Bati frá meðvirkni og fíknum – Fræðsla og ráðgjöf í Fjölskylduhúsi

Fjölskylduhús eru hagsmunasamtök fólks sem vinnur að bata frá fíknum og meðvirkni. Samtökin vinna að því að bjóða upp á fyrsta flokks fræðslu og ráðgjöf við fíknisjúkdómum og meðvirkni, jafnframt halda samtökin ýmiskonar námskeið sem bæði eru sniðin að einstaklingum og fjölskyldum.

Páll Þór Jónson og Kristín Snorradóttir stofnuðu Fjölskylduhús þann 22. Ágúst 2013 og eru samtökin með aðsetur á Grensásvegi 16a.

Páll hefur yfirgrips mikla þekkingu á fíknisjúkdómum og meðvirkni. Hann hefur liðsinnt fólki við að ná bata frá fíknum og meðvirkni um áralangt skeið. Kristín er þroskaþjálfi og hefur menntað sig í hugrænni  atferlismeðferð og hefur hún starfað sem ráðgjafi síðustu ár.

Sameiginleg sýn þeirra varð til þess að þau stofnuðu fjölskylduhús. Fíknisjúkdómar og meðvirkni hafa áhrif á alla fjölskyldumeðlimi og mikilvægt að þeirra mati að mæta fjölskyldunni heildrænt. Sú sýn varð kveikjan að Fjölskylduhúsi. 

„Við urðum vör við mikla þörf fyrir úrræði sem þetta og lögðum af stað með hugsjónina að vopni,“ segir Kristín í samtali við Hún.is. „Hugsjónin er að vinna að bættu samfélagi með því að styðja fjölskyldur til hamingjuríks lífs og bata frá fíkn og meðvirkni. Einnig að gera fólki kleift að leita sér hjálpar með því að bjóða upp á faglega og vandaða þjónustu á góðu verði.“

 

Hjá Fjölskylduhúsi er boðið uppá viðtöl við ráðgjafa, hópavinnu , námskeið og fræðslu fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Á heimasíðu samtakanna má finna ýmsan fróðleik um fíknir og meðvirkni og á Facebooksíðunni má fylgjast með starfi samtakanna og nálgast ýmsa uppbyggilega fróðleiksmola.

SHARE