Af hverju er ég svona?

Ég hef stundum velt því fyrir mér af hverju ég föndra, og ég verð eiginlega að segja að ég veit það ekki. Ég veit bara að ég verð að föndra, þetta er mín slökun, mín sköpunarárátta. Það hefur alveg komið fyrir að ég hef verið komin upp í rúm til að fara að sofa, fengið hugmynd um bútasaumsverkefni og átt virkilega erfitt með að fara ekki og byrja að skera niður efni í það. Ætli þetta sé ekki eins og með listamennina, getur þú ekki séð fyrir þér einhvern lagahöfund fá hugmynd að lagi við að tannbursta sig og hreinlega ekki getað farið í rúmið  fyrr en lagið er tilbúið? Þetta er fólkið sem gæti aldrei hætt því sem þau gera, ekki frekar en ég.

Ég er alltaf að pæla í nýjum verkefnum, hvernig get ég notað þetta eða hitt til að búa til þetta eða hitt og vitiði, ég dýrka það. Ég elska að sjá eitthvað verða til, eitthvað sem ég setti saman, að sjá mína hugmynd verða að veruleika. Ég elska að búa til afmælis- eða jólagjafir sem eru sérhannaðar handa viðtakandanum. Auðvitað hafa komið tímabil þar sem ég hef minnkað föndrið, eftir að ég fékk barn nr. 2 í fangið þá snerti ég ekki á bútasaumi í meira en ár einfaldlega vegna þess að ég hafði ekki tíma, en þvílík tilfinning þegar ég byrjaði aftur.

Margir hafa spurt hvernig ég komist yfir þetta allt. Ég vinn 75% sem læknaritari og ég á 2 börn, en svarið er einfalt. Ég er skipulögð og ég nota hverja mínútu. T.d. um daginn þá vorum við öll tilbúin fyrir skóla og vinnu, og það voru ennþá 15 mín. þangað til að við þyrftum að loka útidyrahurðinni. Og hvað gerði ég? Ég vissi að ég þyrfti að gera nokkur kort þá um kvöldið þannig að ég fór og tók til pappírinn sem ég þurfti. Svo kom ég heim, lét krakkana læra og notaði svo þennan smá tíma áður en klukkan varð verð-að-fara-að-elda-kvöldmat til að vinna aðeins í kortunum.

Þannig, í stuttu máli, ég veit ekki út af hverju ég föndra, en ég hef verið svona frá því að ég man eftir mér og fer varla að breytast núna (enda eins og maðurinn sagði, ef hluturinn er ekki brotinn, af hverju að líma hann?).  

 

 

SHARE