„Á föstudagskvöldið tókuð þið ástina í lífi mínu“

Hélène Muyal-Leiris​ (35) var ein þeirra 89 sem var skotin til bana í Bataclan tónleikahöllinni á föstudagskvöldið. Maðurinn hennar, Antoine Leiris, skrifaði tilfinningaþrunginn pistil á Facebooksíðu sína á mánudaginn, sem ætlaður var ISIS.

Titillinn var „Þið fáið ekki mitt hatur.“

„Á föstudagskvöldið tókuð þið líf einstakrar manneskju — ástarinnar í lífi mínu, móður sonar míns — en þið fáið mig ekki til að hata ykkur. Ég veit ekki hverjir þið eruð og mig langar ekki að vita það, þið eruð dauðar sálir. Svo nei ég ætla ekki að gefa ykkur mitt hatur sem gjöf. Þið eruð að biðja um það, en ef við bregðumst við ykkar hatri með reiði, erum við orðin fórnarlömb sömu fáfræði og þá sem gerði ykkur eins og þið eruð. Þið viljið að ég sé hræddur, að ég treysti ekki samlöndum mínu og fórni mínu frelsi fyrir öryggi. Þið hafið tapað.“

Antoine heldur áfram og segir frá því að hann hafi fengið að sjá konu sína þá um morguninn. „Hún var jafnfalleg og þegar hún fór að heiman á föstudagskvöldið, jafnfalleg og þegar ég varð ástfanginn af henni fyrir 12 árum síðan.“

„Auðvitað er ég gjörsamlega niðurbrotinn af sorg, ég skal gefa ykkur lítinn sigur núna, en sársaukinn varir ekki að eilífu. Ég veit að hún verður hjá okkur alla daga í anda og við hittumst aftur í paradís þar sem ástin ríkir og þið hafið engan aðgang þar inn.“

Hann klárar bréfið með því að segja að þó hann sé orðinn einn með 17 mánaða gamlan son sinn þá séu þeir sterkari en allir heimsins herir. Hann segist ekki hafa meiri tíma í þetta bréf því drengurinn sé að vakna og þeir verði uppteknir við að lifa hamingjuríku, haturslausu lífi sínu.

„Hann mun borða matinn sinn eins og vanalega, við leikum eins og vanalega og alla sína ævi mun þessi litli drengur ögra ykkur með hamingju sinni og frelsi, því nei þið fáið ekki hans hatur heldur.“ 

SHARE