Við erum öll fólk með jafnan tilverurétt – Notalegheitin gætu munað öllu

Hún Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir, leikkona birti þessar hugleiðingar og tilmæli á Facebook síðu sinni og við fengum leyfi til þess að birta þær hér.

 

Manngæska- almenn tilmæli: 

Kauptu dót á tombólu. Ef ekki, segðu að minnsta kosti gangi þér vel við velviljaða barnið sem er að safna fyrir Rauða krossinn. 

Ef gamli maðurinn í sundi fer að tala um hitastig á drykkjarvatninu, svaraðu honum. Vertu almennileg. Ef konan sem kemur að versla eina lærisneið í kjötborðinu fer í tuttugusta skipti að tala um veðrið við þig á meðan þú ert að afgreiða hana, talaðu um veðrið við hana. 

Það er svo ótrúlega mikið af einmana og félagslega einangruðu fólki til, miklu fleiri en við gerum okkur grein fyrir. Þú gætir verið þessi einasta lifandi vera sem manneskjan á einhver samskipti við í dag. Eða í vikunni. Þú veist það ekki. 

Gefðu af þér. Heilsaðu. Horfðu í augun á fólki. Vertu jákvæð. Brostu. Brostu. Brostu. Þig munar engu um að vera notaleg við annað fólk en notalegheitin gætu munað það öllu. Þú veist það ekki. 

Ef utangarðsmanneskja kemur upp að þér og biður þig um smáaur þarftu ekkert að gefa henni pening frekar en þú vilt. Þú þarft hinsvegar að koma fram við þessa manneskju af virðingu. 

Við erum öll bara fólk, með jafnan tilverurétt á þessari jörð og eigum skilið að það sé komið fram við okkur á þann máta. 

Lífið skuldar þér ekki neitt en þú skuldar sjálfri þér að verða besta útgáfan af eintakinu þér. Hagaðu þér samkvæmt því.

Ást og friður. 

Ólöf út.

SHARE