Algengar mýtur varðandi næringu og heilsu

Við lifum í upplýsingasamfélagi þar sem við erum nánast að drukkna í upplýsingum um öll heimsins mál. Það koma mjög misvísandi upplýsingar frá miðlum um ýmislegt sem snýr að næringu og heilsu. Oftast eru þetta upplýsingar til þess að selja eitthvað eins og t.d. megrunarkúra, megrunarbækur eða eitthvað undranæringarefni sem á að bjarga heilsu allra landsmanna.
Ég starfa dagsdaglega sem næringarfræðingur og leiðbeini fólki með mataræði þeirra og lífsstíl. Það er æði oft í minni ráðgjöf sem ég verð vitni að miklu þekkingarleysi og ranghugmyndum sem mínir skjólstæðingar hafa varðandi næringu og heilbrigðan lífsstíl.  Þetta stafar af gígantísku magni af röngum upplýsingum um næringu og heilsu sem flæðir yfir í „upplýsinga“samfélagi nútímans. Það er mikið af „FAKE NEWS“ í heilsu- og næringarfræðum eins og í Hvíta húsinu

Hér eru 10 helstu ranghugmyndirnar í heilsu og næringu sem ég hef rekist á mínu starfi:

Safakúrar eru góðir fyrir heilsuna og þyngdina
Bráðlega  hljótum við öll að geta orðið sammála um að kúrar eru ekki  málið í heilbrigðum lísstíl, þeir eru allir bara tímabundir. Allir kúra virka meðan á þeim stendur því það er skorið  niður á hitaeiningar. Það sem er slæmt við safakúra er að við töpum góðri næringu (vítamínum, steinefnum og trefjum) með hratinu þegar safapressa er notuð. Við mundum aldrei borða fjórar appelsínur í einu eins og við þömbum þegar við drekkum eitt appelsínusafaglas! Borðum ávexti í sinni náttúrlegu mynd en drekkum þá ekki . Það er heilbrigður lífsstíll að borða mat og drekka vatn, ekki drekka ávextina.
Eftir því sem aldurinn færist yfir og hreyfing minnkar ætti maður sérstaklega að forðast safa til að þyngjast ekki.

Hreyfing er besta meðalið við ofþyngd
Við sjáum sjónvarpsþætti eins og Biggest Loser þar sem þátttakendur djöflast allan liðlangan daginn við þol- og styrktaræfingar til grenningar. Það er eins og skilaboðin séu að ef þú hreyfir þig bara nógu mikið þá nærðu að brenna auka fitunni af.  Staðreyndin er samt sú að mataræðið er um 70-80% af árangri í þyngdartapi, hreyfing er 20-30%.
Hitaeiningar sem við getum neytt eru svo miklu stærri þáttur en þær hitaeiningar sem við getum eytt í líkamsræktinni. Einn góður hamborgari með frönskum er um 800 hitaeiningar en mjög röskur göngutúr í klst brennir  um 400 hitaeiningum.
Það má samt alls ekki gera lítið úr þætti hreyfingar í heilbrigðum lífsstíl til að bæta líkama og sál.
Hér er grein um hin ýmsu æfingakerfi til að komast í gott form.

Fæðubótarefni eru allra meina bót
Við sem manneskjur og lífverur erum hönnuð með tennur og meltingarveg til að melta MAT en ekki endalaust af fæðubótarefnum í pillu- eða duftformi. Fæðubótarefni eiga að vera uppbót í mataræðið en ekki undirstaða þess. Fæðubótarefni eru oft auglýst sem allsherjarbót á öllum hugsanlegum mannlegum kvillum og eru auglýsingar mjög gífuryrtar.
Almenningur notar  mjög mikið af fæðubótarefnum en hefði mun betra af góðri og næringarríkri fæðu –  Oft eru fæðubótarefnin meira bruðl en bót og það var til mjög heilbrigt fólk  áður en öll fæðubótarefnin urðu til.
Hér má lesa grein á NLFÍ um hvaða fæðubótarefni virka raunverulega og einnig má kynna sér málþing um fæðubótarefni sem NLFÍ hélt árið 2016.

Stjörnur miðlanna eru flottar og heilbrigðar
Fátt er meira gervi en stjörnur miðlanna s.s. samfélagsmiðla, glanstímarita og/eða sjónvarpsþátta. Þegar ég var ungur drengur leit ég mjög upp til massaðra vöðvafjalla í vaxtarræktarblöðum. Ég tók kreatín og prótein í öll mál ásamt því að lyfta sex sinnum í viku en samt náði ég aldrei sama  vöðvavexti og  fyrirmyndir mínar úr blöðunum . Það sem ég vissi ekki á þessum tíma var að til að ná svona vöðvavexti hefði ég þurft  að taka stera og nota önnur óheilbrigð meðul eða aðferðir.
Of mikið af því fólki sem maður sér á samfélagsmiðlum, í blöðum og í sjónvarpi eru glansmyndir af veiku gervifólki sem misnotar lyf og beitir ýmsum óheilbrigðum aðferðum til að ná útliti sínu. Þetta eru lélegar og síður en svo hraustar eða heilbrigðar fyrirmyndir fyrir nokkurn mann.
Leitum að heilbrigðu fólki í okkar nærumhverfi og látum þau vera okkar fyrirmyndir í lífinu. Enn betra er að vera sjálf/ur alvöru og heilbrigð fyrirmynd með því að stunda heilbrigðan lífsstíl. Ekki vera bara fyrirmynd líkamlega heldur líka andlega með því að koma vel fram  við menn og málleysingja.

Orku- og amníósýrudrykkir eru hollir og ættu að vera hluti af hollum lífsstíl
Við Íslendingar drekkum mikið af ýmsum orku- og amínósýrudrykkjum og þeir eru auglýstir sem hluti af hollum lífsstíl. Staðreyndin er sú að mikið af þessum drykkjum innihalda ýmis aukaefni s.s. bragð- og litarefni sem eru ekki æskileg. Auk þess er mikið magn koffíns í þessum drykkjum sem getur verið hættulegt börnum og unglingum sem þykja drykkirnir spennandi .
Orkudrykkir er mikið rangnefni því í einum þessara drykkja eru t.d. einungis 10 hitaeiningar en reyndar fullt af koffíni, sem er gerviorka sem endist ekki í mjög langan tíma. Kaffibolli og egg væri flottari og náttúrulegri næring en mikið af þessum orku- og amínósýrudrykkjum.

Fita er óholl
Fita er eitt af  aðal orkuefnunum þremur (hin eru prótein og kolvetni) og líklega það orkuefni sem hefur mátt þola hvað mestar árásir í gegnum tíðina en ófáar matvörur hafa verið seldar sem fitusnauðar eða fitulausar. Á sjötta áratug síðustu aldar var neysla fitu úr matvælum tengd við offitu og hjarta- og æðasjúkdóma en þeirri kenningu hefur að mestu verið hnekkt, þó enn sé mælt með að neysla á mikið mettuðum fitum og transfitusýrum sé takmörkuð til að minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.
Fita er m.a. nauðsynlegur hluti af heilbrigðum líkama og er hluti frumuhimna, hormóna og vítamína. Við þurfum fitu til að geta lifað heilbrigðu lífi og láttu engan plata þig til að kaupa  FAT-FREE (fitulausar) vörur, því oftast er búið að bæta einhverjum öðrum efnum í þær vörur sem eru síður en svo hollar.
Hér má lesa grein um fimm hollar og fituríkar matvörur.

Brauð er fitandi og óhollt
Það kemur varla sú manneskja til mín í næringarráðgjöf sem ekki er búin að hætta brauðneyslu til þess að grennast. Ekki veit ég hvenær sú mýta hófst að brauð væri upphaf og endir allrar okkar fitusöfnunar því það er svo margt annað miklu verra í okkar mataræði en brauðið.
Brauð er vissulega mismunandi að gæðum þegar kemur að hollustu og ættum við alltaf að reyna að velja gróft heilkornabrauð, því meira af heilkorni og fræjum því betra. Með því að hafa heilkornið og fræin fáum við  mikið af vítamínum, steinefnum og trefjum sem lítið er af í hveitibrauðum. Besta valið í brauðum er grófa brauðið sem við bökum heima.
Það er reyndar hægt að borða of mikið af brauði og við munum fitna ef við neytum þess ófhóflega  – óhóf af öllu tagi er ekki af hinu góða. Ágætis viðmið í mataræðinu er  2-3 grófar brauðsneiðar á dag.
Hér má finna grein um hollustu trefja.

Sætuefni eru miklu hollari en sykur
Við erum öll orðin sammála um að óhófleg sykurneysla er ekki af hinu góða og leitum því logandi ljósi að einhverju sem getur komið í stað sykursins. Sætuefni komu á markað sem val fyrir sykursjúka í sætu deildinni . Í dag erum við komin á þann stað í neyslu sykurlausra matvara og drykkja að neyslan er orðin almenn og oft mjög mikil.
Neytendur telja að sykurlausu vörurnar séu miklu hollari en venjulegu sætu vörurnar en rannsóknir undanfarinna ára sýna að við þurfum sem neytendur að vera meðvituð um  hversu mikið af gervisætum við  innbyrðum.
Allflest sætuefni eru tilbúin efni og efnablöndur sem verða til á tilraunastofum. Náttúruleg sætuefni eins og stevía t.d. hefur engar hitaeiningar og er 250 sinnum sætari en venjulegur sykur. Þó stevía sé ekki tilbúið efni þá er búið að vinna náttúrulega plöntu mjög mikið til að ná þessum „extract“ úr stevíu. Þetta „náttúrulega“ sætuefni er ekkert betra fyrir heilsu okkur en tilbúnu sætuefnin. Það veldur sama ójafnvægi í líkamanum því það er verið að plata líkamann eins og með hinum sætuefnunum. Þó eitthvað sé náttúrulegt er ekki þar með sagt að það sé hollara eða öruggara.
Notum bara „heiðarlegan“ hvítan sykur hófleglega í stað þess að nota óhóflega af sætuefnum. Notum sætu úr ávöxtum til að gera matvörur sætari á bragðið.
Grein á NLFÍ um sykurlausa drykki.
Hér má líka glöggva sig enn frekar á sætuefnum með því að kynna sér málþing sem NLFÍ hélt um sykur og sætuefni.

„Hollustu“nammi er góður kostur
Það er mikið um allskyns nammi dulbúið  sem „hollustu“nammi, bara af því að hollustan selur og við viljum öll huga að heilsunni.
Staðreyndin er samt sú að nammi er sjaldnast hollt en þegar búið er að setja á umbúðirnar orðin PRÓTEIN, LITE, RAW, FAT-FREE, POWER, VEGAN, NO SUGAR þá drögumst við að vörunm eins og flugur að skít.
Oft er hollustunammið stútfullt af hvítum sykri þótt það séu 25 g prótein í stykkinu. Þegar við teljum okkur trú um  að við séum að borða eitthvað hollt þá neytum við meira af því og verður þá meira um óhóf, t.d.  drekkum við meira af Lite bjór af því að hann er léttari í hitaeiningum. Í stað þess að taka kippu af Lite bjór ættum við að njóta æðislega bragðgóða sérbruggaða bjórsins og drekka í mesta lagi tvo af honum.
Þetta snýst nefnilega allt um að kunna að njóta óhollustunnar en ekki vera að háma sig endalaust af einhverju hollustunammi. Ekki láta neinn plata þig til að kaupa „hollustu“nammi, njóttu frekar bara alvöru nammis einstöku sinnum.

Örbylgjuofnar eyðileggja næringu matar
Margir eru hræddir við að nota örbylgjuofna til hitunar því þeir telja að það sé óheilsusamleg eldunaraðferð. Það eina sem gerist við örbylgjuhitunina er að örbylgjurnar koma hreyfingu á vatnssameindirnar í matnum sem veldur svo hitun vatns og þar með matarins (sem í flestum tilfellum er að stærstum hluta vatn). Það verður engin geislun eða né  önnur efnahvörf í vatninu við örbylgjuhitun.
Örbylgjuhitun veldur einhverju tapi á næringarefnum og þá aðallega af vatnsleysanlegum vítamínum. Þó  tapast mun minna af vatnsleysanlegum vítamínum við örbylgjuhitun en t.d. við suðu. B-12 vítamínið er sérlega viðkvæmt gagnvart örbylgjum og ætti því að forðast að hita  b-12 vítamínríkar vörur  í örbylgjuofnum.

Skrifað af Geir Gunnari Markússyni, ritstjori@nlfi.is og birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE