Áhrif tekna á heilsu

Hér á landi sér hið opinbera um að fjármagna stærstan hluta af heilbrigðisþjónustu landsmanna. Að baki þessari miklu þátttöku ríkisins í greiðslu á heilbrigðisþjónustu liggja jafnréttissjónarmið. Þeir efnameiri geta keypt sér meira af ýmsum gæðum, en ekki hefur þótt réttlátt að heilsa sé hluti af þessu hvatakerfi samfélagsins. Íslensk lög um heilbrigðismál hefjast á eftirfarandi hátt: “Allir landsmenn skulu eiga kost á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita til verndar andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði.”

Þrátt fyrir þessi markmið er tölfræðilega marktækur munur á heilsu fólks eftir fjárhagsstöðu hér á landi. Þessi munur er þó ekki sérlega mikill í samanburði við önnur lönd. Einnig ber að geta þess að ekki er allur breytileiki heilsu eftir tekjum tilkominn vegna fjárhagslegs skorts, heldur eru ýmsir aðrir þætti sem spila inn í. Hátekjufólk er um margt ólíkt lágtekjufólki. Meðal þess sem hefur áhrif í þessu sambandi er menntun, en hún hefur bæði áhrif á heilsu og tekjur. Einnig má nefna ýmsa þætti í lífsstíl einstaklinga, s.s. reykingar, sem eru algengari hjá lágtekjufólki en hjá hátekjufólki. Ef stjórnvöld hafa áhuga á að draga enn frekar úr sambandi tekna og heilsu hér á landi væri því ekki síður vænlegt að líta til lífstíls og menntunar en aðgengis að fjármagni.

Sjá einnig: Ekki vera einstæð

Það má leiða að því líkum að gott og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi haft sitt að segja varðandi hversu lítil tengsl eru á milli heilsu og launa hér á landi. Hins vegar hafa erlendar rannsóknir sýnt að það sem skiptir mestu máli í þessu sambandi er almennur jöfnuður í samfélaginu. Ef ójöfnuður er mikill þá er fjármögnun hins opinbera á heilbrigðisþjónustunni aðeins takmörkuð vörn gegn tekjutengdum heilsuójöfnuði.

Í alþjóðlegum samanburði búa íbúar ríkra landa almennt við betri heilsu og meira langlífi en íbúar fátækra landa. Þetta samband heldur þó aðeins að borin sé saman heilsa í þróunarlöndum og þróuðum löndum. Meðal þróaðra þjóða eru það ekki tekjur einstaklinganna eða þjóðartekjur sem skipta sköpum, heldur er það dreifing teknanna sem hefur mest áhrif á heilsu og lífslíkur. Rík lönd sem hafa jafna tekjudreifingu, s.s. Svíþjóð og Japan, búa við meira langlífi en t.d. Bandaríkin þrátt fyrir að Bandaríkin séu ríkari á mælikvarða þjóðarframleiðslu. Hér á landi er ójöfnuður í tekjum að aukast og er því hugsanlegt að tekjutengdur ójöfnuður í heilsufari landsmanna muni líka aukast.

Sjá einnig: „Íslenska ríkið hvetur veikt fólk til sjálfsvíga!!“ – Þjóðarsálin

Það sem kemur nokkuð á óvart í íslenskum niðurstöðum er að miklar tekjur hafa neikvæð áhrif á heilsu. Ekki er ljóst hvað veldur þessari niðurstöðu. Stress hefur verið skoðað í þessu samhengi og virðist ekki stjórna þessu sambandi. Aðrar tilgátur eru t.d. þær að (1) hátekjufólk taki sér ekki tíma til þess að sinna heilsunni sem skildi eða (2) að hátekjufólk svari spurningum um heilsu sína öðruvísi en lágtekjufólk. Hvort ástæðurnar liggja í þessum tilgátum eða öðrum er enn er ókannað.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir,

heilsuhagfræðingur.

Sjá fleiri heilsutengdar greinar á

doktor.is logo

SHARE