef þú átt ekki þannig, reyndu þá að hunskast á fætur þegar klukkan hringir í fyrsta sinn.

 
Ekki skoða símann
Mörg gerumst við eflaust sek um það að kíkja á símann um leið og við vöknum. Tékka á tölvupósti, facebook-skilaboðum og öðru. En þetta getur valdið óþarfa stressi í upphafi dags. Það er mun betra að geyma símann í öðru herbergi á nóttunni og kíkja ekki á hann fyrr en við erum tilbúin að fara út í daginn. Prófaðu að gera þetta í nokkra daga og sjáðu hvort það dregur ekki úr morgunstressinu.

 
Ekki sleppa æfingu
Það getur verið ansi erfitt að koma sér á æfingu eldsnemma á morgnana, en það gæti einmitt verið lykillinn að góðum degi, betri nætursvefni og lægri blóðþrýstingi. Reyndu að skipuleggja æfingar áður en þú mætir í vinnuna tvisvar eða þrisvar í viku, og taktu mætinguna jafn alvarlega og þú værir að fara á mikilvægan fund. Að sleppa æfingu til að sofa lengur getur haft þveröfug áhrif og þú verður þreyttari yfir daginn en þú hefðir orðið ef þú hefðir rifið þig upp og skellt þér á æfingu.

 

 

Ekki fara í of heita sturtu
Eins og það er notalegt að fara í heita sturtu á köldum vetrarmorgnum þá er það ekki endilega það skynsamlegasta sem þú gerir. Heit sturta getur nefnilega verið ertandi fyrir húðina og þurrkað hana upp. Þetta getur valdið kláða yfir daginn. Best er að fara í volga sturtu og nota góða og hlutlausa sápu sem þurrkar ekki húðina. Heit getur vissulega verið góð fyrir blóðflæðið en það er munur á heitri og of heitri sturtu. Ef húðin er rauð eftir sturtu, er vatnið of heitt.

 
Ekki borða kolvetnabombu
Að borða mjög kolvetnaríkan morgunmat getur verið ávísun á þreytu og svengd löngu fyrir hádegismat. Þegar líkaminn hefur melt kolvetnin þá getur blóðsykurinn fallið og þú verður orkulaus. Betra er að borða trefja- og próteinríkan morgunmat, sem tekur líkamann dágóða stund að melta. Gott er að hafa í huga að það er líka óskynamlegt að sleppa morgunmatnum. Þá hefurðu enga orku fyrir hádegi og ert líklegri til að úða í þig mjög hitaeiningaríkufæði eftir hádegi.

 
Ekki sleppa teygjum
Ekki gleyma því að teygja úr þér á morgnana. Teygjurnar gera nefnilega gæfumuninn fyrir liði og vöðva. Á nóttunni eiga vöðvarnir það til að stífna upp, því þeir sofa líkt og við. Ef þú stekkur fram úr rúminu án þess að teygja gætirðu fundið fyrir stífleika og verkjum, sem eiga sér engar aðrar skýringar en að vöðvarnir eru ekki tilbúnir að takast á við þessar hreyfingar. Teygðu vel úr höndum og fótum á meðan þú liggur í rúminu og snúðu úlnliðunum. Þannig kemur blóðinu af stað og teygjanleiki vöðvanna eykst.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE