Vonarstyrkur: Ný stuðningssamtök fyrir fólk með eða sem hefur verið með átröskun

Átraskanir eru gríðarlega alvarlegir geðsjúkdómar sem hafa bæði líkamlegar og andlegar afleiðingar. 1 – 3% Íslendinga eru taldir glíma við átraskanir á borð við lotugræðgi (bulimia nervosa) og lystarstol (anorexia nervosa). Gera má ráð fyrir því að sú tala sé ennþá hærri þar sem þessar tölur ná ekki yfir þá sem greindir eru með lotuofátsröskun (binge-eating disorder) eða falla einhverstaðar á milli. Talað hefur verið um að 13% einstaklinga tilheyri þeim lítið skilgreinda hópi. Átröskun er ekki endilega minna alvarleg þó hún nái ekki þessum greiningarviðmiðum.

Það eru ekki eingöngu ungar konur sem fá átröskun þó tíðnin sé ennþá mest á meðal þeirra. Karlmenn eru á milli 10 og 25% þeirra sem fá átröskun. Þar sem greiningarviðmið virðast ekki greina átröskun karla með sömu nákvæmni og kvenna, má einnig ætla að þessi tala sé hærri. Átröskun getur gripið einstakling á hvaða aldurskeiði sem er. Átraskanir eru með eina hæstu dánartíðni allra geðraskana, því auk þess að geta valdið alvarlegum líkamlegum kvillum, þá er sjálfsvígstíðni einstaklinga með átröskun sérlega há. Þvert á það sem stundum hefur verið haldið fram, þá er hægt að ná fullum bata með viðeigandi meðferð.

Frá árinu 2006 hafa verið starfandi dag- og göngudeildir átraskana við Geðdeild Landspítalans. Átröskunarteymi er starfrækt við Barna- og unglingageðdeild. Jafnframt eru sjálfstætt starfandi meðferðaraðilar sem meðhöndla átraskanir.

Nú eru að fæðast ný samtök sem bera nafnið Vonarstyrkur. Vonarstyrkur eru stuðnings- og notendasamtök fólks sem hefur orðið fyrir áhrifum átröskunar á einhvern hátt, hvort heldur persónulega eða sem aðstandendur. Tilgangurinn með stofnun Vonarstyrks, er að búa til vettvang þar sem fólk getur leitað eftir stuðningi og upplýsingum. Slík uppýsingagjöf er sérstaklega mikilvæg þegar fólk er að taka þessi fyrstu skref, og gera sér grein fyrir eða velta fyrir sér hvort um átröskunarvanda er að ræða. Félaginu er einnig ætlað að stuðla að fræðslu og stuðningi við réttindabaráttu átröskunarsjúklinga og aðstandendur.

Vonarstyrk standa Þorgerður María Halldórsdóttir, Styrkár Hallsson og Guðrún Veiga Guðmundssdóttir sem öll hafa mætt átröskun á einn eða annan hátt svo sem eins og sem aðstandendur eða hafa sjálf barist við sjúkdóminn. Félag fagfólks um átraskanir (FFÁ) á frumkvæði að því að til Vonarstyrks er stofnað, og hafa stutt við samtökin á þessum fyrstu skrefum.

Stofnfundur samtakanna verður haldin þann 10.september næstkomandi kl.20:00, í húsnæði Geðhjálpar Borgartúni 30, 105 Reykjavík. 

 

SHARE