3 mánaða en hefur farið í tvær aðgerðir vegna hjartagalla

Sandra Valsdóttir og Garðar Magnússon voru að fara að eignast sitt þriðja barn. Óléttan kom þeim á óvart en engu að síður voru þau að sjálfsögðu mjög ánægð með að eignast eitt barn í viðbót, en hin börnin eru 5 og 8 ára gömul.

Hjartagallinn kom í ljós í sónar

Það var ekki fyrr en í 20 vikna sónarnum í Keflavík, þar sem fjölskyldan býr, sem höggið kom. Stærsta „áhyggjuefni“ Söndru fram að þessu hafði verið að barnið yrði strákur en þá fengi Garðar einn að ráða nafninu á barninu, en það var fljótt að breytast. Það kom í ljós að eitthvað var að barninu. „Ljósmóðirin skoðaði mig og sagðist aldrei hafa séð svona áður. Svo vorum við mætt á Barnaspítala Hringsins 2 tímum seinna í skoðun hjá barnahjartalækni sem skoðaði okkur betur og þá kom hjartagallinn mjög skýrt í ljós,“ segir Sandra í viðtali hjá Hún.is.

Litla ófædda stúlkan var með nokkra hjartagalla en hún var í raun bara með vinstra hjartahólf en hægra hjartahólfið var bara einfaldlega ekki til staðar og þar af leiðandi var engin tenging á milli lungnablóðrásarinnar og hjartans. Einnig var ósæðin of þröng á kafla.

„Það fór bara allt á milljón. Óléttan sjálf var mjög óvænt og óplönuð, við bæði í vinnu og með tvö stálpuð börn. Fóstureyðing er möguleiki sem var til staðar og ég ætla ekkert að neita því að hafa ekki íhugað það. Maður fer rosalega mikið að spá í hvort maður ráði við þetta og hvaða áhrif þetta hefur á alla aðra, en svo ákváðum við bara að líta blákalt á tölurnar varðandi lífslíkur og gæði osfrv og ákváðum að við værum tilbúin í verkefnið, og sjáum alls ekki eftir þvi þó þetta sé búið að vera mjög erfitt. En hverrar mínútu og hvers társins virði. Svo búum við við svo gott heilbrigðiskerfi að við hittum t.d. sálfræðing og félagsráðgjafa reglulega í gegnum þetta allt, og það er stutt mjög vel við bakið á manni.“

Fengu að knúsa hana í smá stund

Sandra fór í áhættumeðgöngu á Landspítalanum og þau hittu hjartalækninn reglulega. Fæðingin var svo fyrirfram ákveðin og hún var gangsett 26. nóvember en Bryndís litla fékk að fæðast eðlilega. „Ég sá mest eftir því á tímabili að geta ekki átt heima, en ég átti strákinn okkar heima og það var planið á þessari meðgöngu líka.

Nýfædd, 26. nóvember og komin á Vökudeild
Nýfædd, 26. nóvember og komin á Vökudeild

En vatnsfæðing var ekki einu sinni leyfileg. Það voru ljósmæður viðstaddar og læknar og vökudeildin á „standby“ og eftir fæðinguna, sem var mjög snögg, fengum við að knúsa Bryndísi í smá stund og svo fór hún beina leið upp á vökudeild,“ segir Sandra um fæðinguna en Bryndís litla mátti ekki fara á brjóst því hún þurfti að fasta þangað til þau komu til Svíþjóðar og fékk því bara næringu í æð.

 

Mjög áhættusöm aðgerð

Sandra og Garðar fóru út til Svíþjóðar þann 28. nóvember og fyrsta aðgerðin af þremur var framkvæmd 29.nóvember. Í þessum þremur aðgerðum á að breyta blóðrásinni í kringum hjartað. Fyrsta aðgerðin sem var gerð á henni segir Sandra að hafi gengið lygilega vel. „Þetta er aðgerð sem læknarnir tala um sem mjög áhættusama aðgerð en hún tók allan daginn. Læknarnir gátu til að mynda lokað brjóstkassanum strax, en við höfðum verið vöruð við því að brjóstkassinn þyrfti yfirleitt að vera opinn í einhvern tíma eftir svona aðgerð vegna bólgu og vökva og því væri plasthlíf yfir svo við sæum ekki beint ofan í. En litla hetjan kom öllum á óvart og það var hægt að loka brjóstkassanum strax. Með þessu græddum við alveg nokkra daga. Bryndís Hulda var svo tæpa viku á gjörgæslunni þar til hún var flutt niður á avd.67 sem er hjartadeildin. Viku seinna fengum við svo að fara “heim” á barnaspítalann, langt á undan áætlun,“ segir Sandra.

image (3)
Komin úr aðgerðinni
Íbúðin seld á uppboði

Meðan á þessu öllu stóð voru eldri börnin á Þórshöfn hjá móðurömmu sinni og fengu að ganga í skólann þar á meðan.

image (5)
Bryndís heima um jólin með systkinum sínum, Dagnýju og Rökkva

Sandra, Garðar og Bryndís sluppu heim rétt fyrir jólin en um leið og hátíðunum lauk tóku við flutningar: „Íbúðin sem við vorum að leigja var seld á uppboði viku áður en við fórum út, þannig héldum jólin  og áramót heima, innan um kassa, og svo var strax flutt,“ segir Sandra. „Flutningadagurinn endaði ekki betur en svo að Bryndís fékk hjartsláttatruflanir og féll allsvakalega í mettun svo að við þurftum að fara í flýti með sjúkrabíl til Reykjavíkur og við tók viku innlögn á Barnaspítalanum. Síðan þá hefur þetta bara gengið svoleiðis, vika heima og vika á Barnaspítalanum, við mæðgur erum í heildina búnar að ná þremur vikum heima síðan við fluttum.“

Fékk kvef á leið til Svíþjóðar

Bryndís hefur verið í eftirliti hjá hjartalæknum vikulega og átti að fara í aðra aðgerð í apríl eða þar um kring. En fyrir nokkrum vikum síðan fór hún að sveiflast í mettun og þá kom í ljós gúlpur á lungnaæð og því fóru þau mjög stuttu seinna til Svíðþjóðar í aðgerð. „Bryndís fékk kvef á leiðinni út þannig að hún var ekki tekin í aðgerð strax, samt versnaði henni og versnaði, var litlaus og grá og datt úr kontakti nokkrum sinnum. Læknarnir voru svo fastir á því að láta kvefið lagast fyrir aðgerð, þrátt fyrir að allar blóðprufur og sýni væru eðlileg, að þeir litu framhjá hjartabilunareinkennunum sem hún var með,“ segir Sandra.

image (1)
Með hjartaköttinn sinn – Hjartabörnin í Lundi fá hjartakött, heklaðan af sjálfboðaliðum

„Svo kom frábær, íslenskur læknir til okkar, sem dreif hana upp á gjörgæslu þar sem hún fékk blóðgjöf og fór svo í aðgerð strax daginn eftir. Þá var gúlpurinn orðinn á stærð við golfkúlu og lokaði lungnaæðinni svo hægra lungað var óstarfhæft. Þeir ákváðu svo þegar þeir höfðu fjrlægt gúlpinn að gera annars stigs aðgerðina á hjartagallanum þrátt fyrir að hún væri of ung.“

Ættu að geta gert flesta venjulega hluti

Þegar ég spyr Söndru hvað taki við núna segir hún að nú þurfi þau bara að bíða. Næsta aðgerð sem Bryndís þarf að fara í er eftir 1- 2 ár og litla stúlkan er stöðugri núna en áður en hún fór í seinni aðgerðina. Hún varð mjög auðveldlega blá og hvít í framan við smá áreynslu en það gerist ekki lengur. „Þegar hún verður búin að jafna sig núna þá ættum við að geta gert flesta venjulega hluti. Við vorum búin að vera í hálfgerðri einangrun eftir fyrstu aðgerðina, bæði því hún var extra viðkvæm og svo flensutímabilið í hámarki,“ segir Sandra.

Að lokum vilja Sandra og Garðar koma áleiðis þökkum til allra sem hafa aðstoðað þau og staðið við bakið á þeim. Sérstakar þakkir til Brunavarna Suðurnesja en þeir létu t.d. allan ágóðann af 2013 dagatalinu sínu renna til Bryndísar, en BS verða 100 ára á þessu ári.

Stofnuð var Facebook-síða fyrir Bryndísi litlu en síðan er kölluð Hjartadrottningin og hana er að finna hér.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here