Barnaheill standa fyrir hjólasölu á morgun – Hjól á sanngjörnu verði!

Á morgun, fimmtudaginn 20. júní, standa Barnaheill – Save the Children á Íslandi fyrir hjólasölu að Síðumúla 35 (bakatil), þar sem hjól sem gengu af í hjólasöfnun samtakanna verða seld á sanngjörnu verði. Hjólasöfnunin var unnin í samvinnu við hjólreiðakeppnina WOW Cyclothon, endurvinnslustöðvar, félagsþjónustuna og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur.

Mun fleiri hjól söfnuðust í ár en á síðasta ári, þegar tæplega 500 hjól bárust í söfnunina. Í ár eru hjólin 670. Einungis um helmingur hjólanna er nothæfur, hinn helmingurinn nýtist í varahluti.

Rúmlega 150 börn hafa nú notið góðs af söfnuninni og fengið afhent hjól sem sótt var um fyrir þau hjá Félagsþjónustunni eða Mæðrastyrksnefnd. Sjálfboðaliðar gerðu upp hjólin fyrir börnin, en þau hjól sem eftir standa eru óviðgerð.

„Þetta er búið að vera virkilega skemmtilegt verkefni og þessi fjöldi sem safnaðist sýnir svo vel gjafmildi Íslendinga. Núna viljum við koma þeim hjólum sem gengu af í umferð svo þau gagnist fleirum og höfum ákveðið að selja þau á sanngjörnu verði. Afraksturinn rennur til verkefna okkar í þágu barna,“ segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.

Hjólasalan fer fram bakatil í Síðumúla 35 frá klukkan 14-21 á morgun, fimmtudaginn 20. júní. Allir velkomnir. Hér sérðu slóð á viðburðinn.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here