Astmaöndun hjá litlum börnum er algeng og kemur fyrir að minnsta kosti einu sinni hjá um 20% barna undir þriggja ára aldri. Í langflestum tilfellum eru það kvefveirur, sem valda einkennum, en svokölluð RS-veira er algengasti orsakavaldur astmaeinkenna hjá litlum börnum.
Einkenni:
Fyrstu einkenni eru yfirleitt horrennsli, særindi í hálsi, hósti og sum börn hafa hita. Astmaeinkenni koma oft fram á fyrstu tveimur dögum kvefsýkingar, fyrst og fremst vegna samdrátta í berkjum, þar getur einnig orðið bólga eða þroti sem þá eykur öndunarerfiðleika. Barnið andar þá hraðar og öndunin getur orðið hvæsandi og oft heyrist píp frá berkjum. Ef barninu versnar þá gerist það oftast á fyrstu 2-3 dögunum eftir sýkingu. Barnið hefur þá meira fyrir önduninni, og þá sjást oft inndrættir milli rifja og undir rifjabörðum. Öndunartíðni eykst og barnið er oft óvært samfara þessu. Á þessu stigi er nauðsynlegt að barnið leiti læknis. Ef barninu versnar enn frekar verður húðin þvöl og köld og blámi getur sést á vörum. Hér er nauðsynlegt að leita hjálpar án tafar.
Bráðameðferð:
Það er mikilvægt að barnið drekki ríkulega til að það losni um slím í loftvegum og til að forða barninu frá vökvatapi sem verður vegna öndunarerfiðleika og sýkingarinnar. Lyfjameðferð, sé hennar þörf, beinist að því að létta barninu öndun. Í fyrsta lagi fær barnið berkjuvíkkandi lyf og einnig getur barnið þurft súrefnisgjöf. Bólguhemjandi lyf eru gefin ef með þarf, í töflu- eða innúðaformi.
Viðhaldsmeðferð:
Þessi meðferð beinist að því að minnka bólgu í berkjum og einnig eru gefin berkjuvíkkandi lyf. Lengd meðferðar fer eftir hversu veikt barnið er og hversu oft barnið hefur haft astmaeinnkenni.
Fyrirbyggjandi meðferð:
Það er mikilvægt að enginn tóbaksreykur sé þar sem barn dvelur.
Astmi:
Ef barnið þitt hefur haft astmaöndun oftar en þrisvar samfara kvefi, eða ef astmi eða ofnæmi er í nánustu ætt og barnið þitt hefur haft astmaöndun samfara kvefi, er líklegt að barnið þitt sé með astma. Fáðu ráðleggingar hjá lækni þínum varðandi þetta.