„Allir“ eru að gera svo skemmtilegt nema ég

Eru allir í kringum þig að pósta öllu því frábæra sem þeir og fjölskyldan eru að gera? Eru allir að fara eitthvað skemmtilegt nema þú? Eru allir nema þú að tjalda eða jafnvel enn verra að leggja flotta hjólhýsinu sínu og sitja skælbrosandi á mynd uppfullri af gleði og hamingju? Eru allir með hamingjusöm börn og ALLTAF að gera eitthvað uppbyggilegt, hvetjandi og þroskandi með ungunum sínum nema ÞÚ?

Hvað er „ALLT“ þetta fólk að gera betur en þú? Af hverju tekst öllum öðrum miklu betur upp en þér í lífinu?Þú ert klárlega ekki ein(n) um að hugsa svona. En veistu, „ALLT“ þetta fólk er bara fólk eins og ég og þú, það er mögulega „aktíft“ á samfélagsmiðlum, brosandi framan í myndavélina í hvert skipti sem hamingjan er við völd.

En þetta fólk á líka sínar stundir, erfiðleika og er ekki sí brosandi. Það er ekki þar með sagt að þó það taki ljósmyndir í gríð og erg og deili öllu sínu að allir dagar séu á þessum nótum.
Það er verk okkar sjálfra að skapa okkar gleði líf!! Enginn getur búið til tækifærin fyrir þig, mig eða aðra…við erum fullkomlega ábyrg fyrir okkur sjálfum. Það er hvergi blússandi hamingja alla daga…ég held að það gæti jafnvel orðið þreytandi. Við þurfum að eiga okkar upp og niður daga og það er eðlilegt.
Hvað gætir þú gert til að búa til þín tækifæri?
Tækifæri þurfa ekki að kosta, flest það sem gefur okkur mest er algjörlega ókeypis. Sönn augnablik sem skipta máli. Ég veit að ég set þetta einfalt upp. En í mínum huga, huga sem hefur þurft að skoða einmitt þetta er þetta svona einfalt.

Brostu framan í myndavélina og taktu þátt í gleðinni, hamingjan er hér og nú…en þó ekki stöðugt!..Hvergi!

SHARE