Vinkona mín er að halda framhjá manninum sínum

Ég er 35 ára gömul kona og bý í Kópavogi. Ég á æskuvinkonu sem ég þekki betur en alla aðra og við vorum saman í grunnskóla og höfum alla tíð verið óaðskiljanlegar. Hún kynntist manninum sínum um tvítugt og saman eiga þau 2 börn. Þau hafa alltaf verið „hið fullkomna par“ að mínu mati, en fyrir rúmu ári síðan sagði hún mér að hún væri komin með tilfinningar til annars manns sem er í vinnunni hennar.

Fljótlega voru þau farin að sofa saman og þá varð ég svo hissa að ég er ekki enn búin að jafna mig á þessu. Maðurinn hennar er yndislegur og er góður vinur minn líka auk þess sem hann og eiginmaður minn spila mikið golf saman og eru góðir félagar. Ég hef ekki sagt manninum mínum neitt og hef þagað yfir þessu og engum sagt neitt.

Fyrst fannst mér eins og hún skammaðist sín fyrir þetta en svo var eins og sú tilfinning færi bara. Hún fór að segja mér alltaf meira og meira frá þessu og í dag fæ ég að heyra ALLT um þetta eins og hvar hún stundar kynlíf með honum og hvenær og auðvitað líka hvernig hann tekur hana.

Ég skil ekki alveg hvað þau eru að hugsa því maðurinn er líka giftur og þessi vinkona mín  virðist ekki vilja skilja við manninn sinn og maðurinn ekki heldur við sína konu.

Ég varð bara að koma þessu frá mér og þess vegna sendi ég póst hingað. Það kemur alltaf oftar og oftar upp í huga minn að segja manninum hennar frá þessu því mér finnst þetta svo mikil niðurlæging fyrir hann, en mig langar ekki að „missa“ bestu vinkonu mína með því að segja honum sannleikann.

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

SHARE