Vörtur – Hvað er til ráða?

Vörtur eru aðallega þrenns konar.  Í fyrsta lagi frauðvörtur sem eru algengastar meðal barna.  Í öðru lagi vörtur á höndum og fótum, líka algengastar meðal barna.  Í þriðja lagi kynfæravörtur, sem eru að verða æ algengari sérstaklega í aldurshónum 16-18 ára.

Human Papilloma Virus (HPV)

Það eru um það bil 60 tegundir af HPV veirum þekktar.  HPV veirur geta bæði orsakað kynfæravörtur og vörtur á höndum og fótum

Frauðvörtur (molluscum contagiosum virus)


Frauðvörtur orsakast af  veirunni molluscum contagiosum virus (MCV).  Frauðvörtur eru litlar bólur (vörtur), oft glansandi og inni í þeim situr hvítur massi.

Vörturnar smitast milli barna,einstaka sinnum hjá fullorðnum, eftir snertingu við sýkta húð.  Ef barn er smitað geta vörturnar haldið áfram að dreifa sér.  Meðgöngutími veirunnar er margar vikur.  Það er misjafnt hversu mikil einkenni börnin fá, en þau geta fengið í kjölfarið bakteríusýkingar, örmyndun eða eksem í húðina.

Ýmsar leiðir eru til meðferðar s.s. pensla þær með vörtueyðandi efni, skafa vörturnar, brenna með laser eða frysta.  Ein besta leiðin til að eyða vörtunum með sem minnstum sársauka og fyrirhöfn er að pensla þær með vörtueyðandi efni.

Sjá einnig: Hvort er meira fitandi, sykur eða fita?

Til að pensla vörturnar er notað efni sem er bólgu og blöðrumyndandi og leiðir þannig til eyðingar vörtunnar.  Efnið veldur eingöngu bólgu í efstu lögum húðarinnar og getur því ekki valdið örum.  Eftir að efnið er borið á þarf að þvo það af aftur.  Venjulega er fyrst miðað við að hafa efnið á í 3-4 klst eða þar til vörturnar hafa bólgnað örlítið upp.  Síðan er farið eftir því hvernig barnið þoldi efnið hvenær það er þvegið af næst þegar penslað er.

Bera skal sýkladrepandi krem á vörtustaði að kvöldi þess dags sem penslað er og 3-4 daga á eftir. Ef mikill roði er áfram í vörtunum má halda áfram í nokkra daga til viðbótar.

Oftast ganga vörturnar til baka á 1-4 árum án meðferðar.

Vörtur á höndum og fótum.

 Vörtur á höndum líkjast litlu blómkáli og eru yfirleitt í kringum neglur og á fingrum. Þær eur flestar af völdum Human papilloma virus (HPV)  Börn eiga erfitt með  að láta vörturnar í friði, þau bíta og kroppa í þær þar til blæðir úr þeim og þá eru þær smitandi.  Veiran smitast við beina snertingu, en getur einnig smitast á gólfum í sundlaugum.  Sum börn fá aldrei vörtur þrátt fyrir að vera útsett fyrir veirunni, á meðan önnur börn fá vörtur.   Liðið geta margir mánuðir frá smiti áður en varta myndast.

Vörtur á fótum myndast yfirleitt þar sem álagið er mest. Þær eru aumar þegar þrýst er á þær og við gang.  Fótvarta er flatt samanþjappað húðsvæði sem er hart út til hliðanna en mýkra í miðjunni. Ef grannt er skoðað sjást oft litlir svartir punktar í vörtunni. Þetta eru ekki, eins og sumir halda, rætur hennar heldur myndast punktarnir við blæðingu.

Meðferðarúrræði við vörtum á höndum og fótum eru að pensla þær með vörtueyðandi efni, skafa vörturnar, brenna með laser eða frysta.   Það getur þurft að endurtaka meðferð nokkrum sinnum.

Vörtur hafa undarlega hegðun, en jafnvel þó ekkert sé að gert þá hverfa þær yfirleitt eftir nokkur ár.  Hjá u.þ.b. 30-50% barna hverfa vörturnar innan 6 mánaða án þess að nokkuð sé gert.

 Sjá einnig: Kynfæravörtur – Algengasti kynsjúkdómurinn

 

Kynfæravörtur

Kynfæravörtur eru af völdum Human Papilloma virue (HPV) eins og flestar handa-og fóta vörtur. Vörturnar flokkast sem kynsjúkdómur sem smitast einungis við snertingu slímhúða við samfarir.  Hundruð einstaklinga leita lækninga vegna kynfæravartna á ári hverju. Áberandi er að tíðni þessarar vörtu fer vaxandi í aldurshópnum 15-18 ára.
Veiran veldur ljósbleikum eða húðlitum vörtum á og við kynfæri og endaþarmsop. Venjulega er yfirborð vartnanna flipótt og þær vaxa í klösum sem orðið geta frekar stórir.  Stundum myndast einungis húðlitar hrufur eða bólgur, og e.t.v. fylgir þeim örlítill kláði, sem eru þá einu einkenni sjúkdómsins.  Ef vörturnar eru í leggöngum eða á leghálsi getur verið erfitt að greina þær.  Frá því að smit á sér stað þar til vörturnar birtast geta liðið allt að 12 mánuðir.  Þess vegna getur verið erfitt að rekja slóðina til rekkjunautanna sem þarf að skoða og meðhöndla.

Fáeinar tegundir HPV hafa verið tengdar aukinni hættu á frumubreytingum og jafnvel krabbameini í leghálsi kvenna.  Af þeirri ástæðu er mikilvægt að taka frumustrok reglulega frá leghálsi þeirra kvenna sem hafa fengið kynfæravörtur.

Ef grunur er um vörtusmit er mikilvægt að láta lækni skera úr um hvort svo sé og fá meðferð við hæfi.  Algengast er að meðferð sé hafin með því að pensla vörturnar með vörtueyðandi efni.  Efnið er mjög sterkt og getur brennt sé það haft of lengi.  Ef meðferð með vörtueyðandi efni dugar ekki þarf að grípa til annarra aðgerða s.s. að brenna eða frysta vörturnar.

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE