Af lífsstílsbólum og megrunarkúrum

Ég hef glímt við átröskun og ég hef líka sigrast á átröskun. Stundum velti ég því fyrir mér hvort okkar eigið samfélag eigi við einhvers konar átröskunarvandamál að stríða.
Mín reynsla hefur orðið til þess að ég sé ákveðna hluti með öðrum augum en margir  aðrir. Ég get ekki annað en sett spurningamerki við ákveðnar lífsstílsbólur og megrunarkúra sem samfélagið er svo upptekið af um þessar mundir.

Ég ætla mér ekki að vera gagnrýnin og leiðinleg eða draga fólk niður í svaðið sem ákveður að taka 30 daga í þessu átaki, fasta, hreinsa eða aðhyllast x lífsstíl eða mataræði. Það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum.
Ég get ekki útilokað að þetta virki fyrir þá einstaklinga og kannski er þetta eitthvað sem verður til þess að þeim líði betur og öðlist betri heilsu.
Það finnst mér ekkert nema jákvætt og mikið vona ég að sá árangur haldist til frambúðar.

Nú eru þessar raddir bara það háværar að oft hættir fólki til að túlka þetta sem lausn fyrir alla. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta getur verið mjög skaðlegt fyrir suma. Sum eyru þola ekki að heyra þetta og sum eyru kunna ekki að vinna rétt úr þessum skilaboðum.

Það er staðreynd að sjaldan hafa fleiri beðið meðferðar við átröskun.

Börn, unglingar og harðfullorðið fólk.
Þess vegna hljóta mín spurningamerki að eiga rétt á sér.
Hvað ef saklaus lífsstílsbólan eða megrunarkúrinn verður til þess að þú þróar með þér átröskun. Hvað ef of mikið verður of mikið ?
Oft ætlum við að gera svo vel og helst sigra heiminn í gær.  Við gleypum allar heilsupillur sem fjölmiðlarnir bjóða upp á.  Einn daginn verður of mikið bara of mikið.
Samfélagið er mjög upptekið af því að við séum öll að verða svo háð mat.
Það er auðvitað staðreynd – öll förum við jú út í búð að kaupa í matinn svo hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá erum við háð mat. Án hans komumst við ekki langt. Við þurfum mat til að lifa. Mér finnst það mjög sorglegt ef við kunnum svo ekki að eiga í heilbrigðu sambandi við mat. Það er röskun.
Ég veit líka að hinu megin borðsins eru einstaklingar sem eiga við matarfíkn og offitu að stríða. Þeir ráða ekki við löngun sína í mat og borða of mikið. Það er annað og líka mjög alvarlegt vandamál.

Ég hef áhyggjur af unglingsstúlkunni sem er ekki örugg með útlitið. Hún vill smella eins og púsluspil inn í hópinn.  Henni finnst hún ekki nógu grönn og fín. Hún vill verða fullkomin eins og pían í glanstímaritinu. Ef ég segi henni að hún megi bara borða milli klukkan x og y.  Ekkert fyrir klukkan x á daginn og ekkert eftir y á kvöldin. Þessi stúlka getur hæglega átt í erfiðleikum milli x og y. Ef hún fær sér þetta á diskinn – er það þá of mikið?  Er hún þá að skemma árangurinn?  Ætti hún ekki að minnka þetta? Má hún borða þetta?  Eru of margar hitaeiningar í þessu ?  Ef ég segi henni að setja allt á þessum lista út og hún megi ekkert fá úr þessum og hinum fæðuflokknum. Get ég verið viss um að hún ráði við eigin hugsanir í eldhúsinu ? Gæti ég verið að kveikja á einhverjum ótta við mat hjá henni ? Gæti hún átt eftir að sitja uppi með brenglaðar hugsanir tengdar mataræði ?
Hún þarf ekki einu sinni að vera unglingsstúlka. Hún getur verið strákur, harðfullorðin kven- eða karlmaður.
Átröskun spyr ekki um aldur, stöðu né kyn.

Getum við talist heilbrigt samfélag ef við erum svona rosalega upptekin af mataræðinu og hvort við megum þetta eða hitt í þeim efnum ?
Hvers vegna missa allir sig í sukkinu á ákveðnum árstímum til þess að geta leitað í hinar öfgarnar þegar honum lýkur ?
Hvers vegna eru hin gömlu og góðu gildi næringarfræðinnar og meðalhófsins talin úrelt og ekki nógu mikið inn í dag ?
Þar bætast fleiri spurningamerki við.

Það er ekki bara ímyndin á glanstímaritinu.  Það sem við segjum og gerum hefur áhrif og það hefur mátt.  Við þurfum að tryggja að orð okkar og gjörðir viðhaldi heilbrigðri sál í hraustum líkama.

Höfundur: Birna Varðar.

birna

SHARE