Æfingarspjöld fyrir eldri borgara

Þær stöllurnar, Anna Björg og Gerður eru með flott og verðugt málefni inni á Karolinafund sem vert er að kynna sér. Þetta verkefni er einföld æfingarspjöld fyrir eldri borgara sem auka styrk, þol, liðleika og jafnvægi. Æfingarnar eru framkvæmdar með eigin líkamsþyngd og án útbúnaðs. Hreyfispjöldin eru í hentugri stærð og ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af hreyfingu þar sem á spjöldunum eru myndir og fullnægjandi útskýringar.

„Við erum tvær í teymi og höfum báðar mikinn áhuga á hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl. Báðar erum við miklar íþróttakonur, Anna Björg hefur stundað knattspyrnu nánast allt sitt líf og Gerður kemur úr fimleikum og júdó. Leiðin lá því beinast við hjá okkur báðum að mennta okkur í íþróttafræðum erum við báðar með Bs. gráðu og Med. í þeim fræðum,“ segir inni á síðunni þeirra.

Þær fengu báðar mikinn áhuga á hreyfingu eldri borgara, í náminu og komust að því að lítið er til af aðgengilegu efni fyrir þennan hóp í samfélaginu.

„Því teljum við þörfina mikla og nauðsynlegt að koma þessu verkefni á fót til að styðja þau og hvetja til hreyfingar. Öll eldumst við og einn óumflýjanlegur þáttur öldrunar er að öll líkamsstarfsemi okkar skerðist, sem hægt er að koma í veg fyrir með reglubundinni hreyfingu.“

Rannsóknir hafa sýnt það að með því að hreyfa sig má draga verulega úr heilbrigðiskostnaði í landinu. Hreyfing stuðlar m.a. að lækkun blóðþrýstings, styrkur eykst, aukin liðleiki og jafnvægi sem hefur í för með sér að aldraðir geta lifað sjálfstæðara lífi mun lengur en ella.

Spjöldin verða í hentugri stærð og byggð upp til að efla þol, auka styrk, bæta liðleika og stuðla að betra jafnvægi. Hvert spjald tilgreinir ítarlega fyrir hvaða líkamspart sú æfing eigi við, s.s. háls, herðar, kvið eða læri. Einstaklingar geta þannig auðveldlega valið æfingu fyrir þann líkamspart sem þeir telja þörf á að þjálfa hverju sinni og til þess að koma betra skipulagi á sýnar æfingar. Spjöldin nýtast einnig við að efla hugmyndaflug og hvetja til æfinga.

Einstaklingur þarf eingöngu að eiga eitt box af æfingaspjöldum og getur þá hafist handa við að hreyfa sig á sínum hraða, sínum tíma og með sinni ákefð. Hann dregur sér spjald eða velur það spjald sem hentar honum og getur gert þá æfingu nokkrum sinnum yfir daginn eða jafnvel dregið sér fleiri spjöld yfir daginn. Spjöldin þarfnast engan útbúnað og auðvelt er að ferðast með þau. Það geta allir nýtt sér hreyfispjöldin jafnt ungir sem aldnir.

„Við höfum lagt mikla vinnu í að búa til þessi spjöld og langar okkur svo virkilega að þetta verkefni verði af veruleika. Við biðlum til ykkar að styrkja þetta verkefni svo við getum lagt lokahönd á það og stuðlað að heilsueflingu eldri borgara.“

a86fadb7dcc5b014703ae85f0e294803

 

Anna Björg og Gerður

SHARE