„Aldrei aftur lýtaaðgerðir“ – Stjörnur sem hafa snúið baki við lýtaaðgerðum

Samfélagsmiðlar eru stórir í lífi margra og flestir að minnsta kosti með einn samfélagsmiðil. Í kjölfarið hafa margir orðið helteknir af útliti sínu og leitað ýmissa leiða til að ná ákveðinni „fullkomnun“. Húðin á að vera fullkomin, engar sjáanlegar svitaholur, nefið fullkomið, kinnbeinin nógu stór, en alls ekki of stór, varirnar kyssulegar, engin hrukka, engir baugar eða litamunur á andliti, engin undirhaka og kjálkalínan á að vera sjáanleg. Það væri endalaust hægt að telja upp en þið vitið hvert við erum að fara. Þegar við notum orð eins og fullkomnun er auðvitað ekki hægt að segja hvað, hverjum um sig finnst vera fullkomnun, en það virðist vera að komið sé einskonar „mót“ sem allir vilja passa í.

Fræga fólkið verður auðvitað vart við þessa breytingu og öll eldumst við og þær líka. Margar stjörnur hafa leitað til lýtalækna og sóst eftir þessari fullkomnun og því að halda í unglegt útlit sitt. Það eru hinsvegar nokkrar stjörnur sem hafa prófað lýtaaðgerðir en hafa sagt frá því að þær muni ekki gera það aftur.

Jamie Lee Curtis

Hin 63 ára gamla leikkona, Jamie Lee Curtis, sagði einu sinni frá því að hún hafi prófað lýtaaðgerðir fyrir nokkrum áratugum og að það hefði ekki „virkað“. Jamie hefur haldið sig alveg frá fegrunaraðgerðum og segist afdráttarlaust vera á móti þeim. Hún sagði: „Þessi þróun sem er í gangi núna, með fylliefni og lýtaaðgerðir, eru að þurrka út heilu kynslóðirnar af fegurð. Þegar þú hefur ruglað í andlitinu þínu, geturðu aldrei fengið það til baka.“

Courteney Cox

Hin 58 ára gamla Courteney Cox hefur sagt frá því að hún hafi á einhverjum tímapunkti reynt að „eltast“ við unglegt útlit sitt. Hún sagði frá því að hún hafi prófað fylliefni og bótox og það hefði gert það að verkum að hún leit „skringilega“ út. Courteney lét á endanum taka öll fylliefnin úr andliti sínu og sagði hún: „Þú þarft að geta hreyft á þér andlitið, sérstaklega ef maður er með þunna húð eins og ég. Ég hef lært að kunna að meta hreyfigetuna í andlitinu og orðið það ljóst að fylliefni eru ekki vinir mínir.“

Jessica Simpson

Hin 42 ára gamla söngkona, Jessica Simpson, hefur sagt frá því að hún hafi fengið sér fyllingar í varirnar og hún hafi ekki verið ánægð með það. Hún sagði: „Þetta leit ekki út fyrir að vera ekta. Mér líkaði það ekki.“ Til allrar hamingju leystust fyllingarnar upp á 4 mánuðum svo varir hennar urðu aftur eins og áður.

Jane Fonda

Jane Fonda (84) hefur verið þekktust fyrir sitt frábæra líkamlega form og þakkar það heilbrigðum lífstíl og miklum æfingum. Hún hefur þó sagt frá því að hún hafi einu sinni farið í andlitslyftingu og segist ekki vera stolt af því. Hún segist hafa hætt öllu svona því hú hafi ekki viljað verða „afmynduð“.

Melanie Griffith

Melanie Griffith(65) segist sjálf hafa farið yfir strikið í lýtaaðgerðum fyrir yfir 20 árum síðan og það hafi haft mikil áhrif á útlit hennar. Hún viðurkennir að hún hafi ekki gert sér grein fyrir hversu breytt hún hafi verið fyrr en fólk fór að benda henni á það. Melanie sagði: „Ég var svo sár“ en svo segist hún hafa áttað sig og farið til annars læknis sem fór að leysa upp fylliefnin til að líta „eðlilegar“ út.

Gwyneth Paltrow

Gwyneth Paltrow (50) segist hafa prófað lýtaaðgerðir þegar hún varð fertug. Hún segist hafa látið sprauta efnum í allt andlitið á sér og fundist það ömurlegt. „Ég leit hryllilega út. Annað augað á mér var meira að segja ofar en hitt og þetta voru klárlega stór mistök.“ Hún bætti við að þetta hafi sem betur fer verið tímabundið og áhrifin horfið á endanum.

Jennifer Grey

Jennifer Grey (62) fór í nefaðgerð árið 1989 og segir það hafi haft neikvæð áhrif á feril hennar. Hún fór í aðgerðina 2 árum eftir að hún varð risa kvikmyndastjarna í myndinni Dirty Dancing og sagði eftirá: „Ég fór inn í aðgerðina sem heimsfræg kona og kom út sem óþekkt manneskja. Ég verð alltaf fyrrverandi fræg leikkona sem enginn þekkir útaf nefaðgerð.“

Cameron Diaz

Cameron Diaz (50) hefur sagt frá því að hún hafi farið í bótox og var alls ekki ánægð með útkomuna. Hún sagði: „Þetta breytti andlitinu mínu á svo furðulegan hátt að ég hugsaði: „Nei mig langar ekki að líta svona út.““Hún bætti svo við: „Ég vil frekar sjá andlit mitt eldast frekar en að sjá andlit sem ég þekki ekki sem mitt eigið.“ Hún sagði líka að broshrukkurnar væru ekki að trufla hana: „Gettu hvað þær þýða? Að ég hef brosað allt mitt líf. Ég er hamingjusöm og það er bara æðislegt!“

SHARE