Vikumatseðill 29. sept – 6. okt

Við þekkjum öll umræðuna um það „hvað á að vera í matinn í kvöld“ og hversu leiðinleg þessi umræða getur verið. Ein aðferð til þess að sporna við því að þurfa að ræða þetta aftur og aftur, er að gera matseðil fyrir alla vikuna sem hægt er að fylgja. Þá sleppur þú við að taka þessa ákvörðun á hverjum degi og kemst líka hagstæðar frá matarinnkaupunum.

Hér er matseðill fyrir þessa viku:

Mánudagur: 

Mánudagar eiga að vera dagar þar sem ekki er of mikill tími lagður í matargerð. Snarl má alveg vera málið og í dag mælum við með grjónagraut og flatkökum með hangikjöti.

Grjónagrautur fyrir 2-3 manneskjur

1 bolli hrísgrjón
1 bolli vatn
1 tsk. salt
1 lítri mjólk
1 bolli rúsínur

Sjóðið hrísgrjónin í um það bil 5 mínútur í vatninu við lágan hita. Þegar sá tími er liðinn bætið það mjólkinni út í smátt og smátt. Passið ykkur að hræra mikið í grautnum og látið sjóða í 30-40 mínútur. Athugið að það er mjög auðvelt að brenna grautinn svo það er ekki sniðugt að „leyfa honum að malla“ lengi í einu.

Sumum finnst ómissandi að hafa rúsínur en þeim má alveg sleppa. Sumum finnst jafnvel gott að setja örlítinn vanillusykur út í grautinn til að fá smá sætt bragð og vanillukeim.
Berið fram með kanilsykri og ekki er verra að hafa smá slátur með líka. Einnig er rosalega gott að setja smá smjörklípu út í grautinn ef maður vill aðeins leyfa sér.

Flatkökur með smjöri og hangikjöti
Skorin lifrarpylsa er góð með
*Sparnaðarráð: hægt að skera afganginn niður og frysta í sneiðum og borða næst þegar þið gerið grjónagraut. Einnig finnst sumum börnum gott að taka með sér lifrarpylsu í nesti í skólann. 

Þriðjudagur:

fiskur1

Ítalskur fiskréttur með tómata og basilblöndu fyrir 4

7-800  g hvítur fiskur
safi úr 1/2 sítrónu
ólífuolía
salt og pipar
1 box kirsuberjatómatar, skornir í tvennt
1 lúka fersk basil, gróft skorin
3 hvítlauksrif, söxuð
rifinn mozzarellaostur

  1. Látið fiskflökin í olíusmurt ofnfast mót. Kreistið sítrónusafa yfir fiskinn. Saltið og piprið. Leggið til hliðar.
  2. Blandið saman í skál tómötum, basil, hvítlauk. Bætið saman við 1 msk af ólífuolíu, saltið og piprið. Geymið í kæli í um klukkustund, ef tími er til, jafnvel lengur.
  3. Látið basilblönduna yfir fiskinn og setjið í 175°C ofn. Eldið í um 15-20 mínútum, takið þá út og stráið osti yfir. Eldið þar til osturinn er bráðnaður. Berið fram strax.

Gulur, rauður, grænn og salt

Miðvikudagur:

Kjúklingavefjur

Fajitas-9Efni (ætlað fyrir 6)

  • 225 gr. rjómaostur
  • 1 dós kjúklingasúpa
  • 1 bolli  salsa (beint úr búðinni ! )
  • 3 bollar kjúklingabringur, skornar í bita
  • 12 tortillur
  • 1 bolli rifinn ostur
  • 1 lítil dós svartar ólífur
  • 1/4 bolli sýrður rjómi

Aðferð 

  1. Hitið ofninn upp í 180˚C
  2. Blandið saman rjómaostinum, súpunni og salsa og látið krauma á lágum hita.
  3. Bætið kjúklingnum út í.
  4. Hitið tortillurnar (maís-flatkökurnar) í míkróofni nokkrar sekúndur til að mýkja þær.
  5. Setjið kjúklingafyllinguna á hverja köku og rúllið upp ( eins og pönnuköku)
  6. Látið vefjurnar á eldfast fat.
  7. Stráið vel af rifnum osti á vefjurnar.
  8. Lokið með álpappír og látið bakast í 30 mín.
  9. Skreytið með ólívum og sýrðum rjóma eftir smekk.

Fimmtudagur:

 graenme

Grænmetisbuff með mangósósu

2 bollar hvítbaunir, soðnar
1/2 bolli haframjöl
1 bolli hýðishrísgrjón, soðin
2 msk hrátt cous cous
1 paprika
2 sellerístilkar
100 g sveppir
3 msk olía
2 msk timian
1 msk rósmarín
sjávarsalt
pipar

Aðferð:

Allt grænmeti saxað niður og steikt í olíu og kryddað. Öllu hrært saman og mótuð buff.
Bakað í 25 mínútur við 180°C

Mangóssósa: 

200 g frosið mangó
1/2 rauð paprika
ca. 1 cm engifer
sjávarsalt
pipar

Aðferð:
Látið mangóið þiðna aðeins og svo er allt maukað í matvinnsluvél
Smakkað til með kryddi.

 

Föstudagur:

pizza

Speltpizza

300 gr spelt
3 tsk lyftiduft
½ tsk salt
1 msk oregano
2 msk ólífuolía
2 ½ dl AB-mjólk eða vatn

Speltið má vera fínt eða blanda af grófu og fínu.Blandið spelti, lyftidufti, salti og kryddi saman og seinast olíunni saman við. Vatnið eða AB-mjólkin kemur síðust.

Hrærið deigið þannig að passlega blautur massi fæst og hnoðið það síðan en samt eins lítið og hægt er því botninn gæti orðið seigur af lyftiduftinu.

Fletið út, setjið á bökunarplötu og setjið sósu og ykkar uppáhaldsálegg á.

Þessi uppskrift nægir í ca. tvær 14″ pizzur

 

Laugardagur:

Kraftmikil Gúllassúpa

1 kg gúllas
300 gr laukur – frekar smátt saxaður
300 gr gulrætur – skornar í bita
50 gr sellerí
2-3 tsk tómatpúrra
1 flaska Passata/2 dósir tómatar og svipað magn af vatni
1 teningur af nautakrafti
500 gr kartöflur
2-3 tsk maldonsalt
1-2 tsk hvítur pipar
1 msk sæt paprika
1 msk sterk paprika
1 msk malað kúmen
1/2 tsk cayennepipar
3 lárviðarlauf

Aðferð:

Laukur, sellerí og gulrætur í pott með smá ólívuolíu og látið malla þar smá stund.
Passa að hræra á meðan svo það brenni ekki.
Kjötið þar næst útí – ásamt kryddunum. Látið brúnast og taka smá lit.
Þar næst tómatpúrran og tómatarnir ( hvort heldur er Passata tómatsósa eða tómatar í dós ).
Svo set ég kartöflurnar útí, teninginn…og leyfi þessu að malla eins lengi og hægt er.
Það má að sjálfsögðu nota meira…eða minna af grænmeti.

Sunnudagur:

Pasta Carbonara

400-500 gr. pasta – t.d. skrúfur eða slaufur
500 gr. beikon
500 ml. matreiðslurjómi
1 rifinn villisveppaostur (eða annar góður ostur eins og piparostur)
1 box af sveppum
4-5 hvítlauksrif
0,5 – 1 kjötkraftsteningur
smá olía

Sjóðið pastað skv. leiðbeiningum á pokanum. Yfirleitt er það gert sirka svona: 3-4 l. af vatni er sett í stóran pott og beðið eftir að það fari að sjóða. Þá er 1-2 tsk. af salti bætt út í og svo pastanu og soðið í sirka 10 mín (mjög misjafnt eftir tegund pasta, en þetta stendur alltaf utan á pokanum). Þegar pastað er soðið má hella vatninu af því og láta það bíða.

Skerið beikonið í litla bita og sveppina í sneiðar. Hvítlaukurinn er hakkaður smátt eða pressaður. Sirka matskeið af olíu er hituð á pönnu eða í potti. Þegar olían er orðin nokkuð heit er hvítlauknum bætt út í og steiktur þangað til hann er mjúkur og örlítið brúnaður.

Næst er beikoninu bætt út í og það steikt þangað til það er allt gegnum steikt. Að lokum eru sveppirnir settir út í og þeir steiktir þangað til þeir eru mjúkir.

Þegar búið er að steikja beikon, sveppi og hvítlauk er rjómanum bætt út í. Þegar rjóminn er kominn út í er komið að ostinum. Ef það er ekki búið að rífa hann þarf að gera það, en svo má bæta honum út í rjómann. Hrærið svo þangða til osturinn er alveg bráðinn. Þegar þetta er búið að malla í svona 5-10 mín. er best að smakka þetta. Beikonið getur nefnilega verið svo mis bragðmikið og það þarf því stundum að bæta við salti eða kjötkrafti. Ef þetta er ekki nógu bragðmikið er best að byrja á að setja hálfan tening af kjötkrafti. Það má líka nota salt, en mér finnst betra að nota kraftinn. Þegar hálfi teningurinn er orðinn uppleystur og búið að hræra aðeins í þessu er best að smakka aðeins aftur. Ef þetta er ennþá ekki nógu bragðmikið má setja hinn helminginn, en farið varlega, því það er ekki gott að setja of mikið.

Að lokum er pastanu bætt út í og þetta látið malla í 2-3 mín. til viðbótar. Best er að láta þetta standa í svona 5 mín eftir að þetta er tilbúið. Við það þykkist sósan og pastað dregur meira í sig bragðefnin.

Pastað er gott eitt og sér, en langbest er að bera það fram með hvítlauksbrauði og fersku salati. Mitt uppáhaldssalat með þessum rétti er með káli, klettasalati, gúrkum, tómötum, rauðlauk og vínberjum.

 

SHARE