Af hverju ertu allt í einu svona sjúklega heilög týpa?

Góð spurning, takk fyrir að spyrja.

Þrátt fyrir mikla vitundarvakningu þá er alltaf einhver í „kaffistofutjattinu“ sem hefur orð á manneskju sem virðist vera orðin þessi „sjúklega heilaga týpa“. Sá sem gagnrýnir er mögulega sá sem hefði mest þörf fyrir að líta inn á við, en það er bara mín skoðun.

Ég trúi að við finnum öll okkar leið til að lifa, engin ein leið er réttari en önnur, mikilvægast er að við séum samkvæm okkur sjálfum.

Ef ég tala fyrir sjálfa mig þá er ég fædd andlega þenkjandi, ég las bækur um „heildarmyndina“ áður en ég fékk áhuga á öðru lesefni. En það er ekki sérlega praktískt að vera 17 ára í kringum 1992 og vera andlega þenkjandi, það er betra að vera „venjuleg“ manneskja. Svo ég lagði þennan eiginleika á hilluna…í mörg ár. Ég hef alla tíð og alltaf haft knýjandi þörf fyrir að skilja mannlegt eðli og haft einlægan og kærleiksríkan áhuga á fólki. Ég hef sannarlega ekki haft þennan áhuga á fólki til þess að slúðra um það heldur til þess að skilja það á dýptina. Hvers vegna er einhver eins og hann er, hvað er það í hugarfarinu sem gerir manneskju að því sem það er, hvað hafði þau áhrif í uppeldi, aðstæðum og umhverfinu sem gerði ÞIG að þeirri manneskju sem þú ert? En hver nennir að eiga 17 ára vinkonu sem þarf að kryfja þig?

Svo ég lagði MIG til hliðar í mörg ár.

Það sem ég vil meina að sé undanfari þess að fólk fer í þá áttina að skoða líf sitt og finna sína leið er einhverskonar 0 punktur. Ef ég tala fyrir mig sjálfa þá þurfti ég að hrapa ansi hátt til þess að fara aftur í upprunann. Klessa andlitinu í jörðina og átta mig á að það þyrfti til breytingar. Ekki vegna þess að ég væri í einhverri óráðssíu, kannski frekar vegna þess að ég var að standa mig OF vel gagnvart flestum nema sjálfri mér. Þessi einlægi áhugi á manneskjunni, heildrænni hugsun, samspils líkama og huga vaknaði því aftur. Bækurnar sem höfðu safnast upp í hillunum og öll kunnáttan var dregin fram aftur og ég byrjaði á sjálfri mér. ÉG varð viðfangsefnið áður en ég skoðaði aðra eða skellti skuldinni á aðra til þess að skilja mín örlög.. Ég vildi skilja MIG, ..af hverju ákvarðanir mínar í lífinu höfðu verið eins og þær voru, af hverju vanvirðing við mig í gegnum tíðina, af hverju sorg í hjartanu, af hverju gleði?? Hvað gerði mig að þeirri manneskju sem ég er í grunninn? Og af hverju hafði ég tapað stelpunni sem ég var?

Ég veit fátt betra en að hjálpa mínum skjólstæðingum til að finna sinn innsta kjarna aftur og uppgötva sig upp á nýtt, eins og ég gerði með vinfangsefnið MIG sjálfa.

Og ég er ekki heilög…hjálpi mér nei, ég geri mín mistök og misstíg mig reglulega, en ég er öguð, jákvætt gagnrýnin á sjálfa mig og skoða flest þau skref sem ég tek í samskiptum við aðra og vil meina að ég læri af þeim og lagfæri ef mér finnst ég ekki hafa vandað mig. Ég á auðvelt með að biðjast fyrirgefningar og geri það hiklaust ef ég hef „brotið af mér“. Ég er samt mannleg og á mín augnablik eins og allir eiga.

Sviptir það mig/þig skemmtilegheitunum að verða andlega þenkjandi? Nei það gerir þig skemmtilega/n. Ég er ekki minna að láta eins og apaköttur, ef eitthvað er þá er ég frekar að leyfa mér að vera ég með öllum mínum kostum og göllum.

Er þetta auglýsing?? „Lifðu betur sem andleg og heilög týpa“ Nei… þetta er útskýring fyrir „kaffistofutjattarana“ á því hvers vegna „Þórhildur“ í bókhaldinu er allt í einu róleg, æðrulaus og ólík sjálfri sér í fasi. Konan sem var alltaf á yfirsnúningi virðist hafa fengið geislabaug. Hún kannski fann bara sjálfa sig loksins, er það ekki bara frábært? Hún er ennþá sama manneskjan, hún fann bara ró innra með sér, og skilar bókhaldinu þeim mun betur af sér.

Leyfðu þér að finna þína leið, sama hvert þú ferð í lífinu þarftu alltaf að taka ÞIG með, og kannski er betra að vera sátt/ur við þig en í afneitun á eðli þitt og persónuleik.

SHARE