Vindgangur – ástæður og hvað er til ráða?

Vindgangur (prump) er mjög algengt umkvörtunarefni. Vindgangur hefur ekkert með sveppi að gera eða loft sem fólk gleypir. Magn lofts sem kemur frá endaþarmi er mjög mismunandi mikið, allt frá 500 ml til 1500 ml á sólarhring (meðaltal 700 ml). Að meðaltali prumpar einstaklingur um 14 sinnum á dag (+/- 6).
Loft frá endaþarmi er samsett að 99% af 5 lofttegundum (nítrat, koltvíoxíð, methan, vetni og súrefnissambandi). Loftið myndast í ristlinum fyrir tilstuðlan baktería við niðurbrot á fæðuleifum og gerjun.

Magn vindgangs fer mikið eftir því hvað fólk borðar og valda sumar fæðutegundir (ávextir, grænmeti, baunir) meiri vindgangi en aðrar vegna þess að hvatar í smáþörmunum ná ekki að melta þær þannig að bakteríurnar í ristlinum hafa meira úr að moða og mynda loft. Lyktin sem fylgir vindganginum er ekki háð því magni lofts sem kemur. Flestar áðurnefndar gastegundir eru lyktalitlar. Það eru ýmsar aðrar gasegundir í vindgangi sem valda ólyktinni og eru þær í mjög litlu magni (indól, skatól, súlfúr sambönd). Þessar gastegundir myndast frekar við niðurbroti á kjöti t.d., en minna við niðurbroti á grænmeti, pasta, baunum og hrísgrjónum. Þannig er vindgangur í kjölfar neyslu á kjöti verra lyktandi en minni eftir neyslu á baunum, svo dæmi sé tekið.

Bakteríuflóran í ristlinum er einnig mismunandi eftir einstaklingum og mynda sumar bakteríur meira loft en aðrar. Eina ráðið er að reyna að laga mataræðið t.d. með aðstoð næringafræðinga. Ekki er mælt með að reyna að eyða bakteríuflórunni í ristlinum með sýklalyfjum þar sem það getur haft ýmsar skaðlegar aukaverkanir í för með sér og er ekki langtíma lausn. Sveppalyf eru einnig gagnslaus. Í sumum tilvikum getur verið um mjólkuróþol að ræða og í ýmsum svaladrykkjum er talsvert magn af frúktósa sykrungi sem sumir melta illa og getur valdið vingangi og niðurgangi.

Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarfærasjúkdómum

untitled

SHARE