Angelina Jolie (39) lætur fjarlægja báða eggjastokka í forvarnarskyni

Angelina Jolie birti opinskáan pistil í New York Times fyrr í vikunni, þar sem hún greinir frá því að hún hafi undirgengist brottnám á eggjastokkum og eggjaleiðurum fyrir skemmstu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir krabbamein. Ekki eru nema tvö ár síðan Angelina undirgekkst einnig tvöfalt brjóstnám, þar sem hún er arfberi sömu gena og móðir hennar og amma, sem báðar létust úr krabbameini langt fyrir aldur fram.

Þannig ritar Angelina um þá upplifun að hafa undirgengist aðgerðina og segir meðal annars:

Burt séð frá hormónameðferðinni sem ég er nú á, er ég að fara gegnum snemmbært breytingaskeið. Ég mun ekki eignast fleiri börn og ég reikna fastlega með því að líkami minn muni taka breytingum frá og með þessum degi.

Í pistlinum segir Angelina einnig að hún hafi tekið meðvitaða ákvörðun um aðgerðina eftir að hafa ráðfært sig jafnt við austræna sem vestræna sérfræðinga, sem fól í sér brottnám beggja eggjastokka og eggjaleiðara, þar sem hún ber BRCA genið, en þess utan hafa þrjár náskyldar konur úr fjölskyldu hennar þegar látist úr krabbameini.

Sjá einnig: Angelina Jolie þegar hún var 18 ára – Sjáðu myndirnar!

Angelina er afar opinská og einlæg í umfjöllun sinni og segir legið ekki hafa verið fjarlægt, þar sem engin saga er um legkrabbamein í hennar fjölskyldu – en í kjölfar aðgerðarinnar þarf hún nú að nota progesterón plástra, þar sem líkami hennar framleiðir ekki hormónið af sjálfsdáðum í dag.

Sjá einnig: Angelina Jolie lét taka af sér bæði brjóstin

Tvöfalt brjóstnám Angelinu hlaut mikla athygli fyrir rúmum tveimur árum síðan og hratt af stað mikilli umræðu um gildi brjóstnáms og hvort konur, sem bera BRCA1 genið ættu að gera slíkt hið sama. Einhverjar konur sögðu Angelinu hafa orðið sér innblástur og hvatning til að leggjast undir hnífinn sjálfar í þeim tilgangi að hindra krabbamein í brjóstum – en sjálf hefur leikkonan lagt mikla áherslu á að konur eigi að gera það sem þeim sjálfum þyki rétt og eðlilegt, í stað þess að feta blint í spor annarra í sambærilegri stöðu:

Ég lagðist ekki eingöngu á skurðarborðið vegna þess að ég ber BRCA1 genið og ég vil að aðrar konur geri sér fulla grein fyrir því. Jafnvel þó konur beri genið er ekki þar með sagt að þær eigi að undirgangast brjóstnám. Ég tók þessa ákvörðun sjálf að vandlega íhuguðu máli, en þá hafði ég ráðfært mig við fjölda sérfræðinga, skurðlækna og náttúrulækna. Það eru fjölmargir aðrir valmöguleikar í boði.

Sumar konur velja að taka getnaðarvarnarpillur eða leita á náðir náttúrulyfja ásamt því að fara í reglubundna skoðun. Það er engin ein rétt leið til að taka á heilsufarslegum vanda. Mikilvægast er að kynna sér alla valmöguleika og velja hvað er rétt í hverju og einu tilfelli.

Mêr finnst ég ekki minni kona fyrir vikið og stend fastar en fótunum á því að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Ekki einungis fyrir sjálfa mig heldur einnig fyrir fjölskyldu mína. Ég get með fullri vissu sagt í dag að börnin mín muni aldrei segja – móðir mín fékk krabbamein í eggjastokka sem dró hana til dauða.

Pistil Angelinu í New York Times má lesa í heild sinni HÉR

SHARE