Að léttast á heilbrigðan hátt

Hollasta leiðin til að léttast eru hvorki öfgafullir megrunarkúrar né skyndileg íþróttaþjálfun. Líkaminn hefur best af hægum breytingum – bæði hvað varðar mataræði og hreyfingu. Eftir áralangt hreyfingarleysi er óráðlegt að æða út og hlaupa fimm kílómetra. Það tekur tíma að byggja upp þol. Ef þú ert vanur að troða þig út af mat, mun líkami þinn mótmæla ef þú ferð skyndilega að svelta þig. Farðu því hægt af stað.

  • Aukin hreyfing – það er líka gagn af því litla. Jafnvel stuttir göngutúrar eða önnur hófleg hreyfing kemur að gagni ef um er að ræða reglulega ástundun. Ekki þarf að ganga nema 2-3 kílómetrum meira á dag en vanalega, til að léttast um heilt kíló á mánuði, án þess að breyta nokkru öðru.

Þeim sem ekki líkar að hlaupa eða svitna í heilsuræktarstöð bjóðast fjölmargir aðrir kostir

  • Taka oftar nesti í vinnuna og fara í göngutúr til að borða það. Hægt er að ganga niður með sjó, á opnu svæði eða á götunni.
  • Nota stiga í stað þess að taka lyftu. Hvert þrep er vinur þinn.
  • Ef tekinn er strætó, farið út einni stöð fyrr en vanalega og gangið síðasta spölinn. Eða leggja bílnum í stæði aðeins lengra frá innganginum.
  • Standið upp þegar koma auglýsingar í sjónvarpinu. Farið út og fáið ykkur frískt loft í stað þess að bara sitja.
  • Að fá sér hund, eykur hreyfingu því hann þarf að viðra.

Ef hitaeiningunum er fækkað næst einnig góður árangur. Borðaðu minna og hollara. Þá er mjög mikilvægt að lifa ekki eingöngu á vatni og brauði, heldur gæta þess að halda fituneyslu í skefjum og borða nóg af grófu brauði, ávöxtum og grænmeti. Ef þú borðar aðeins 3-500 kalóríum minna á dag, munt þú léttast um hálft til heilt kíló á viku. Fáðu þér vatnstglas í staðinn fyrir ávaxtasafa. Fáðu þér einni brauðsneið minna en venjulega. Látið duga einn skammt á diskinn á kvöldin. Skerið sælgætisneyslu niður um helming. Þetta safnast saman og þú verður heilsubetri og hraustari.

Sjá einnig: 5 leiðir til að koma meiri hreyfingu inn í daginn

Forðist franskar kartöflur, feitar sósur, að borða milli mála. Ef slíkt er skorið niður um helming þar eruð þið á góðri leið. Látið smávegis eftir ykkur, en látið það svo duga. Þið munið uppgötva að þið njótið þess tvöfalt.

Þegar ákvörðunin hefur verið tekin um að hefja átak, skaltu vigta þig að morgni eftir ferð á snyrtinguna, og fyrir morgunverð. Skráið þyngdina í litla bók. Vigtaðu þig síðan framvegis reglulega til dæmis vikulega, svo að þú getir fylgst með framförum þínum.

  • Gangið 2-3 kílómetra á dag.
  • Minnkið matarskammtinn
  • Skerið niður óhollustuna um helming

Það er ekki víst að árangur sjáist fyrr en eftir eina eða tvær vikur, en það kemur að því. Hægt og bítandi. Eftir fyrsta mánuðinn er hægt  bæði að sjá og mæla árangurinn. Nú er bara að halda áfram. Verðlaunaðu sjálfan þig eftir hver 500 grömm, sem þú losar þig við: Bíóferð, sérlega falleg gönguleið, ávaxtaveisla eða nýr geisladiskur til að fagna framförum þínum. Mundu að veita öðrum hlutdeild í þessum gleðitíðindum. Segðu þeim frá þyngdartapi þínu. Stuðningur þeirra er mikilvægur. Gerðu þér ljóst að ef þér er full alvara með að ráða að niðurlögum offitunnar, er ekki um það að ræða að troða sig út með mat, snakki og sætindum. Ekki er þar með sagt að þú þurfir að lifa meinlætalífi – það væri hreint kvalræði. Listin er að njóta í minni skömmtum. Í hvert einasta sinn sem þú hreyfir þig meira en þú ert vanur, brennir þú kaloríum og þar með fitu. Vertu ekki óþolinmóður eftir árangrinum. Minntu sjálfan þig á að hann kemur. Hægt en örugglega. Það er ekki hægt að stytta sér leið við að megrast á heilbrigðan og skynsamlegan hátt.

Sjá einnig: Hreyfing eftir barnsburð

Rannsóknir sýna að konur, sem léttast um þó ekki sé nema 5-10 kíló af umframþyngd eru í helmingi minni hættu á að fá sykursýki. Og karlar minnka verulega hættuna á hjartasjúkdómum. Það virðist ef til vill langsótt að hafa áhygjur af framtíðarveikindum. En tíminn líður. Við eldumst öll á hverjum degi. Fyrr eða síðar kemur að skuldadögum fyrir lifnaðarhætti okkar, líkaminn segir til sín. Ef við höfum hemil á þyngdinni eru meiri líkindi á að eldast án þess að sjúkdómar íþyngi okkur um of. Það er eðlilegt að þyngjast eftir því sem árin líða. Örfá kíló í áranna rás gera ekkert illt. En ef þú bætir á þig 10 kílóum umfram það, sem þú varst 18 ára gamall, er heilsan í húfi. Rannsókn nokkur sýndi fram á að konur, sem höfðu þyngst um meira en 10 kíló frá 18 ára aldri sjöfölduðu hættuna á að deyja úr hjartabilun og voru í tvöfaldri hættu að deyja úr krabbameini.

Ef sjálfsagi er af skornum skammti eða offitan er orðin verulega alvarlegt vandamál, eru til úrræði sem geta komið að gagni. Fáðu aðstoð ef þú ert í vafa um að þú getir gert þetta ein/n.

SHARE