Var komin á endastöð – 50 kg farin eftir að Sólveig breytti um lífstíl

Sólveig Sigurðardóttir var orðin 50 kílóum of þung og segir að lífið hafi bara allt verið orðið erfitt. „Ég var bara alveg komin á endastöð og var orðin skíthrædd við aukaverkun offitu, til dæmis það að eyðileggja líkamann og fá sykursýki. En sem betur fer var ég ekki komin með þssa fylgikvilla, en stutt í þetta allt,“ segir Sólveig í spjalli við Hún.is.

1234240_234010226746579_2112602569_n

Vildi ekki vera „feita stelpan“

Sólveig segir að hún hafi ekki viljað vera „feita stelpan sem langar í falleg föt sem passa“ og að beltin í flugvélunum hafi verið hætt að passa. Hún var komin með nóg af því að vera alltaf búin á því. „Mig langaði að vera mamma í formi og einn daginn fékk ég nóg. Ég sá svo viðtal við konu í Heilsuborg rétt eftir áramótin 2011-2012, í Íslandi í dag sem hrinti mér af stað,“ segir Sólveig.

Það var ekki þar með sagt að hún hafi farið daginn eftir og skráð sig. „Það tók nú svolítinn tíma að komast alla leið í afgreiðsluna og hrinda mér í eitthvað sem ég kunni lítið á. Ég er með MS sjúkdóminn og var hrædd um að ofgera mér, en á sama tíma var ég líka hrædd um að verða „hjólastólamatur“ ef ég gerði ekkert í mínum málum.“

Vaknaði til lífsins

Sólveig skráði sig á eins árs námskeið hjá Heilsuborg, sem heitir Heilsulausnir og það var skyldumæting þrisvar sinnum í viku. Innifalið í námskeiðinu voru fræðslufundir, markþjálfun, læknisheimsóknir, hjúkrunarfræðingur og sjúkraþjálfun. „Þetta var allur pakkinn“ segir Sólveig. „Það var rosalega mikill stuðningur og ég hreinlega vaknaði til lífsins og fór fljótlega að æfa 4-5 sinnum í viku. Breytingarnar voru ótrúlega fljótar að koma,“ segir Sólveig en í dag hefur hún misst 38 kílógrömm en frá því hún var upp á sitt þyngsta hefur hún lést um 50 kílógrömm.

Sólveig segir að munurinn frá því áður sé ólýsanlegur! Hún æfir núna 5-6 sinnum í viku og er komin í gott form þó svo hún stefni að því að missa um 12-14 kílógömm í viðbót. „Þetta er allt annað líf, bæði líkamlega og andlega. Hugurinn ber mann sko meira en hálfa leið og maður þarf að ná taki á hugsunu. Snúa þeim neikvæðu frá og sjá þetta jákvæða. Líkami minn er ekki fullkominn, svo langt frá því, en ég hugsa svo vel um hann núna og fæ góða svörun við því með betri líðan.“ Sólveig segir það skipta miklu máli að vera ekki alltaf að brjóta sig niður, en hún hafi einmitt verið með meistaragráðu í að rífa sig niður. Hún segir  það líka alveg ótrúlegt hvað líkaminn getur ef honum er gefinn séns. „Ég finn fyrir mikilli breytingu á framkomu fólks í minn garð, fólk er almennilegra við konuna sem er ekki í mikilli yfirvigt, það er eins sorglegt og það er.“

1233590_235188573295411_528666900_n

Venjulegur dagur í lífi Sólveigar

Það er auðheyrt að Sólveig er ánægð með lífið og því verðum við að spyrja hana hvernig venjulegur dagur sé í lífi Sólveigar. „Ég vakna með börnunum í skólann og fer síðan ég í ræktina. Ég er nýbyrjuð í hlutastarfi og það er alveg frábært en ég ræð mínum tíma mikið sjálf. En ég eyði talsverðum tíma við að elda og geri minn mat allan frá grunni. Hef algjörlega breytt um mataræði og matarvenjur. Núna er bara hreinn matur í boði, allur óhollur skyndibiti burt. Ég finn hvað MS-ið er allt annað á þessu mataræði. Ég er nýfarin að skokka aðeins, labba mikið og hreyfi mig utandyra þegar að veður leyfir. Ég á Labrador hund sem veit ekkert skemmtilegra en að fara út og leika og hann var líka einn af þeim sem kom mér af stað. Matarlega séð borða ég alltaf góðan morgunmat á morgnana yfirleitt múslí, egg, sveskjur, kiwi eða eitthvað hollt og gott, svo er kaffibollinn minn sem ég fæ á morgnana æði“

Millibitinn hjá Sólveigu eftir ræktina er yfirleitt ávöxtur eða harðfiskur síðan fær hún sér góðan hádegisverð en á Facebook síðunni Lífstíll Sólveigar er hægt að sjá hádegisverðaralbúmið hennar, en það er stútfullt af hugmyndum.  Síðan fær hún sér góðan millibita um miðjan dag, þegar að skutlið á börnunum byrjar á íþróttaæfingarnar: „Ég borða alltaf góðan kvöldverð og reyni eftir fremsta megni að borða ekki eftir kvöldmat. En ef allt er í hershöndum og mig vantar „sykur“ þá fæ ég mér bara ávexti. Ég baka yfirleitt allt sjálf, brauð, kökur, hrökkbrauð og bara allt sem flokkast sem brauðmeti en nota ekki hvítt hveiti né sykur. Ég held mig á léttum nótum og borða mikið af hrákökum.“

Hvað er til ráða?

Eflaust eru margir í sömu sporum og Sólveig var í þegar hún byrjaði að breyta lífi sínu og Sólveig er með ráðleggingar fyrir þá aðila. „Ekki gleypa heiminn á einum degi og hættið að dæma ykkur sjálf. Ekki einblína endalaust á vigtina og litlar breytingar eru oft stærstu breytingarnar. Finnið ykkur markmið hvað þið viljið fá út úr lífinu og hversu heitt þráirðu það! Breyttu mataræðinu og matarvenjum. Gerðu þetta fyrir þig og engan annan, annars ertu ekki trú/r sjálfri/sjálfum þér.  Finndu leið sem virkar fyrir þig. Ég mæli með Heilsuborg því það virkaði fyrir mig en svo eru kannski einhverjir aðrir sem verða finna sitt,“ segir þessi nýja kona að lokum. 

SHARE