Alþjóðlegur dagur tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi

15. október er alþjóðlegur dagur tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi. Af því tilefni verður haldin helgistund í Garðakirkju, Álftanesi og góðgerðartónleikar á Akranesi. Báðir viðburðir byrja kl. 20.

Gleym-mér-ei skartgripalína

Gleym-mér-ei styrktarfélag og Aurum skartgripafyrirtæki eru í samstarfi um skartgripalínu sem ber heitið “Gleym-mér-ei” og mun ágóðinn af henni renna í styrktarsjóð Gleym-mér-ei. Skartgripalínan kemur út fyrir jólin og mun samanstanda af eyrnalokkum, hálsfesti og nælu.

Hugsunin bakvið skartgripalínuna er að gefa fólki tækifæri til þess að styðja mikilvægan málstað ásamt því að eignast eða gefa fallegan skartgrip sem gerir fólki kleift að tengja minningu um látinn ástvin við eitthvað áþreifanlegt, en það er oft stór þáttur í sorg foreldra sem missa á meðgöngu – einmanaleikinn og tómarúmið sem missirinn skilur eftir sig.

1382116_10151605473381829_853660655_n

Um Gleym-mér-ei styrktarfélag

Gleym-mér-ei er styrktarfélag sem stofnað var til á haustmánuðum 2013 með þann tilgang að halda utan um styrktarsjóð sem notaður verður til að styrkja ýmis verkefni í tengslum við missi barns á meðgöngu og í/eftir fæðingu. Verkefni styrktarfélagsins eru m.a. að safna fyrir endurbótum í samvinnu við samtökin Litla Engla og Kirkjugarða Reykjavíkur á Duftreiti fyrir fóstur í Fossvogskirkjugarði og að skipuleggja minningarathöfn sem haldin er ár hvert og er tileinkuð missi á meðgöngu og barnsmissi. Auk þess sem félagið mun styrkja tilfallandi verkefni þessu tengt.

Um Aurum

Aurum er skartgripafyrirtæki sem selur íslenska skartgripahönnun eftir Guðbjörgu Kristínu Ingvarsdóttur. Guðbjörg stofnaði fyrirtækið árið 1999. Á síðastliðnum 14 árum hefur hún þróað fjölbreyttar skartgripalínur og hefur sótt innblástur úr sínu nánasta umhverfi. Verslunin Aurum er staðsett í Bankastræti 4.

Nánari upplýsingar um helgistundina í Garðakirkju:

Helgistund verður í Garðakirkju í tilefni þess að 15. október er alþjóðlegur dagur tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi. Fram koma Reggie Óðins, Ellen Kristjánsdóttir og Bubbi Morthens.

Hægt verður að styrkja Gleym-mér-ei Styrktarfélagið með kaupum á Gleym-mér-ei slaufum og frjálsum framlögum.

Allir velkomnir.

SHARE