Allar konur eiga sögur um það hvernig þær eignuðust börnin sín. Misskemmtilegar þó en alltaf gaman að heyra þær. Ég á tvö börn og ég á skemmtilega sögu með þeim báðum en fyrri sagan er aðeins betri en sú seinni.

Ég var alveg að verða 19 ára þegar ég eignaðist dóttur mína. Meðgangan gekk ekkert sérstaklega vel og lengi vel voru læknarnir og hjúkrunarfræðingarnir alveg vissir um að hún myndi vera fyrirburi, þannig að ég var alltaf tilbúin.

Svo rennur upp dagurinn og ekkert gerist. Og fleiri dagar líða og það var alveg sama hvað var reynt, borða sterkan mat, „hlaupa“ upp og niður stigann og ýmislegt fleira. Ekkert gerðist. Ég ólst upp í sveit og pabbi minn kom til að vera til staðar þegar að hún myndi fæðast en ekkert gerðist þannig að hann fór aftur heim, enda búinn að bíða með mér í 9 daga.

Daginn eftir að hann fór gerðist allt. Maðurinn minn kom heim um ellefu um kvöldið og við fórum að sofa um miðnætti. Klukkan eitt vaknaði ég með verki, vakti kallinn og sagði honum frá því og þessi elska sagði að það væri örugglega ekkert í gangi og að ég ætti að fara aftur að sofa. Þrátt fyrir að vera komin 9 daga framyfir. Ég fór að sofa aftur.

Klukkutíma seinna vaknaði ég aftur og enn með verki. Vakti hann og hann sagði mér að hringja á sjúkrahúsið. Ég gerði það og lýsti þessu öllu og hjúkrunarfræðingurinn sagði mér að hvíla mig og koma morguninn eftir. Þá fékk ég nóg, fór inn í herbergi, vakti manninn og sagði að hjúkrunarfræðingurinn hefði sagt mér að koma núna.

Loksins kom hann sér á fætur og kom með mér á spítalann. Þegar þangað var komið var mér sagt að öll móttökuherbergi væru full en ég gæti komið inn og þær gætu þau skoðað mig. Þetta var rétt fyrir 3 um nóttina. Ég fór inn, uppá rúmið og þær skoðuðu mig og viti menn, þar sást höfuðið á barninu.

Ég fékk hláturgas en afleiðingarnar voru þær að ég ældi allri pizzunni sem ég hafði borðað um kvöldið yfir allt og pabbinn fékk þá nóg og fór fram til að ná áttum. Sem betur fer tók það ekkert svo langan tíma vegna þess að nokkrum mínútum seinna var hún mætt í heiminn. Hálftíma eftir að ég mætti uppá spítala. Þetta er fæðingarsagan mín.

 

Hanna Björg

 

Lesendur athugið: Við viljum endilega fá ykkar sögur og erum komnar með nokkuð gott safn af fæðingarsögum hér á vefinn. Ef þið viljið deila ykkar sögu sendið hana þá á ritstjorn@hun.is

SHARE