„What happens in Vegas”

Ég gerði það. Ók Rassa í pössun, brunaði nær bensínlaus á grænum sendibíl eftir norskum þjóðvegum og lagði bílnum á afskekktum flugvelli. Greip slitna hliðartöskuna sem rúmar varla meira en hárþurrku, varagloss og gallabuxur, gekk inn í flughöfnina og tékkaði mig inn.

Auðvitað var makríllinn tekinn við innritunarhliðið. Vörðurinn hafði þá hrist dósina duglega, grandskoðað glúteinlausa dýrðina og ákvað að lokum að gera makrílinn upptækan. Ég hafði ætlað mér að færa kærri vinkonu makrílinn að gjöf.

Mátt ekki fara með meira en 100 ml af vökva í vélina …

Ég meina, hélt maðurinn að ég væri með vatn í dós? Osturinn slapp. En makríll? Hver gerir makríl upptækan á grundvelli 100 ml reglunnar? Mér finnst norskir flugvallarstarfsmenn stórskrýtnir en það er svo aftur annað mál. Og af hverju hristi maðurinn dósina af svo mikilli ákefð? Með latexhanska, klæddur í einkennisbúning öryggisvarðar? Var ætlun hans að vekja makrílinn til lífs að nýju?

Ég smeygði mér bara í sjoppuna hinu megin við öryggishiðið og keypti nýja dós af makríl. Jú. Þeir selja makríl í fríhafnarsjoppunni. Stakk nýju dósinni ofan í tösku að lokinni öryggisleit og gekk hofmóðug á svip inn í vélina. Með mína 100 ml og skildi þann glúteinlausa eftir í öruggum höndum þess hristióða.

Alveg sko. Taka makrílinn?

Ég hef aldrei lagt það í vana minn að fjalla um ferðalög. Ekki í sjálfu sér. „What happens in Vegas, stays in Vegas” og allt það. En þó atburðarásin sem fylgir mér erlendis sé iðulega öðrum hulin og þó er ég ekki að fremja nein spellvirki hinu megin við hafið, er tilfinningin sem fylgir slíkum ferðalögum þó svo unaðsleg að lengi situr í mér.

Ég sá þannig stæðilega rottu glíma við lok á niðurfalli á ferðum mínum ytra, virti skelfingu lostin fyrir mér flugvél í háloftunum sem flaug hjá glugganum á ógnarhraða og virtist í ljósum logum og ekki má gleyma geðvonda gamalmenninu sem æpti upp yfir sig meðan vinkona mín ók á löglegum hraða eftir fjölfarinni götu; ÉG ER GLORHUNGRAÐUR æpti maðurinn KOMDU ÞÊR ÛR SPORUNUM.

Á spænsku. Og steytti hnefanum mót okkur báðum. Spánverjar eru dásamleg þjóð.

Hló út í spænskan vindinn, komst á örséns í erlendri borg (já, það er hægt) og setti á mig smá gloss. Tók andköf yfir gangstéttarhellunum, dáðist að suði engisprettana og dansaði í huganum. Lærðist hvernig listmálari grunnar striga og spjallaði andaktug við sólgulan kanarífugl.

Ég er þeirrar skoðunar að sjálfið viti ávallt hvert sálin vill stefna. Að daglegt amstur okkar, puð og smjatt hversdagsins dragi oft úr okkur allan mátt. Mér þykir sem öllum hljóti að vera hollt að ástunda örferðalög öðru hverju, sér í lagi einhleypar konur.

Ég trúi í einlægni á mátt ástarinnar, skyndiákvarðanir, millilendingar, ferðalög til ókunnra landa og dagdrauma sem eiga rætur sínar að rekja til barnæsku. Mig langar til Helsinki næst og gott ef ég stoppa ekki við í Aþenu um leið. Hef ferðina á föstudagskvöldi, leigi mér hótelherbergi í nánd við flugvöllinn og gerkanna möguleika á finnsku saunabaði í rökkrinu – áður en ég legg aftur augun í nokkra tíma og flögra svo upp í aðra flugvél sem tekur mig enn lengra.

Stóla á gríska jazztónleika daginn eftir, smelli af einni “selfie” við Akrópólishæð, kaupi mér latneska orðabók og ferðast svo heim eftir 48 tíma ævintýri; með galtóma vasa, höfuð fullt af minningum sem ég geymi alfarið fyrir sjálfa mig og rólyndislegt bros á vör við heimkomuna eins og í þetta skiptið.

Það var annar bragur á norsku stúlkunni sem tók á móti mér við heimkomuhliðið “Nothing to Declare” en á makrílóða öryggisverðinum við brottför 30 tímum eftir að ég festi kaup á nýrri dós hinu megin við öryggislínuna og gekk hofmóðug á svip upp í vél, vandlega falin undir dökkum sólgleraugunum.

Ertu ekki að gleyma neinu ,fröken … hvar er allur farangurinn þinn?

Ég staldraði við stundarkorn, íhugaði að segja stúlkunni í öryggisbúningnum að ég hefði verið svipt makrílnum, féll frá þeirri hugmynd fljótlega og svaraði kímin á svip:

Alls ekki …. ég ferðast með handtösku …. ég skrapp bara í sólarhring, sjáðu til.

Augu okkar læstust eitt andartak, bros færðist yfir andlit okkar beggja og fleiri orð voru óþörf. Það ala flestar fullorðnar konur þann leynda draum að laumast út í heim í örfáa tíma. Aleinar, með handtösku á öxlinni og gloss á vör.

Bara ef við stelpurnar létum oftar  vaða.

SHARE