Við höfum öll rétt á tækifæri, sparnaður á ekki að koma í veg fyrir það

Fyrir 20 árum síðan eignuðumst við hjónin fallegasta barn sem við höfðum nokkru sinni séð. Fullkomin með 10 tær og 10 fingur og grét hraustlega. Fljótlega fór að bera á því að hann hafið lítinn áhuga á því að vera í fanginu á okkur sem við í raun sættum okkur bara við það að hann var ekkert kúrudýr. Næstu mánuði spurðum við lækna að ýmsu sem okkur þótti skrítið með hann, öskur, frekja, fáránleg hljóð, hélt ekki haus og svo framvegis. Læknarnir sögðu hann vera flottann og ekkert væri til að hafa áhyggjur af. Við horfðum bara á flotta strákinn okkar og tókum honum eins og hann var næstu árin án þess að nokkuð væri sagt.

Um 4ra ára aldur kemur sálfræðingur á leikskólann hans og nefnir að hann gæti verið á einhverfurófi þar sem hann samlagaðist ekki öðrum börnum og tók lítið eftir umhverfi sínu. Okkur þótti þetta ekki alveg í lagi því í mínum huga voru þeir sem eru einhverfir að banka hausnum utan í vegg og voru argandi og gargandi. Í framhaldinu var farið í allskyns vinnu með flotta strákinn okkar og að endingu fær hann greininguna ódæmigerð einhverfa.

Við hjónin fengum góðar upplýsingar og lögðumst yfir greinar, fengum aðstoð heim til að sýna hvað við getum gert til að hann einangrist ekki og hvernig best væri að hjálpa honum að aðlagast umhverfinu.

Leikskólinn hélt vel utan um strákinn okkar og grunnskólinn líka. Hann var með stuðning alla skólagönguna þar sem honum var kennt að lesa í aðstæður, hvernig mannleg samskipti eru osfr. Hann var aldrei með vinum og vildi alltaf vera útaf fyrir sig. Við tókum þetta til okkar en lærðum að sætta okkur við hann eins og hann var. Hann átti hund sem hann hugsaði um og talaði við sem gerði mikið fyrir hann.

Framhaldsskóli tók við, hann neitaði að fá stuðning því hann vildi ekki að allir horfðu á hann sem fatlaðan einstakling. Fyrstu tvö árin voru brösugleg en tókust þó. Hann eignaðist vini í skólanum og kom með þá heim. Á 17 ára afmælinu hans bauð hann í fyrsta skipti á ævinni sjálfur í afmælið sitt. Ég var ákveðin í því að hann væri að ná tökum á lífinu og var í skýjunum. Svo kom að sérfögum í skólanum sem við hjónin gátum ekki hjálpað honum með fór allt á hliðina og hann flosnaði upp úr námi. Blessunarlega þá fóru vinirnir ekki með, hann hittir þá stundum nokkrum sinnum í viku.

Hann fékk vinnu og vildi alls ekki að vinnuveitandi vissi að einhverfu hans. Að endingu var honum sagt upp því hann þótti ekki vera „allt í lagi“. Ég útskýrði fyrir vinnuveitandanum hvað væri auk þess sem ég bauðst til að vera með honum til að hann lærði hlutina og honum gat ekki verið meira sama. Sagði þetta ekki vera verndaðan vinnustað. Þess skal getið að við buðumst til að koma og kenna stráknum okkar gegn því að hann fengi tækifæri í 1 mánuð í viðbót.

Á þessum tímapunkti vissum við ekkert hvað við gætum gert. Hugsuðum um það hvort strákurinn okkar gæti aldrei orðið samfélagsþegn sem greiði skatta og gefi af sér. Næsta skref var að kanna hvort hægt væri að fá atvinnu með stuðningi. Til þess að fá hana þurfti hann að fara í öryrkjamat sem við vorum engan vegin sátt við. Við lögðum höfuðið í bleyti og hugsuðum um styrkleika hans og veikleika sem við erum öll með. Töluðum við framkvæmdastjóra fyrirtækis sem annað okkar þekkti til og útskýrðum fyrir honum hvernig strákurinn okkar væri. Í fyrirtækið vantaði ekki mannskap en framkvæmdastjóranum fannst að strákurinn okkar ætti að fá tækifæri til að sanna sig. Okkar var mikið létt og hann byrjaði stuttu seinna. Aðeins yfirmenn fyrirtækisins vissu um greiningu hans og við leiðbeindum um hvernig skyldi kenna honum.

Í dag er strákurinn okkar enn í starfi hjá fyrirtækinu og hefur fengið fastráðningu. Duglegur, stundvís og vinnur mjög vel.

Ástæða þess að við skrifum þessar línur eru sú að allsstaðar í kerfinu er verið að skera niður. Skólinn er skorin við nögl. Ef strákurinn okkar hefði ekki fengið þá aðstoð sem hann fékk í grunnskóla þá væri hann ekki skattgreiðandi og flottur samfélagsþegn. Hann ætti ekki vini og gæti ekki lesið svo eitthvað sé nefnt. Þetta hefur verið mikil vinna með hann en það er æðislegt að uppskera. Við verðum framkvæmdastjóranum ævinlega þakklát því án hans hefði strákurinn okkar sennilega bara farið á örorkubætur.

Samfélagsleg skylda fyrirtækja er mikil og mikilvægt að öllum sé gefið tækifæri. Nýtt starfsfólk þarf góða leiðbeiningu til að ná tökum á starfi. Það geta ekki allir hoppað í djúpu laugina eða öllu heldur þá á ekki að henda ungu fólki í djúpu laugina heldur hjálpa þeim að vera góðir starfsmenn.

Ef við eflum aðstoð í skólum, erum með atvinnu með stuðningi án þess að fólk þurfi örorkumat (greining á að nægja) þá erum við að spara mikinn pening til frambúðar. Strákurinn minn á örugglega eftir að læra meira seinna meir því hann er klár strákur. Einnig vona ég að þessi pistill sýni fólki að einhverfu er hægt að læra að lifa með á vissum stigum líkt og ADHD, fólk sem hefur orðið fyrir einelti, áfalli o.s.frv. Við erum öll ólík og eigum að njóta fjölbreytileikans í lífinu ekki dæma. Það eiga allir að fá tækifæri til að vera þeir sjálfir.

 

SHARE